CREATURE ISLES – BLACK & WHITE VIÐBÓTIN KEMUR ÚT Í NÓVEMBER

Black & White, einn af mest seldu leikjum ársins á PC, fær viðbót í nóvember sem ber nafnið Creature Isles.

Hinir syngjandi trúboðar, úr Black & White hafa fundið nýtt land sem er byggt af mörgum einstökum og flottum kvikindum (Creatures) sem búa þar í bræðralagi. Landið er sveipað dulúð, staður án guða. Allt þar til þú mætir með þitt kvikindi úr hinum upprunalega Black & White.

Bræðralagið er næsta stig í þróun kvikindanna. Þetta er tækifæri fyrir kvikindið þitt að verða einn af þeim, og læra að framkvæma ný kraftaverk og bæta sig bæði líkamlega og andlega. En það er ekkert frítt í þessum heimi og þarf kvikindið að hafa fyrir því að læra þessa nýju hluti með því að ganga í gegnum nokkrar þrautir. Öll kvikindin á eyjunni setja upp þraut fyrir þig og þegar kvikindið hefur klárað allar þrautirnir fær hann tattóverað á sig merki bræðralagsins.

En þetta er ekki allt. Kvikindið þitt fær einnig tækifæri til að fá sér sitt eigið dýr til að ala upp og kenna. Við það birtist nýtt kvikindi sem apar allt eftir þínu kvikindi. Þannig að þegar öllu er á botnin hvolft fær bæði þú og kvikindið þitt einstakt gæludýr.

Viðbótin Creature Isles hefur fjöldann allan af nýjum hlutum og þar á meðal ný kvikindi, ný kraftaverk og fleiri þrautir, leyndardóma og aðra hluti sem leikamaðurinn þarf að leysa. Creature Isles heldur áfram að segja sögu Black & White og gefur einnig kvikindunum tækifæri á að þróa sig.

Ofan á þetta allt bætist við að þú getur orðið guð í þessu nýja landi, og tekur þú þátt í daglegu lífi íbúanna. Líkt og í Black & White leiknum sjálfum hefur spilarinn og kvikindin möugleika á að verða vond eða góð. En nú þarf maður að hugsa um eitt kvikindi í viðbót.

Forstjóri Lionhead, Peter Molyneux segir um þennan nýja aukadisk: “Creature Isles hefur gefið okkur tækifæri á að þróa gervigreind kvikindanna meira. Einnig höfum við sett fleiri mini leiki inní leikinn, þrautir, kraftaverk og ævintýri. Við óskuðum þess að þessi viðbót myndi gefa leikmanninum algjörlega nýja spilunarreynslu, og það er nákvæmlega það sem okkur hefur tekist með Creature Isles.”