Eve verður seldur sem hefðbundinn tölvuleikur, á geisladiski fyrir 50 dali eða um 3700 krónur en til að spila leikinn verða menn að gerast áskrifendur að „heiminum" sem leikurinn er spilaður í á Netinu fyrir u.þ.b. 900 kr. á mánuði miðað við núverandi gengi Bandaríkjadals.

CCP hf. var stofnað í júní 1997 með það að markmiði að þróa nýja tegund tölvuleikja, svokallaða fjölþátttöku-rauntímatölvuleiki sem voru að riðja sér til rúms um þær mundir. Frá árinu 2000 hefur fyrirtækið eingöngu unnið að þróun EVE. Hjá CCP starfa 37 manns.

CCP og Landssíminn hafa gert með sér samstarfssamning um kerfisrekstrarþátt leiksins. Miðlararnir eru keyrðir á IBM netþjónum frá stöðvum Cable & Wireless í London og má líkja reikniaflinu og gagnaflutningsgetu við tölvukerfi stærstu banka og peningastofnana hér á landi. Þá er einnig í gildi samningur við Landssímann um uppbyggingu og rekstur á þjónustuveitu staðsettri í Ármúla 25. Hjá Símanum starfa nú 27 manns á vöktum við að aðstoða viðskiptavini tölvuleiksins EVE allan sólarhringinn allt árið um kring.

Ground Zero, leikjasetur og netkaffihús, mun halda Eve kynningarhelgi og bjóða mönnum að spila leikinn án endurgjalds helgina 10-11 maí. Ground Zero er til húsa að Vallarstræti 4 í Reykjavík.