Fimmtán þingmenn úr öllum þingflokkum á Alþingi, utan Vinstri grænna, hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Er um að ræða óbreytt frumvarp frá því sem lagt var fram á síðasta þingi og fellt eftir miklar umræður og munaði aðeins einu atkvæði. Nú er komið að því að greiða atkvæði að nýju.

Frumvarpið er einungis fjórar greinar og kveður á um að heimil sé keppni og sýning á áhugamannahnefaleikum. Enn fremur sé heimilt að kenna áhugamannahnefaleika, selja og nota hnefaleikaglófa (hanska) og önnur tæki sem ætluð eru til þjálfunar í áhugamannahnefaleikum og að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um áhugamannahnefaleika.


Nú líður að því að Alþingi gangi til örlagaríkrar atkvæðagreiðslu um málefni sem snertir okkur öll. Okkur þá sem staðið höfum í þessari baráttu sl. áratug langar að biðja alla þá, sem boxhanska geta valdið, að mæta niður á ALÞINGI á morgun, mánudaginn 11. febrúar milli klukkan 14.00 og 15.00. Við höfum ekki nákvæma tímasetningu hvenær frumvarpið fer í “dómsdags-atkvæðagreiðslu” en okkar beztu heimildir herma að það verði á þessum tímapunkti frá kl. 14.00 til 16.00.

Þeir sem sjá sér fært um að koma eru vinsamlegast beðnir um að koma snyrtilegir til fara, hafa slökkt á öllum farsímum og hafa algjöra kyrrð á þingpöllum meðan okkar réttkjörnu fulltrúar á þingi, afnema bann sem gerir okkur boxáhugamönnum kleift að stunda áhugamannahnefaleika, LÖGLEGA eftirleiðis. Eftir það getum við stigið út og dansað trylltan stríðsdans, macharena eða hókí-pókí.

Við verðum að sýna það fyrir alþjóð og þinginu, að þetta sé málefni sem við séum samstíga með og því mikilvægt að sem flestir mæti…nota bene þar er SKYLDUMÆTING!

Með boxkveðju:

Stjórn Félag áhugamanna um lögleiðingu ólympískra hnefaleika
Stjórn BAG, Boxing Athletic Gym
Stjórn Hnefaleikafélags Reykjavíku
_____________________________________________________