A-Sides Jason Cambridge, betur þekktur sem A-Sides, hefur verið órjúfanlegur hluti af drum & bass senunni allt frá upphafi. Vegna útgáfu fyrstu breiðskífu hans og væntanlegrar komu hans til Íslands þann 13. nóvember næstkomandi verður hér rennt yfir feril hans og plötusnúðurinn og listamaðurinn A-Sides kynntur betur fyrir íslendingum.

A-Sides byrjaði feril sinn innan tónlistar, sem hip hop aðdáandi eins og svo margir innan drum & bass heimsins. Með tveim plötuspilurum og fjögurra rása upptökutæki byrjaði hann frumstæðar tónsmíðar með því að loopa bútum af plötum og skratsa yfir. Seinna keypti hann sér trommuheila og svo sampler og eftir það segist hann aldrei hafa litið tilbaka. Hardcore tónlistin náði svo hug hans öllum um 1990 og hóf hann að semja hardcore lög fljótlega eftir það. Nafn sitt tók hann með því að snúa við dulnefni tónlistarmannsins Frank De Wulf, B-Sides og úr varð listamannsnafnið A-Sides. Fyrstu útgáfur hans komu út í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, hjá útgáfufyrirtækjum á borð við Boombastic Plastic, Strictly Underground og Just Another Label. Til að byrja með vann hann hjá bókahaldsfyrirtæki á daginn og samdi tónlist á næturna en fljótlega var það ekki nóg, eins og hann orðar það sjálfur: “tónlistin yfirtók líf mitt og ég var rekinn úr vinnunni. Ég ákvað að byrja að gera þetta að alvöru og líta fram á veginn.”

Úr þessu varð East Side útgáfufyrirtækið til árið 1996 og allt frá því hefur A-Sides þar gefið út dansvæna drum & bass tónlist frá sjálfum sér og öðrum. Lög eins og ‘Uptown’, ‘The Shuffle’ og ‘The Playa’ gengu vel í drum & bass aðdáendur þess tíma og hjálpuðu A-Sides að geta sér og útgáfu sinn gott orðspor meðal þeirra.

Haustið 1997 var undirútgáfa East Side, Fuze, sett á laggirnar og var hún hugsuð til að gefa út tilraunakenndari tóna sem þó voru dansvænir, listamennirnir Embee og Elements of Noize auk A-Sides sjálfs voru meðal þeirra fyrstu sem gáfu út á Fuze, sem skapaði sér fljótlega nafn meðal listamanna og plötusnúða fyrir tæknilega og drungalega tóna.

A-Sides sneri sér þó ekki eingöngu að myrkari og tæknilegri hlið tónlistarinnar. Ásamt saxófónleikaranum Nathan Haines gaf hann út þó nokkur djass skotinn lög undir nafninu Sci-Clone. Flautur, saxófónn og hljómborð einkenndu þessar tónsmíðar þeirra félaga sem var tekið opnum örmum af hinum virtu útgáfufyrirtækjum Metalheadz og Reinforced. Lögin ‘Melt’, ‘Everywhere I Go (remix)’ og ‘O.D.’ voru fersk og góð bót í drum & bass tónlist þess tíma þegar harðneskja virtist ætla að tröllríða öllu.

Síðastliðinn ár hefur A-Sides og útgáfur hans dafnað og stækkað. Stór nöfn innan drum & bass heimsins hafa gefið út hjá East Side m.a. Calibre, Total Science, Peshay og Digital. A-Sides sjálfur hefur einnig verið iðinn við að semja tónlist og hefur skilað sér í mörgum slögurum í gegnum tíðina má þar amen rúllaran ‘Crazy’, ‘Helsinki Nights, remix hans af ‘Waterhouse Dub’ eftir Digital og síðast en ekki síst eitt stærsta lag ársins í ár ‘What U Dont Know’ sem var unnið með MC Fats og söngkonuninni Regina.

Væntanleg breiðskífa A-Sides ‘Follow the Groove’ einkennist að miklu leyti af söng en auk MC Fats og Regina leggja MC MC, Justina Curtis (e.þ.s. J-Cut) og Nathan Haines öll hönd á plóg. Breiðskífan kemur út á 4x12” og tvöföldum geisladisk þar sem seinni diskurinn inniheldur 11 eldri áður óútgefinn lög frá A-Sides og MC Fats. Eftir það má búast við áframhaldandi útgáfu á East Side auk áætlaðra samvinnuverkefna með Klute, Digital, Calibre og fleirrum.

Sem plötusnúður er A-Sides einn sá færasti í bransanumog hefur sem slíkur spilað um víða veröld. Má búast við mikilli fjölbreytni og stemningu á Kapital þann 13. nóvember eins og þeir sem sáu A-Sides í fyrstu Íslandsheimsókn hans árið 2000 geta vitnað um. Ásamt A-Sides munu svo koma fram plötusnúðarnir Kalli og Leópold sem ásamt því að vera tveir af stjórnendum útvarpsþáttarins Breakbeat.is á X-inu hafa verið að gera það gott undanfarið sem fastasnúðar á Breakbeat.is kvöldunum.

-Kalli


heimildir:
http://www.eastside-records .com
tarzan.spoox.org
www.knowledgemag.co.uk

Þessi grein birtist einnig á breakbeat.is og þar er einnig að finna tóndæmi.