Á meðan við sitjum hérna eins og bjánar og bíðum “róleg” eftir snjónum þá datt mér í hug að deila með ykkur smá sögu sem gerðist í mars eða apríl (minnir mig) árið 2001.

Það var búið að snjóa brjálæðislega mikið í 2 daga og en næstu vikuna var heiðskýrt og gott veður, svo að ég og vinkona mín, Þóra, ákváðum að skella okkur í bláfjöll (skálafell var lokað).

Fyrstu dagana fórum við eftir skóla svo að þegar við komum í fjöllin þá var mjög lítið af fólki og okkur beið heilmikið af púðri.
Þegar við komum úr stólnum, renndum við okkur smá en það var svo mikið af púðri að við renndum okkur beint í púðurstafla þannig að aðeins hausinn stóð upp úr snjónum. Það tók heillangan tíma að losa okkur úr þessu þar sem við sukkum alltaf jafnóðum ofan í snjóinn aftur, en það tókst á endanum og allt gekk eins og í sögu það sem eftir var dagsins.

Ég vil taka það fram að það snjóaði ekkert meira þessa viku svo að snjórinn bráðnaði hægt og rólega þó svo það væri frost, en sólin skein alla dagana.

Þar sem að ég hafði áður aldrei hitt á nógu gott færi í nógu langan tíma til þess að æfa mig að stökkva á pöllum, þá gat ég aldrei lent eftir stökkin. En þessa viku var mjög gott veður og færi og ég æfði mig eins mikið og ég gat og var farin að geta lent án þess að detta eftir á.

Seinasta daginn þessa viku var púðrið að mestu farið og snjórinn orðinn að mestu klaka en við fórum samt.
Það var varla hægt að renna sér en við fundum nokkra staði til að renna okkur.

Þegar við vorum að renna okkur í bruninu datt Þóra og meiddi sig svo illa í hnénu að hún gat varla gengið svo að hún fór niður í skála og beið eftir mér en það var einn lítill pallur sem mig langaði að fara á svo að ég tók stefnuna á hann.

Ég fór allt of hratt og svo hitti ég ekki almennilega á pallinn svo að ég snérist á hvolf í loftinu og lenti á hægri hlið andlitsins og rann svo á andlitinu eftir klakanum (snjónum) nokkurn spöl áður en ég stoppaði. Það tók mig smá tíma að jafna mig en þegar það var búið fór ég á nokkra aðra palla og svo hitti ég Þóru niðrí skála.
Þá kom í ljós að ég með fullt af stórum sárum á hægri hlið andlitsins, en sem betur fer voru þau aðallega ljótar skrámur og kuldabruni en þau greru og engin ör eftir það.

Þóra var aum í hnénu í nokkra daga en það jafnaði sig fljótt.

Þrátt fyrir öll þessi meiðsl þá var þetta ein besta vika sem ég hef upplifað á snjóbretti og vona að það sé ekki langt að bíða þar til snjórinn lætur sjá sig.