Mjólkurofnæmi og mjólkuróþol Flestir hafa heyrt talað um mjólkuróþol og mjólkurofnæmi, en ekki allir gera sér grein fyrir hvað felst í þessu. Ofnæmi og óþol er nefninlega ekki sami hluturinn.

Ef um mjólkurofnæmi er að ræða er einstaklingurinn með ofnæmi fyrir próteinum sem finnast í mjólkinni og skiptir þá litlu hversu mikið af fæðunni sem innihalda þessi prótein hann lætur ofan í sig. Ónæmiskerfið getur brugðist heiftarlega við þótt um lítið magn sé að ræða.

Algengustu einkennin eru útbrot á húð, en u.þ.b. 50% þeirra sem eru með mjókurofnæmi fá ristilbólgu ásamt niðurgangi og uppköstum. Ef þessi einkenni verða mikil er barnið í hættu fyrir ofþornun. Einnig geta orðið blæðingar í meltingarvegi og blóðtap með hægðum. Öndunarerfiðleikar geta líka komið fram, slím í öndunarfærum auk exems. Harðar hægðir geta líka verið merki um mjólkurofnæmi, en harðar hægðir einar og sér geta þó átt sér margar ástæður.

Ef um er að ræða ungabarn sem er eingöngu á brjósti er þó óvenjulegt að það fái harðar hægðir og því mætti í slíkum tilvikum athuga hvort um mjólkurofnæmi gæti verið að ræða. Ungabörn sem eru með mjólkurofnæmi eru einnig mjög oft óvær. Þessi börn þola að vísu vel próteinin í sjálfri móðurmjólkinni, þar sem þau eru eiginlega formelt. En ef móðirin neytir mjólkurvara getur það haft áhrif á móðurmjólkina og börnin bregðast við því. Ungbarnakveisa stafar þó aðeins í 10-15% tilvika af fæðuofnæmi.

Mjólkurofnæmi, sem og annað fæðuofnæmi, er algengara hjá börnum en fullorðnum og oftast eldist það af börnunum um 1-3 ára aldur. Um 2-9% barna yngri en þriggja ára og um 1,5% almennings eru með sannanlegt ofnæmi fyrir fæðu.

Mjólkuróþol er algengara en mjólkurofnæmi, en þá er ekki um að ræða einkenni vegna svörunar frá ónæmiskerfinu. Einstaklingur með mjólkuróþol, eða mjólkursykuróþol eins og það með réttu heitir, framleiða of lítið af laktasa, en það er ensím sem þjónar því hlutverki að brjóta niður mjólkursykur (laktósa). Mjólkursykurinn fer því alveg, eða að hluta til, ómeltur í gegnum meltingarveginn og niður í ristilinn, þar sem ristilgerlar nýta hann með tilheyrandi gerjun og loftmyndun. Þetta veldur uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi. Einkennin geta verið svipuð einkennum mjólkurofnæmis, en verða aldrei eins alvarleg.

Þegar um óþol er að ræða versna einkennin því meira sem þú neytir af fæðunni og sumir þola hana ágætlega í litlu magni. Einstaklingar með mjólkursykuróþol þola stundum betur sýrðar mjólkurvörur, þar sem bakteríur sem bætt er út í slíkar vörur brjóta niður mjólkursykurinn að hluta. Hægt er að fá lyf í apóteki sem hjálpar líkamanum að brjóta niður mjólkursykur og geta því einstaklingar með mjólkuróþol nýtt sér þetta til aðstoðar.

Mjólkursykuróþol er mjög sjaldgæft hjá ungabörnum, en mjólkursykur er að sjálfsögðu til staðar í móðurmjólkinni. Ungabörn sem eru með mjólkursykuróþol þarf því stundum að taka af brjósti og setja á mjólkursykurlausa þurrmjólk. Þetta er þó einstaklega sjaldgæft. Einstaklingar með mjólkuróþol fá það frekar seinna á ævinni og oftast gerist það þannig að smátt og smátt fer framleiðsla laktasa minnkandi. Einnig er mjög misjafnt eftir kynþáttum hversu algengt mjólkursykuróþol er, sem eflaust er tengt erfðum. Í vestrænum löndum er tíðnin um 5-10%, en víða í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku getur tíðnin orðið hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum.

