Maðurinn, sem hlaut mikla heilablæðingu í hnefaleikakeppni í Vestmannaeyjum á laugardag, hlaut hnakkahögg en slík högg eru ólögleg og kunna þau að vera orsök meiðslanna, segir í yfirlýsingu frá hnefaleikanefnd ÍSÍ en nefndin fundaði í dag. Þá ákvað nefndin að herða reglur og framvegis varða hnakkahögg brottvísun og við ítrekuð brot á viðkomandi yfir höfði sér að vera settur í keppnisbann.
Fram kemur í yfirlýsingunni að við athugun og skoðun myndbands hafi komið í ljós að maðurinn hafi hlotið hnakkahögg og þau kunni að vera orsök meiðslanna. Þá segir að ákveðið hafi verið að bíða frekari rannsókna meiðslum mannsins.

Reglum um ólympíska hnefaleika verður einnig breytt á þann veg að til að keppandi fái keppnisleyfi verður hann að hafa stundað íþróttina hjá viðurkenndu félagi í íþróttahreyfingunni í a.m.k. 6 mánuði.

Einnig verða viðureignir styttar þannig að keppandi sem ekki hefur náð 10 viðureignum mun keppa í þrjár lotur, 1,5 mín að lengd hver, í stað fjögurra lota í 2 mín hver.

Ennfremur ákvað nefndin að leyfa ekkert keppnishald fyrr en ofangreindar breytingar á keppnisreglum hafa fengið staðfestingu framkvæmdastjórnar ÍSÍ.

Þá segist nefndin harma slysið í Eyjum og „vonar einlæglega að íþróttamaðurinn bíði ekki varanlegan skaða af“.

Þá ræddi nefndin einnig um handtöku tveggja manna sem höfðu 400 gr. af kókaíni innvortis. „Nefndin fordæmir það framferði, að verið sé að villa á sér heimildir með því að klæðast merktum íþróttabúningum og vísar frá sér allri ábyrgð á meintum hegningarlagabrotum þessara tveggja manna. Rétt er að taka fram að enginn landsliðsbúningur hefur verið í notkun í hnefaleikum. Nefndin vekur athygli á því að umræddir einstaklingar hafa látið af störfum fyrir hnefaleikahreyfinguna, vegna brota á samningum og samstarfi við Hnefaleikafélag Reykjavíkur og ÍSÍ, fyrr á þessu ári“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Fullyrðingar úr lausu lofti gripnar

Þá ræddi nefndin ennfremur um fullyrðingar í leiðara Morgunblaðsins um alvarleg slys, sem eiga að hafa átt sér stað í Bretlandi í ólympískum hnefaleikum. „Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að sex alvarleg slys hefðu hlotist af völdum högga í ólympískum hnefaleikum í Bretlandi á síðustu árum, þar sem þrír hafi látist og þrír hafi hlotið alvarlega heilaskaða. Þessum fullyrðingum er mótmælt. Samkvæmt upplýsingum frá Dr. Tony Attwood formanni læknanefndar Amateur Boxing Association í Englandi, eru þessar staðhæfingar úr lausu lofti gripnar og alrangar,“ segir í yfirlýsingu hnefaleikanefndar ÍSÍ.

Copy - paste af mbl.is
out…