Óformlegt landslið íslendinga í áhugamannahnefaleikum kom heim á sunnudaginn eftir vel lukkaða ferð til Duluth, Minnesota, þar sem þeir kepptu við heimamenn. Árangurinn var vonum framar og sýndu íslensku strákarnir að þeir ættu vel heima í hringnum með reyndari mönnum. Þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu 6 af 13 leikjum fyrra kvöldsins og bara þar hæst bardagi Jóns Páls Leifssonar sem gerði sér lítið fyrir og hirti titilinn af fylkismeistara Minnesota, Will Robinson. Aðrir leikir voru spennandi og má þar nefna leik Skúla Vilbergssonar og Zach Walters sem var æsispennandi og skiptust þeir bróðurlega á þungum höggum og stóð Skúli sig hreint frábærlega á móti sér sterkari andstæðingi. Seinna kvöldið var ekki síður spennandi en þá höfðu reyndar nokkri andstæðingar íslendinganna hætt við keppni. Ástæðan var að þeir vildu ekki taka áhættuna á að keppa við þá án þess að fá bardagann skráðann og jafnvel hætta á að meiðast fyrir stærri mót. Var þá brugðið á það ráð að etja saman íslendingunum og voru því tveir alíslenski leikir það kvöld. Móttökur heimamanna voru ótrúlegar, það var vel mætt á bæði kvöldin og stemmningin var rosaleg. Það var tekið á móti liðinu í limósínum á flugvellinum og það gisti á fínu hóteli, sem segir það að skipulagið á ferðinni var óaðfinnanlegt. Strákarnir stóðu sig mjög vel, voru til fyrirmyndar og landi og þjóð til sóma. Því er það von þeirra að þessi ferð verði til þess að íslensk yfirvöld sjái að sér og aflétti banni því sem neyðir unga íþróttamenn til þess að stunda íþrótt sína erlendis. Skjár 1 var með í för og verða gerðir þættir um ferðina og hvet ég alla þá sem áhuga hafa á hnefaleikum að missa ekki af þeim.