Óæskilegar fæðutegundir fyrir ung börn Upp úr 4-6 mánaða aldri fara flestir að kynna börn sín fyrir fæðu annarri en brjóstamjólk/þurrmjólk. Flestir byrja á járnbættum ungbarnagrautum og síðan grænmetis og ávaxtamauki. Aðalmálið er að fyllsta hreinlætis sé gætt þegar maturinn er útbúinn, þannig að hann sé laus við sýkla og óhreinindi, og sé hæfilega maukaður til að barnið ráði við hann. Það eru þó nokkrar fæðutegundir sem ber sérstaklega að varast fyrir börn undir eins árs aldri og vil ég nefna þær helstu hér.

Salt:
Nýru barna eru óþroskuð og ráða illa við að stilla inn rétt saltmagn í líkamanum, jafnvel þótt aðeins lítil breyting verði þar á. Það sem er lítið fyrir okkur getur verið allt of mikið fyrir þau. Börn þurfa ekki salt til að bragðbæta matinn. Þó svo að við finnum lítið bragð af ungbarnamatnum er það algjör bragðbomba fyrir lítið barn sem er einungis vant brjóstamjólk eða þurrmjólk.

Hunang:
Hunang á alls ekki að gefa litlum börnum. Í hunangi geta leynst sporar (dvalarform baktería) hættulegrar bakteríu (Clostridium botulinum), sem í umhverfinu inni í líkamanum verða að þroskaðri bakteríu sem myndar vöðvalamandi taugaeitur. Þetta veldur mjög hættulegu ástandi, ungbarnabólútlisma sem getur auðveldlega leitt barnið til dauða. Yfirleitt lamast fyrst vöðvar meltingarvegsins, sem veldur hægðatregðu, erfiðleikum við kyngingu og fleiri einkennum, en síðan verða einnig fleiri vöðvar fyrir barðinu á lömuninni, þar á meðal öndunarvöðvar. Líkurnar á að þetta gerist eru að vísu ekki miklar, en afleiðingarnar eru nógu alvarlegar til að fólk ætti alls ekki að gefa börnum hunang. Því skuluð þið t.d. alls ekki setja hunang á snuðið til að reyna að fá barnið til að sjúga það.

Skyr:
Skyr er þungmelt og mjög próteinríkt og sem fyrr eru nýrun óþroskuð og ráða illa við að skilja út þessi prótein og niðurbrotsefni þeirra. Þetta getur valdið meltingartruflunum og óþægindum hjá barninu og í alvarlegum tilvikum getur þetta leitt til nýrnaskemmda og tengdra vandamála.

Vissar tegunir grænmetis:
Ekki á að gefa ungu barni rauðrófur, spínat eða blaðselju. Einnig á að forðast netlur og “mangold” sem ég hef því miður ekki íslenska nafnið á. Ásstæðan er að þessar tegundir innihalda mikið af köfnunarefnissambandinu nítrati (saltpétri) sem getur umbreyst í nítrít, en það hindrar upptöku súrefnis í blóðinu. Nítrít frásogast auðveldlega hjá ungabörnum og því ber að forðast fæðu sem inniheldur mikið af því.

Hnetur:
Hnetur eru mjög ofnæmisvaldandi og einnig er hætta á að þær hrökkvi ofan í barnið. Örlitlar hnetuagnir sem barnið andar að sér ofan í lungu geta valdið mjög mikilli ertingu og slæmum bólgum í kjölfarið, en olían í hnetunum er afskaplega ertandi. Hnetur ætti helst ekki að gefa börnum fyrir sex ára aldur.

Vínber:
Hýðið utan af vínberjunum er seigt og getur auðveldlega staðið í börnum. Því ætti að bíða með vínber jafnvel fram að 3-4 ára aldri.

Kúamjólk:
Ef ofnæmi er í fjölskyldunni (ekki endilega fæðuofnmæmi heldur hvaða ofnæmi sem er), sérstaklega ef það er hjá foreldrum, ætti að forðast kúamjólk fram yfir eins árs aldur. Einnig eru uppi hugmyndir um að mjólkurpróteinin, sem eru stór og tormelt, geti valdið skemmdum á slímhúð þarmanna og jafnvel sárum, og auki líkurnar á bólgusjúkdómum í þörmum seinna meir auk þess að auka líkur á mjólkursykuróþoli. Því er núna mælt með að forðast alveg kúamjólk, nema þá út á grauta, þar til barnið nær árs aldri. Sýrðar mjólkurvörur, s.s. jógúrt, súrmjólk og Ab-mjólk eru þó auðmeltari.

Fiskur:
Fiskur er einnig þekktur ofnæmisvaldur og ef um er að ræða ofnæmi í fjölskyldunni ber að forðast hann fram yfir eins árs aldurinn.

Egg:
Egg er líka ein af þeim fæðutegundum sem er þekkt fyrir að valda ofnæmi og það sama á við hér og með fisk og mjólk. Eggjahvítan er verri í þessu sambandi, þar sem hún er svo til bara prótein, en það eru einmitt próteinin sem eru ofnæmisvaldurinn. Eggjarauðan inniheldur líka prótein en þó mun minna en hvítan. Eggjarauðan er fiturík og því góður orkugjafi, en þessi fita er að mestu kólesteról svo það er sjálfsagt að gefa hana bara í hófi. Ung börn þurfa vissulega fitu, sem er bráðnauðsynleg fyrir þroska þeirra, t.d. taugakerfið. En það eru til heppilegri fitugjafar en eingöngu eggjarauður.
Kveðja,