Það er alla vega mín ráðlegging til ykkar hérna sem hafið eitthvað annað að gera í lífinu en að stússast í tölvum og tölvuleikjum.

Eins og einhverjir ykkar vita sennilegast, þá hef ég spilað nettölvuleiki af gríð og erg síðan C&C:Renegade kom út. Ég lét þó ekki til mín taka af neinni alvöru fyrr en Battlefield 1942 kom út, og spilaði ég hann af mikilli áfergju í heil þrjú ár. Vissulega með einhverjum hléum (þ.e.a.s. hléum sem báru nöfnin CoD og BF:Vietnam) en það er nú önnur saga. Þegar BF2 kom út sogaðist ég auðvitað inní hann og spilaði duglega í nokkra mánuði eftir útgáfudag hans. Hins vegar náði BF2 aldrei þeirri fótfestu hér á landi, sem forveri hans hafði áunnið sér í gegnum tíðina, og hætti ég því að spila leikinn (og þar með nettölvuleiki eins og þeir leggja sig) nú í haust.

Og vá… þá fyrst fór maður að gera sér grein fyrir því hversu mikill tími fór í þetta. Það var svona allt í einu eins og ég hafði tíma til að sinna öðrum hlutum en þessum allra, allra nauðsynlegustu (vinna, matur, svefn). Og mér leið bara ágætlega.

Og þá dundu ósköpin yfir… búinn að vera leikjalaus hátt í fjóra mánuði núna um jólin, þegar bróðir minn fær CoD2 í jólagjöf. Ég er nú að fara út núna eftir tvær vikur (og verð í góð tvö ár) en ákvað engu að síður að kannski væri ekki svo vitlaust að innstalla leiknum og malla aðeins gegnum hann í sp. Þetta yrði þá síðasti leikurinn sem ég kláraði áður en ég færi út. Sem er vissulega rétt… en vá. Ég klára sem sagt leikinn, en einhvern veginn nær bróðir minn að narra mig í smá mp action.

*BAAAAAAAAAAAAAHHHHHHHRRRRRRRRRR* Wrong move!

Ég á að vera hérna að undirbúa mig undir för mína til útlandsins, en ég hef varla gert annað en að spila CoD2 síðan ég kláraði hann tveimur dögum eftir jól. Það er bara eitthvað við hann, sem forvera hans skorti. Einhver svona *fluff*-factor, sem ég á erfitt með að útskýra, en fær mig einhvern veginn til að halda áfram að spila, þegar ég á að vera að gera eitthvað annað. Og ég sem hafði svarið fyrir það að ég væri hættur í bili. Böööööhhhh…