Sasha @ Gaukur á Stöng 16 Júní n.k. [Breyting] Því miður þá hefur verið ákveðið að hafa þennan frábæra plötusnúð á skemmtistaðnum Gauk á Stöng fremur en Nasa.

Ekki þori ég að fullyrða hvað veldur.

En það eru ekki margir plötusnúðar sem hafa náð stöðu poppstjörnu í heiminum. Sasha hefur gert það það beggja vegna Atlandshafsálna, þar sem hann er dýrkaður og dáður, jafnt af plötusnúðum og klúbbagestum. Í Bandaríkjunum er ekki óalgengt að þúsundir manna standi klukkutímum saman í röð til að sjá hann og í Bretlandi fékk hann snemma viðurnefnið “sonur guðs”, sem útskýrir sig algjörlega sjálft.

Hann hóf ferilinn sem plötusnúður seint á 9. áratugnum, og skapaði sér nafn á hinum rómaða Shelly’s í Stoke. Það var hins vegar ekki fyrr en hann réð sig til hins fræga klúbbs Renaissance að hann varð landsþekktur í Bretlandi, og síðar
heimsþekktur (mjög sennilega launahæsti plötusnúður allra tíma)

Hann varð svo vinsæll að hann var fyrsti DJ-inn til gera mix-disk (gefinn út af Renaissance), sem gekk á endanum svo vel að hann braut ísinn fyrir þessa nýju tegund safnplatna sem fara ekki framhjá neinum sem heimsækir plötubúð í dag.

Sem pródusent og endurhljóðblandari hefur hann gefið frá sér yfir 100 smáskífur og eina breiðskífu og unnið með listamönnum eins og Madonnu, Pet Shop Boys, Simply Red, Chemical Brothers og Gus Gus.

Það hafa samt alltaf verið verk hans sem plötusnúður sem hafa haldið honum í hálfgerðri guðatölu hjá aðdáendum raftónlistar. Þeir mix-diskar sem hann hefur gert á ferlinum (oft með félaga sínum John Digweed), hafa selst í tæplega 2 milljónum eintaka á heimsvísu, árangur sem enginn plötusnúður getur státað sig af!

Sasha bar sigurorð í hinum virtu kosningum DJ Magazine um plötusnúð ársins árið 2000 og var í öðru sæti bæði árin 2001 og 2002. Þess má geta að á nýlegri könnun undir “djammið” hér á Huga.is voru netverjar spurðir hvaða plötusnúð þeir vildu helst fá til landsins. Af 15 möguleikum var Sasha með flest atkvæðin eða 17% .

Við verðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að heyra í kappanum 16. júní næstkomandi. Hann spilar á Gauknum ásamt dj Grétari. Forsala miða er hafinn í Þrumunni, verð 2500 kr, en 2900 kr. við hurð

Vil ég þakka Mr.Destiny fyrir þetta framlag og má með sanni segja að enn séu til skipuleggjendur skemmtana sem hugsa eins og við sem stundum skemmtanir í miklum mæli.

Þetta er glæsilegt framtak og verður þetta án efa djamm ársins 2003, skipa ég öllum til að mæta á þennan einstaka viðburð.

Sjáumst ÞAR!