Um dansflokkinn:

Íslenski dansflokkurinn er nútímadansflokkur og hefur aðsetur í Borgarleikhúsinu. Hjá Íd starfa að venju á annan tug dansara í fullu starfi, fastráðnir, gestadansarar og dansarar á nemendasamningi, allir með þjálfun í klassískum dansi. Þar að auki taka dansnemar sem stunda nám við dansbraut Listaháskóla Íslands þátt í starfsemi Íd.

Íslenski dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum Evrópu auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Dansflokkurinn hefur ferðast víða og stefnir á sýningarferðir til Kína, Frakklands, Hollands og Bandaríkjanna á árinu, auk þess að halda reglulega sýningar á Íslandi.

Dansflokkurinn er sjálfstæð ríkisstofnun undir listrænni stjórn Katrínar Hall.
Framkvæmdastjóri Íd er Ása Richardsdóttir.








Markmið,Starfsemin og hlutverkin:


Íslenski Dansflokkurinn gegnir mikilvægu hlutverki hér á Íslandi.

Hlutverk Íd er meðal annars að:

Viðhalda og byggja upp listgreinina á Íslandi.
Vera leiðandi og framsækin í listgreininni hérlendis sem og erlendis
Hlúa að ungum dönsurum, og hjálpa þeim að þróast áfram sem atvinnudansarar
Hlúa að og gefa íslenskum danshöfundum tækifæri til að vaxa og þróa sig áfram
Bjóða íslenskum áhorfendum upp á verk eftir færa erlenda danshöfunda
Sýna erlendis og kynna landið, íslensk verk og íslenska dansara
Sinna fræðslu og kynningarstarfi fyrir börn og fullorðna

Íslenski dansflokkurinn hefur leitast við að framfylgja þessum markmiðum með ýmsum hætti.

Íd setur upp að minnsta kosti 2-3 sýningar á ári hér í Borgarleikhúsinu. Eins og má sjá í listanum hér til vinstri yfir sýningar, hafa unnið með flokknum jafnt þekktir erlendir danshöfundar, sem og okkar helstu íslensku danshöfundar. Verkin á verkefnadagskránni eru afar ólík og getur Íslenski dansflokkurinn þar af leiðandi boðið íslenskum leikhúsgestum upp á fjölbreytta dansmenningu sem er á heimsmælikvarða.

Við dansflokkinn starfa 12 dansarar, fastráðnir, gestadansarar og dansarar á nemendasamningum Þannig heldur flokkurinn áfram að vaxa með föstum reyndari dönsurum sem og nýjum og yngri.

Íslenski dansflokkurinn tekur virkan þátt í að undirbúa dansnemendur fyrir feril sem dansarar með samstarfi við Listaháskóla Íslands um dansbraut við Listaháskólann. Þetta ár munu 6 nemendur á dansbraut Listaháskólans æfa með dönsurum Íd og vinna verkefni með dansflokknum.

Dansflokkurinn hefur ferðast mikið erlendis og eru vinsældir hans sífellt að aukast. Á döfinni er fjöldi sýningaferða áætlaður, en fyrirséð er að sýningaferðalögin muni stóraukast á komandi árum. Nánari upplýsingar um ferðir flokksins eru hér í dálknum til vinstri.

Annað markmið Íd er að fræða unga fólkið um töfra danslistarinnar. Flokkurinn hefur sinnt virku Barnastarfi um árabil, boðið börnum í leikhúsið, heimsótt skóla og ávallt verið opinn fyrir heimsóknum. Nánari upplýsingar um barnastarfið er hér til vinstri undir “önnur starfsemi.”

Danssmiðja Íd var stofnuð haustið 2004 og kemur til með að halda áfram í vetur. Í henni gefast íslenskum danshöfundum og sjálfstæðum dönsurum tækifæri til að þróa hugmyndir sýnar og byggja upp reynslu við að semja, setja upp verk og koma fram.

Síðastliðin þrjú ár hefur Íslenski dansflokkurinn í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur haldið 25 tímar dansleikhús samkeppni, þar sem fólk úr ólíkum áttum hefur haft tækifæri til að semja dansleikhúsverk. Höfundar hafa fengið aðstöðu til æfinga í Borgarleikhúsinu, aðgang að dönsurum Íd og leikurum LR. Síðan keppa þátttakendur eina kvöldstund á stóra sviði Borgarleikhússins. Veitt eru þrenn verðlaun auk áhorfendaverðlauna.





Svo vil ég spyrja ykkur sem sáu febrúarsýninguna- Dans andi. Hvernig fannst ykkur hún?