Bleeessaðir drengir mínir, og þær fáu stúlkur sem leynast hérna ;)
Í mörg ár hefur maður beðið, síðan maður heyrði fyrstu orðrómana um framhald að guða/guðdómlega leiknum B&W. OG TÍMINN ER LOKSINS KOMINN!
*ahem*
Að allri óhóflegri dramatík slepptri, þá ætla ég pínku að fjalla um leikinn og hvað mér finnst um hann.

Það er ekki langt síðan maður fór og keypti hann. Náðum ég og bróðir minn rétt inn í BT, á síðustu mínútu (bókstaflega) og var þar til eintak! Heim var farið, leikur settur upp, og spennan var ógurleg. Ég get svarið það að ég fékk gæsahúð við að horfa á byrjunina. Þetta var of gott til að vera satt, allt það sem mér fannst svo flott við fyrri leikinn virtist vera þarna í byrjuninni, og gæðin voru ógurleg.

Þrátt fyrir að finnast það eilítið ergilegt að geta ekki hoppað yfir kennsluna í byrjun fyrirgaf ég herra Molyneux það auðveldlega og snéri mér að því að velja mér dýr. Og strax þá kom spurningin: Hvers konar guð vildi ég verða?
Og það tók mikla umhugsun, og alltaf skipti maður um skoðun, en á endanum valdi ég beljuna: Ég ætlaði að vera góður, hún virtist nokkuð gáfuð og svo var hún svo obboslega dúlluleg. Ég fylltist af stolti á meðan ég fylgdist með kúnni minni, þrátt fyrir stundarskelfingar þegar hún ákvað að borða fólk, eða pældi í því hvort hún ætti að snæða saur sinn.

Svo kom það virkilega skemmtilega. Eftir að hafa leikið mér að búa til stóra borg fékk ég að búa til heri. JESS! Allir lausir menn í borginni fóru í ógnarherinn minn, alveg 30 manns, og fóru þeir og rændu og rupluðu í mörgum bæjum, og endaði það í blóðugum bardaga við þrennar hersveitir Norðmanna. Því miður endaði sú viðureign illa fyrir mína menn, en ekki missti ég móðinn. Ég sendi kúnna út til að lúskra á þeim, og glotti illkvittnislega þegar hún dúndraði menn niður í gúllas.

Í næsta borði var fólkið mitt farið að verða áhyggjufullt. Í stað þess að rækta nógan mat fyrir það og byggja glæsilega borg, virtust húsin ekki mikið meira en hreysi og mestallur karlpeningurinn fór í gríðarstóran her minn. Beljan var jafn kát og alltaf, hafði drepið yfir þúsund manns, og skoppaði glöð til að leika við vúdú dúkku sem ég hafði nýlega keypt handa henni. Ég hafði nefnilega áttað mig á einu. Mér þótti mikið skemmtilegra að spila sem vondur guð. Aðrir fólu að kalla mig Psycho-Sigtrygg en ég vildi fara undir nafninu I-just-get-these-headaches-Sigtryggur.
Menn skulfu við að heyra nafn mitt, og er þeir heyrðu í þungum fótatökum beljunnar flúði fólk bakvið veggi sína. En hermaskína mín var ógurleg: beljan braut niður veggi, steinvörpur muldu niður hús og hermenn mínir slátruðu öllu kviku. Þetta var stanslaus barátta, því yfirleitt voru óvinaherirnir miklu stærri og reyndari, en mínir menn fengu eldbolta sér í lið og átti óvinurinn ekki séns.
Ah, good times ^^

Eins og þið sjáið, þá finnst mér þessi leikur drulluskemmtilegur :P. Hann er ekki án galla, og stundum finnst manni vera búið að einfalda hann aðeins of mikið á ákveðnum sviðum. T.d. tengist maður ekki dýrinu eins mikið og í fyrri leiknum, núna er það frekar bara eins og ofurhermaður en ekki “gæludýrið” manns.
En gæðin eru stórgóð, og þótt að tölvan mín sé langt frá því að vera ein af þeim bestu spilast hann mjög vel, höktir ekki og ég hlæ mig oft vitlausan yfir samviskunum, þau eru það vel gerð (já, púkinn er kvenkyns). Bardagar eru mjög einfaldir, þú skipar hermönnum að fara hingað, eða ráðast á þetta, eða elta þetta. That's about it. En þú getur samt sem áður beitt “Pincer” árásum, flankað óvininn og þvíumlíkt.
Og Epic kraftaverkin, váah. Þau geta varla orðið flottari. Það verður ekki mikið betra en að stela risastórum her frá óvininum með Siren kraftaverkinu.

Endanlega finnst mér leikurinn stórgóður, og ráðlegg áhugasömum endilega að prófa hann ;)

Sé ykkur á netinu þegar að MP kemur út…>:D

Kveðja, Sigtryggur ;)