Þessi grein er bara copy/paste frá boxing.is svo að það komi fram..




BOX í höllinni 9.3.2003
Í gærkvöldi fór fram hnefaleikakeppni milli Hnefaleikafélags Reykjavíkur og Sparta Aalborg frá Danmörku. Fram fóru 10 viðureignir í hnefaleikum, þar af átta milli íslenska liðsins og þess danska. Menn sýndu misgóða frammistöðu en létu þó heldur betur finna fyrir sér. Helst ber að nefna þá Ingólf Snorrason og Roland Þór Fairweather, sem sköruðu fram úr öðrum keppendum kvöldsins.

Þungavigtarmaðurinn Ingólfur (28 ára, 1-0) mætti Nicolaj Thogersen (19 ára, 6-7) og nýtti sér til sigurs áralanga reynslu sem karatemaður. Ingólfur hafði algjöra yfirburði og gaf dananum aldrei færi á sér. Hann var hreyfanlegur allan tímann, hélt sig við skynsamlega bardagaáætlun sína og skaut 2-3 snöggum höggum á andstæðing sinn úr hæfilegri fjarlægð. Það var töluverður hæðar- og faðmmunur á þeim sem Ingólfur nýtti sér vel. Það verður gaman að sjá hvort Ingólfur muni snúa sér meira að hnefaleikum á næstunni.

Veltivigtarmaðurinn Roland (21 árs, 1-0) mætti Thomas Jørgensen (25 ára, 2-3) og hafði einnig algjöra yfirburði. Roland er ótrúlega hávaxinn og faðmlangur miðað við þyngd (66 kg) og gnæfði yfir Jørgensen, sem þó var ekkert lágvaxinn. Ótrúleg snerpa og langar hendur gerðu dananum erfitt fyrir og Roland hélt sér við bardagaáætlun sína frá upphafi, nýtti sér faðmlengdina vel og hélt fjarlægðinni. Þetta varð allt saman of mikið fyrir danann sem fékk að éta snarpar hægri hendur frá Roland, högg sem hann sá aldrei koma. Dómarinn stöðvaði að lokum viðureignina þegar Roland snéri dananum í hálfhring. Roland er mikið efni og sýndi fádæma skynsemi miðað við reynslu.

Vinir okkar, léttþungavigtarboxararnir Arnar Bjarnason og Valþór Valdimarsson klikkuðu einmitt á því, þrátt fyrir mikla færni. Þeir eiginlega sigruðu sig sjálfir. Arnar, sem er flaggskip HR, lét stressið hlaupa með sig í gönur og hvarf fljótlega frá bardagaáætlun sinni. Þeir sem til hans þekkja vita að Arnar er mun betri en hann sýndi fram á í gærkvöldi. Arnar stendur sig best ef hann notar fæturnar og langar hendurnar til þess að halda andstæðingnum frá sér. Andstæðingi Arnars (17 ára, 1-0), Khaled Hadi (18 ára, 5-7) hentaði ekkert betur en að hafnfirðingurinn harði færi út í hrein slagsmál, en slík varð raunin. Ef Arnar hefði einfaldlega haldið sig við það sem hann gerir best, hefði daninn aldrei átt möguleika á sigri. Arnar marði þó naumlega sigur, 3-2. Auðvitað voru þetta bara taugarnar að verki og við vitum að Arnar á eftir að láta til sín taka í framtíðinni. Yfir höfuð ekki sú frammistaða sem menn höfðu vonast eftir, en engu að síður sigur.