Rannsóknir benda einnig til að mjólkurofnæmi geti síðar leitt til mjólkursykuróþols. Ef barnið er með mjólkurofnæmi skemmist þarmaslímhúðin og þ.a.l. geta þær frumur skemmst sem framleiða laktasa. Afleiðingin verður sú að líkaminn brýtur illa niður mjólkursykur og því fær barnið óþol fyrir mjólkursykri. Þetta getur lagast ef þörmunum er gefinn tími til að jafna sig með því að sleppa mjólkurvörum í einhvern tíma. Því getur mjólkurofnæmi og mjólkursykuróþol fléttast saman hjá ungum börnum og getur jafnframt elst af þeim.


Vinkona mín ein á 3ja mánaða son sem er með mjólkurofnæmi. Ég fékk leyfi hennar til að birta hér reynslusögu hennar, en hún hefur aflað sér mikillar þekkingar um mjólkurofnæmi hjá brjóstabörnum.


Reynslusaga Fjólu Dísu

Það liðu fullar þrjár vikur frá því að ég byrjaði að sleppa öllum mjólkurvörum og þangað til Kári var orðinn góður, og fyrstu vikuna sá ég lítinn sem engan bata. Ástæðan fyrir þessu er sú að hjá einstaklingi sem er með mjólkurofnæmi og neytir mjólkurvara (eða fær kúamjólkurprótínin gegnum móðurmjólkina) eru þarmarnir orðnir mjög bólgnir og sárir að innan, og þessvegna er margt annað sem virkar ertandi, ekki bara mjólkin. Þegar neyslu mjólkurmats er hætt tekur það nokkurn tíma, u.þ.b. 1-3 vikur (stöku sinnum meira) áður en bólgan hjaðanar og sárin gróa, og þessvegna batnar barninu ekki um leið og mamman hættir að neyta mjólkurvara.

Núna er ég búin að vera á alveg mjólkurlausu fæði í rúma tvo mánuði og Kári hefur það fínt, ég er búin að prófa það tvisvar að borða mjólkurvörur og þá hefur honum orðið illt stuttu eftir að hann drakk. Algengast er að svona börn séu vansæl og kvartandi stóran hluta dags og taki svo grátköst sem oftast eru flokkuð sem ungbarnakveisa. Sum eru þó ánægð að stóra grátkastinu undanskildu.

Mjólkurofnæmi eldist í mörgum tilvikum af börnum, venjulega um þriggja ára aldurinn eða fyrr. Það er sérstaklega mikilvægt með börn sem fá ofnæmi svona ung að bíða lengi með að gefa þeim fasta fæðu, og börn með mjólkurofnæmi mega auðvitað ekki fá venjulega þurrmjólk. Langbest er að hafa þau eingöngu á brjósti til a.m.k. sex mánaða ef hægt er, en ef þau þurfa að fá ábót er hægt að gefa þeim soyamjólk. Það þarf þó að fylgjast vel með því þar sem allt að 50% þeirra barna sem eru með kúamjólkurofnæmi eru einnig með ofnæmi fyrir soya. Það er einnig til þurrmjólk þar sem búið er að brjóta próteinin vel niður, raunar búið að melta þau ef svo má að orði komast, og þrátt fyrir að sú þurrmjólk sé úr kúamjólk skilst mér að hún sé betri kostur fyrir mjólkurofnæmisbörn. Það er best að spyrja ofnæmis- eða meltingarfærabarnalækni út í það, þessi þurrmjólk heitir Nutramigen og er bæði rándýr og bragðvond.

Hvað varðar mataræði móðurinnar verður að viðurkennast að það getur orðið ansi leiðinlegt á köflum. Mjólkurdufti, -próteinum eða -sykri er bætt út í nánast allan mat. Það þarf að lesa innihaldslýsinguna á bókstaflega öllum vörum; brauði, kökum, unnum kjötvörum (skinku, hakki), sælgæti og svo að segja öllum mat sem er eitthvað unnin. Allur soyaostur sem ég hef séð til sölu á Íslandi inniheldur kasein (mjólkurprótein). Þau orð sem ætti að leita að í innihaldslýsingum er auðvitað allt sem inniheldur orðið mjólk svo og casein, whey (mysa) og lactose (mjólkursykur).
Kveðja,