Breski plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Kemal Okan er væntanlegur til landsins og mun leika á skemmtistaðnum Kapital á áramótafagnaði Breakbeat.is og Kapital. Af því tilefni hefur fréttaritari breakbeat.is sett saman þessa grein um ævi og störf Kemal.

Áhugi Kemal á danstónlist kviknaði þegar hann komst í kynni við techno í gegnum mixtape sem gengu kaupum og sölum í heimaborg hans, Glasgow, snemma á síðastliðnum áratug. Þessar spólur urðu kveikjan að því hann fór sjálfur að reyna fyrir sér við plötusnúninga og eftir örfáa mánuði var hann farinn að spila á klúbbum nánast hverja einustu helgi.

Á þeim tíma var mínímalískt Detroit techno aðalástríða Kemal og náði hann svo langt að farið var að bóka hann víða um Bretlandseyjar og var hann oft að hita upp fyrir mun stærri nöfn. En með árunum náði drum & bass / jungle tónlistin áhuga hans öllum. Til að byrja með voru það melódískir og djúpir drum & bass tónar sem voru í uppáhaldi hjá Kemal en fljótlega dróst hann að harðari og dekkri hliðum tónlistarinnar. Það var svo nokkru síðar að Kemal kynntist Rob nokkrum Rodgers, betur þekktan sem Rob Data í plötubúð í Glasgow. Þeir félagar náðu fljótlega saman í gegnum sameiginlegan smekk á tónlist og áður en varði voru þeir farnir að halda eigin drum & bass klúbbakvöld í Glasgow.

Í danstónlist, og þá drum & bass senuni sérstaklega, er erftitt að ná vinsældum sem plötusnúður eingöngu, þess vegna ákváðu þeir félagar að verða sér úti um stúdíó og hefja tónsmíðar saman. Technorætur Kemal pössuðu vel við hardcore og breakbeat áhrifin sem Rob Data var undir og útkoman varð ótrúlega einstakt sánd. Lög þeirra voru techno skotinn og drungaleg lög sem ollu usla á dansgólfum. Undir nafninu Konflict komust þeir á samning hjá útgáfunni Renegade Hardware og áttu lög á safnskífunni Armageddon sem innihélt m.a. lög frá Optical, John B, Digital & Spirit, Usual Suspects, og Future Cut, þess má svo geta að Armageddon er ein mest selda drum & bass skífa á Íslandi frá upphafi. Lög á borð við ‘Cyanide’, ‘Roadblock’ og ‘The Beckoning’ komu Konflict í fremstu röð innan drum & bass senunar og með dansgólfatryllinum ‘Messiah’ festu þeir sig endanlega í sessi sem einhverjir ferskustu og skemmtilegustu tónlistarmenn innan drum & bass heiminum.

Furðulegt nokk unnu þeir aldrei saman að lögum heldur komu inn í stúdíóið og skiptust á við að sitja við tónsmíðar. Eftir deilur við Renegade Hardware losuðu þeir félagar sig svo við Konflict nafnið og stofnuðu saman útgáfufyrirtækið Negative ásamt því að halda áfram að gefa út lög og remix á sumum af stærstu útgáfunum í bransanum má þar nefna Moving Shadow, DSCI4, Underfire og Timeless. Jafnframt þessu vann Kemal þó einn að lögum og nú er staðan sú að Rob Data hefur sest á skólabekk og lagt drum & bass á hilluna í bili. Þótt að Kemal vinni nú einn að tónlistinni er því fjarri að hún líði fyrir það, einn síns liðs hefur Kemal samið ótal slagara síðastliðinn ár, ‘Mutationz III’, ‘Plan B’, ‘Let it move you’ og nú síðast ‘The Calling’ sem hann vann í samvinnu við einn þekktasta harðhausinn í senunni Technical Itch.

Vinsældir Kemal sem plötusnúðs hafa vaxið samfara rísandi vinsældum hans sem tónlistarmanns og síðastliðinn ár hefur hann verið nánast óstöðvandi í ferð sinni um heiminn. Nú rekur hann einnig sína eigin útgáfu, Cryptic Audio og er hann enn í fararbroddi þegar nýstárleg og dansvæn drum & bass tónlist er annars vegar.