Hann Valli (25 ára, 1-1) var ekki eins heppinn og Arnar, en gerði engu að síður sömu mistök. Hann stjórnaði bardaga sínum ágætlega í fyrstu lotu og nýtti sér örvhenta stöðu sína sér til hags á meðan hann barðist með yfirvegun og skynsemi. Hann var hins vegar fullbráður í annarri lotu og ætlaði augljóslega að sýna andstæðing sínum, Agli Þorbergssyni (21 árs, 3-3) hvar Davíð keypti ölið. Þetta er að sjálfsögðu ekki það gáfulegasta sem örvhentur boxari gerir, að slá fyrst og spyrja svo. Valli gekk hvað eftir annað inn í hægri hendi Egils og gaf frá sér alla þá kosti sem örvhentur boxari hefur yfir rétthentan. Bardaginn var þrátt fyrir þetta nokkuð jafn og hafði Egill sigur að lokum. Maður hafði einhvern veginn á tilfinningunni að Valli hefði unnið auðveldlega ef hann hefði bara látið Egil sækja og slegið gagnhögg með vinstri hendinni í stað þess að standa beint fyrir framan hann. En þetta eru bara taktísk mistök og ekkert sem Valli getur ekki bætt úr næst.

Millivigtartöffarinn Stefán Breiðfjörð (18 ára, 1-0) atti kappi við Libian Ali (2-3, 18 ára) í nokkrar sekúndur áður en bardaginn var stöðvaður. Ali fór úr axlarlið og því enginn ástæða til þess að halda áfram. Stefán virtist strax hafa nokkra yfirburði og sallaði danann með snörpum fléttum, það var leitt að hann fékk ekki tækifæri á því að berjast lengur. Vonandi fær hann ekki eins brothættan andstæðing næst!

Gamli jaxlinn Helgi “Jak” Jacobsen (29 ára, 0-1) átti ekki erindi sem erfiði gegn Jaan Beer Nielsen (30 ára, 4-3) sem var alla vega höfðinu hærri en Helgi. Helgi reyndi hvað hann gat fyrstu tvær loturnar, fékk á sig heppnishögg (og nokkur önnur í kjölfarið) í lok annarrar lotu og gaf árar í bát áður en 3. lota hófst. Helgi dreif einfaldlega ekki inn, enda er hann lágvaxinn miðað við léttþungavigtarmann og átti sér ekki vart viðreisnar von. Þótt getumunur væri greinilegur kom það ekki að sök því Nielsen var einfaldlega það mikið hærri.

Víkingurinn Ari “Ljónshjarta” Ársælsson (29 ára, 0-1) sprakk á limminu gegn Mads Christianssen (20 ára, 10-2), enda hafði hann lent í þvílíkum ævintýrum við að létta sig niður í veltivigt. Mads var klárlega langfærasti boxarinn í danska liðinu en barðist þó á jafnréttisgrundvelli við Ara framan af. Ari hefur nokkra reynslu af áhugamannahnefaleikum síðan að hann var unglingur og sýndi á köflum góða takta. Þetta var kannski helst til erfiður andstæðingur fyrir Ara eftir svo langt hlé og maður efast ekki um að hann hefði staðið sig mun betur ef hann hefði haft meiri tíma til þess að undirbúa sig. Það fór fljótt að síga á úthaldið hjá Ara og dómarinn taldi nokkrum sinnum yfir honum áður en hann svo stöðvaði bardagann í síðustu lotunni. Ari, sem var þá stokkbólginn í andlitinu, sýndi svo að ekki væri um villst að hann er með risastórt hjarta og var ekkert að fara að gefast upp þótt daninn sendi hann í gólfið með þrumufleyg rétt áður en dómarinn stöðvaði bardagann.

Marta Jónsdóttir (22 ára, 0-1) vann sér það til frægðar að verða fyrsta íslenska konan sem stígur í hringinn í hnefaleikakeppni. Andstæðingur hennar Rikke Tuxen Svendsen (22 ára, 2-3) sigraði þó á stigum.

Áður en útsending hófst á Skjá Einum börðust íslendingar á milli sín. Þeir Ingþór Örn Valdimarsson og Gunnar Óli Guðjónsson áttu sinn bardagann hvor. Ingþór bar sigurorð af Jóni Mattíasi Bergssyni en Górillan tapaði fyrir Heiðari Högna Guðnasyni, enda aðeins búinn að æfa sig í þrjár vikur fyrir keppnina.

Þessi keppni og umgjörð hennar var í flesta staði með ágætum, þótt hún bæri nokkurn byrjendabrag, sem eðlilegt er. Við óskum því aðstandendum og keppendum til hamingju.
———-