Underworld Fyrir ekki svo löngu síðan gáfu Underworld út sína fjórðu breiðskífu og þess vegna finnst mér við hæfi að stikla á stóru í sögu hljómsveitarinnar, þótt fyrr hefði verið.

Saga Underworld hefst fyrir meira en 20 árum þegar Rick Smith og Karl Hyde hittast í partý hjá þeim fyrrnefnda árið 1981. Tveimur árum seinna eru þeir búnir að stofna hljómsveitina Freur. Freur náði ekki að verða neitt sérstakt nafn, en þeir náðu þó einu lagi inn á vinsældalista. ‘Doot Doot’ hét lagið og náði einhverjum vinsældum í Evrópu og þá sérstaklega í Ísrael og á Ítalíu. Einnig ná þeir að afreka að fara á Ameríkutúr með hljómsveitinni Eurythmics. Áður en túrinn er búinn er Freur hætt.
Árið 1988 koma þeir félagar fyrst saman sem Underworld og gefa út breiðskífuna ‘Underneath the Radar’, fylgdu henni svo eftir árið eftir með skífunni ‘Change the Weather’. Þessar plötur fóru fram hjá tónlistarheiminum þar sem þær þóttu ekki góðar. Underworld hættir.
Tveim árum seinna er ákveðið að reyna aftur við tónlistarbransann. Rick og Karl ákveða að taka inn ungan plötusnúð að nafni Darren Emerson, sem hafði verið að vekja lukku í heimabæ þeirra. Lemon Interrupt er stofnuð. Þeir vekja áhuga Junior Boys Own útgáfunni - sem gefa út 2 stuttskífur ‘dirty/minneapolis’ og ‘Bigmouth/Eclipse’ - og spila einnig 10 klukkutíma sett á Glastonbury hátíðinni, sem er víst umtalað enn þann dag í dag.
Árið 1993 ákveða þeir að taka Underworld nafnið upp aftur og gefa út stuttskífurnar ‘Mmm… Skyscraper I Love You’ og ‘Rez’. Stuttskífur þessar vöktu athygli Danstónlistarheimsins, enda var strax auðséð að þarna væri eitthvað sérstakt á ferð. í kjölfarið kemur út breiðskífan ‘Dubnobasswithmyheadman’ sem fær lof gagnrýnenda og það ágætar viðtökur plötukaupenda að hún nær að koma sér inn á breska vinsældalistan.
Strax er farið að tala um Underworld sem mjög góða tónleikasveit. Ég get alveg samþykkt það. Underworld komu til Íslands 1994 og spiluðu á einhverjum bestu tónleikum sem haldnir hafa verið í Laugardalshöllinni ásamt Björk. Tónleikar þessir urðu til að auka hróður Underworldmanna á Íslandi.
1995 var ‘Dubnobasswithmyheadman’ gefin út í Bandaríkjunum. Að öðru leiti fór frekar hljótt um Underworld. Þó gáfu þeir út eina stuttskífu, það var lagið ‘Born slippy’ sem rúmlega ári seinna átti eftir að verða þeirra vinsælasta lag og gera þá að stórstjörnum.
1996 var stórt ár í sögu Underworld. Breiðskífan ‘Second Toughest in the Infants’ kom út við mikið lof gagnrýnenda. Þótt skífan hafi hlotið náð gagnrýnenda og plötukaupanda finnst mér hún vera sú slakasta af þeim fjórum sem þeir hafa gefið út.
Á þessu ári, 1996, var kvikmyndin ‘Trainspotting’ frumsýnd og þar áttu Underworld fyrrnefnt ‘Born Slippy’. ‘Born Slippy’ varð eitt vinsælasta lag ársins og skaut þeim félugum uppá stjörnuhimininn. Nú voru þeir einnig farnir af stað með Tomato. Tomato er hönnunarfyrirtæki sem meðal annars hefur gert aulýsingar fyrir Nike, Sony, Adidas og Pepsi. Einnig gerðu Tomato mjög flotta ‘treilera’ fyrir MTV. Nú voru líka remix verkefni byrjuð að hlaðast upp í kjölfar vinsældana. Þeir remixuðu meðal annars Depeche Mode, Björk, St. Etienne, Sven Väth, Simply Red og Leftfield.
Ásamt þessari gríðarlegu vinnu voru þeir mjög duglegir við tónleikahald, svo duglegir meira að segja að 3 ár líðu þangað til næsta breiðskífa kom út.
Breiðskífan ‘Beaucop Fish’ kom út árið 1999 við litlar undirtektir gagnrýnenda og salan var víst ekki mikil. ‘Beaucop Fish’ finnst mér vera mjög vanmetinn skífa. Lög einsog ‘Push Upstairs’, ‘Jumbo’, ‘Bruce Lee’ og síðast en ekki síst ‘King of Snake’ eru ekkert nema eðal klúbbalög sem koma manni í rétta gírinn. Ástæðan fyrir litlum vinsældum tel ég stafa af því að Underworld er ekki þetta týpíska poppband, þeir hafa engan áhuga á að semja lög til þess eins að vera vinsælir.
1999 markaði líka önnur tímamót hjá þeim félugum því Karl Hyde hætti að drekka áfengi. Hann hafði átt við áfengisvandamál að stríða í nokkur ár. Áfengisvandamál hans var víst svo slæmt að nokkrum sinnum munaði litlu að hljómsveitin hreinlega hætti. Það hafði víst líka verið vandamál að þegar þeir voru að taka upp átti Karl það til að deyja áfengisdauða í stúdíóinu.
Eftir tónleikaferð í kjölfarið á ‘Beaucop Fish’ var ákveðið að slaka aðeins á. Þeir byrjuðu að setja saman tónleika DVD diskinn ‘Everything, Everything’ sem kom út árið 2000. Stuttu eftir útgáfu hans urðu Underworld aðdáendur fyrir áfalli, Darren Emerson tilkynnti að hann væri hættur í hljómsveitinni til þess að einbeita sér að plötusnúðamennsku sem honum fannst hafa setið á hakanum of lengi.
Margir héldu að með þessu væru dagar Underworld taldir. En nú árið 2002 sanna þeir að svo sé ekki með stórgóðri breiðskífu sem ber heitið ‘A Hundred Days Off’. Skífan hefur hlotið lof gagnrýnenda um heim allan og allir eru á því að brotthvarf Darrens skipti engu máli. Það var ákveðið strax þegar vinnsla hófst að ekkert annað yrði gert á meðan upptökum stóð. Þeir afþökkuðu því öll tilboð um remix vinnu og afþökkuðu að koma fram á tónleikum til þess að geta einbeitt sér ða því að gera skífuna nógu góða. Fyrsta smáskífan af henni, ‘Two Months Off’, hefur strax hlotið góðar viðtökum þeirra sem klúbbana stunda og margir tala um það sem eitt að betri lögum ársins. Ég mæli eindregið með ‘A Hundred Days Off’ fyrir gamla Underworld aðdáendur sem og þá sem vilja kynna sér hljómsveitina. Hún inniheldur þennan sanna Underworld ‘fílíng’ sem hefur einkennt þá alla tíð.
Í lokin má nefna að Darren Emerson gaf í fyrra út lagið ‘Scorchio’ sem hann gerði í samstarfi við einn frægasta plötusnúð heims Sasha. Lagið fór sigurför um danstónlistarheiminn og var ofarlega á listum danstónlistarpressunar bresku þegar síðasta ár var gert upp.

Góðar stundir.
Góðar stundir.