Þessi grein verður seint talin skemmtileg, enda í megindráttum um nafngiftir og aðgreiningu. Slíkt kveikir blossan hjá fáum. Svo er hún skrifuð í löngu, upphöfnu og steingeldu máli, enda var ritun greinarinar öðrum meiði leið til næturstyttingar manns sem hefur ekkert að gera og langar fyrir alla muni ekki að sofa, nema brýn nauðsyn sé.

Ég hef verið að velta fyrir mér vissu skilgreiningaratriði og ætlaði að spyrja álits hér. (Þetta ætti að reynast sönnum raftónlistargúrum auðvelt, þar sem fáir yfirflokkar tónlistar kalla á meiri skilgreiningar og flokkanir, og þekkingu á slíku af hörðum aðdáendum, en blessuð Raftónlistin.)

Vangavelturnar eru þríþættar.

1. Tónlist sem byggist að öllu leyti á “stolnum” hljóðbútum eða “sömplum” (svo sem mikið af Trip Hoppi og sumt af gamla Big Beatinu ásamt fleiru), er hún Raftónlist? Ekki er hægt segja að þar sem öll tónlistin sé unnin í stafrænu umhverfi, sé hún raftónlist, þar sem það á við um einfaldasta Kántrí nú til dags.

Ef engin af hljóðunum eru búin til með rafrænum hljóðfærum, getur þá útkoman verið raftónlist? Og þegar “sampl” er bjagað og lengt og hljóm breytt með rafrænum hætti, er það þá orðið að sönnu raftónlistarhljóði?

2. Hip Hop og raftónlist hafa löngum verið aðskilin með því að segja að í einu sé rappað, hinu ekki. En söngur hefur ávallt verið viðurkenndur hluti Raftónlistar. En eru þá ekki mörg lagana með Britney Spears og Kollegum, þar sem allt lagið er unnið með hljóðgervlum og trommuheilum, hrein og klár raftónlist? Og svo frekar um rappið: er þá ekki hægt að búa til raftónlist þar sem rappað er? Er það alltaf hip hop.

3. Núorðið ná angar raftónlistar inn á svið flestrar tónlistar og er ekki óalgengt að heyra grimma syntha bassa í nýjum rokklögum og rafræna, klippta og skorna taka í Bylgju-poppi. Hvað ræður því hvað sé kallað raftónlist og hvað ekki? Er það bara skilgreining listamannsins sem ræður, eða er þarna ákveðin lína? Afhverju skilgreina flestir til að mynda hljómsveitina Air sem raftónlist, þótt í flestum lögum þeirra megi heyra í gítarbassa og venjulegum trommum, og stundum mun meira hljóðfæraspili?

Maðurinn er lífvera með skipulagsþráhyggju, þó hver með mis-mikinn snert af henni. Flestum mun líklega þykja þessi umræða mín fáránleg og óþörf og kannski verður þetta ekkert skilgreint frekar og það óþarft.

En samt, eru ekki til yfir 20 mismunandi gerðir af Trance-tónlist? Er ekki alltaf hægt fullkomna flokkunina með því að hrúga á fleirri undirflokkum? Eða er eina leiðin til að slíkt gangi að hver undirundirundirflokkur telji aðeins eitt lag?

Ef greinin nær ekki að hefja neinar umræður, megið það spjalla um Tæ Kvon Dó eða X-Files hér að neðan.