Þetta stendur í Fjarðpóstinum í dag 15. feb:

Á síðasta bæjarstjórnarfundi mínum kallaði ég á stofnun Brettafélags Hafnarfjarðar. Af hverju?

Ungmennaráð Hafnarfjarðar og hjólabrettaiðkendur hafa verið að kalla eftir bættri aðstöðu fyrir brettaiðkendur í Hafnarfirði. Í fyrra var settur peningur í verkefnið og hjólabrettarampur byggður uppí Áslandi. Einn slíkur er við Víðistaðarskóla og hefur verið lengi og fleiri rampar hafa verið að dúkka upp hér og þar um bæinn. En það er eitt að reisa ramp og annað að halda honum við og sinna. Því miður hefur umgengnin verið afar slæm á römpunum sjálfum og í kringum þá.

Gunnar Þór Jónsson sem sér um eignarmál ÍTR segir að kostnaður við að setja upp aðkeyptan hjólabrettaramp sé um 3,5 milljónir.

Því spyr ég, er skynsamlegt að setja niður hjólabrettaramp við hvern skóla í Hafnarfirði, þar sem aðeins er hægt að nota þá í takmarkaðan fjölda daga á ári vegna veðurs, og láta þá liggja undir skemmdum? Eigum við að hafa iðkendurna afskiptalausa?

Rannsókn og greining var að skila niðurstöðum sínum enn eitt árið og kemur þar skýrt fram, enn eitt árið, að besta forvörnin gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga sé skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Hvað er átt við með „skipulagt“? Jú, að það sé félagsleg yfirbygging á starfinu og að börnin og unglingarnir séu í virku starfi sem sé stjórnað af leiðbeinanda líkt og íþróttaþjálfara, starfsmanni í félagsmiðstöð eða skátaforingja. Einnig segja rannsóknir að virkni og áhugi foreldra á frístundarstarfi barna sinna hafi mikið að segja þegar kemur að forvörnum og einnig brottfalli.

Í Reykjavík var stofnað Brettafélag Reykjavíkur og er félagið í dag með aðgang að frábærri innanhúsaðstöðu þar sem iðkendur stunda áhugamál sitt af metnaði.

Hjólabrettið er ekki „bóla“ sem deyr út um áramótin. Fyrsta hjólabrettið kom fram í Kaliforníu árið 1950 og er ekki hægt að segja að áhuginn á íþrótt þessari sé eitthvað að fara að dvala. Hjólabrettið er komið til að vera.

Því segi ég að skynsamlegasta leiðin til bættrar aðstöðu fyrir brettafólk sé að stofna Brettafélag Hafnarfjarðar og ganga til samninga við Hafnarfjarðarbæ um bætta aðstöðu (innanhúsaðstöðu). Það má heldur ekki gleymast að iðkendurnir eru hvað fróðastir í því hvaða aðstaða hentar þeim best. Einnig er hægt að leita til fyrirtækja á bænum sem hafa mörg hver verið ötul við að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf í Hafnarfirði.

Allir brettaiðkendur þarna úti, eldri og yngri, foreldrar og fleira áhugafólk: Stofnið Brettafélag Hafnarfjarðar!

Margrét Gauja Magnúsdóttir

LETS DO SOMETHING :|

Bætt við 15. febrúar 2007 - 22:01
Fjarðarpóstinum*