Miðvikudaginn 30. apríl árið 2008 var haldinn opinn fundur í Víðistaðaskóla (Hafnarfirði) varðandi skipulagsmál í sambandi við byggingu á svæði tileinkuðu iðkun jaðar-íþrótta á borð við hjólabretti, línuskauta og BMX hjóla á Víðistaðatúni.
Í Hafnarfirði er ekkert hjólabrettasvæði, á öllu höfuðborgarsvæðinu eru nokkur svæði tileinkuð jaðar-íþróttum en engin yfirbyggð aðstæða er fyrir hendi. Á Víðistaðatúni er að vísu ekki fyrirhugað innanhús jaðar-íþróttasvæði en um er að ræða upphitað, steypt svæði.
Á fundinum sem ég nefndi hér fyrir ofan mættust tveir hópar, annarsvegar íbúar í nágrenni við Víðistaðatún og hinsvegar iðkendur hjólabrettamenningarinnar á Íslandi, á öllum aldri. Þarna voru teikningar af svæðinu kynntar með glæsibrag, sem að eru alveg óaðfinnandi og öll vinnubrögð af hálfu arkitekta og bæjarstjórnar, til fyrirmyndar.
Eftir að talsmenn arkitektanna og bæjarstjórnar höfðu lokið máli sínu, fengu ungir drengir að flytja mál sitt, og gerðu það gríðarlega vel, þar sem að þeir fjölluðu um tillögur að öryggismálum, opnunartímum og umgengni á fyrirhugaða svæðinu.
Eftir þennan málflutning var fólki í salnum leyft að tjá sig og það gerðu margir, þar á meðal ég.
Skoðanirnar voru aðeins á tvo máta, annarsvegar þar sem að fólk drullaði yfir starf þeirra sem hafa unnið að tillögunni að svæðinu og lýsti yfir áhyggjum af þeim ruslalýð sem myndi hópast í mesta lagi í 60 metra fjarlægð frá byggðinni og vera með áfengi og eiturlyf um hönd. Þarna fór eldra fólk að mestu með mál en einnig skutu upp kollinum nokkrir korn ungir drengir sem voru að benda á það að ef svæðið yrði reist, að þeir hefðu engann stað til að leika sér á. Ég veit ekki betur en að leikvöllur sé fyrir hendi á skólalóð sem liggur einmitt á Víðistaðatúni.
Á hinn boginn var fólk að standa uppi fyrir þeirri staðreynd að jaðar-íþróttir eru alveg jafn mikilvægar og aðrar íþróttir s.s. fótbolti, tennis og handbolti, þær þurfa aðstöðu til að geta dafnað og notið sín. Þar þarf líka að koma fram að aðstæða þessarar iðkunar þarf að vera að miklu leyti frábrugðin hefðbundnum íþróttum.
Hjólabrettaiðkun til dæmis, snýst ekki um að renna sér innan einhvers ákveðins ramma. Það er ekki hægt að gera vitleysu á hjólabretti, maður gerir hlutina eins og maður vill, það eru engar leikreglur sem gilda í hjólabrettaheiminum, og það er það sem er svo yndislegt við hann. Maður er frjáls og maður getur gert það sem maður vill, en ég vill taka það fram að þótt maður geri það sem maður vill á brettinu, gilda ennþá reglur í heiminum og þeim ber manni skylda að fylgja. Með þetta að leiðarljósi sjáum við að það er ekki hægt að stunda hefðbundna þjálfun í þessu, að sjálfsögðu er hægt að leiðbeina og hjálpa en þetta er persónuleg athöfn og mótast einungis af hverjum og einum sem stundar hana.
Fólkið sem mætti á þennan tiltekna fund til að mótmæla byggingu svæðisins, var að tala gegn ákveðnum lífstíl, sem sýnir fáfræði fólksins á efninu. Þetta er spurning um að leyfa æskunni að vera frjáls innan vissra marka, innan þessara tiltekna hjólabrettasvæðis. Mér finnst þetta sína ekkert nema fordóma í garð fólksins sem kýs að iðka jaðar-íþróttir.
Einnig finnst mér hreinlega sorglegt að sjá fólk mæta undirbúið til að rífa niður drauma æskunnar um góða aðstöðu fyrir áhugamál sín, er fólk ekki meðvitað um þróun þjóðfélagsins? Hlutir breytast, fólk breytist og það segir sig nú sjálft að áhugamál og íþróttaiðkanir breytast líka. Vill þetta fólk kannski að keppendur á Ólympíuleikunum megi alls ekki klæðast fötum á meðan keppt er í íþróttagreinum? – Þannig var það allavega í gamla daga!
Hvar eiga börnin og fólkið sem vill iðka sína jaðar-íþrótt að vera? Vill þjóðfélagið að börnin dreyfist út um bæinn í örvæntingarfullri tilraun til að iðka áhugamál sitt. Því að það gerist ef að engin afmörkuð svæði eru til þess gerð. Ég tala nú ekki um ef að félagsmiðstöðvar, t.d. Hraunið séu búnar að tilkynna að þær séu tilbúnar til að vinna með fyrirhuguðu svæðinu, sem skapar frábæran vettvang fyrir forvarnarstarf.

Ég vona innilega að íhaldssemin muni ekki fá að stöðva upprisu þessa hjólabrettasvæðis sem gæti gert svo góða hluti og verið skapandi vettvangur fyrir unga og aldna.


Hlynur Hafsteinsson
hlynurhafst@internet.is
..::darkjesus::..