Ungbarnakveisa Ungabörn gráta af ýmsum ástæðum; þau eru svöng, blaut, vilja láta halda á sér, er of kalt eða of heitt, illt í maganum o.s.fr. Foreldrar læra fljótlega að túlka grát barna sinna og bregðast við honum þannig að barnið lætur huggast. Sumir foreldrar lenda þó í því að eignast óvært barn sem erfitt er að hugga. Ein algengasta ástæðan fyrir óværð barna er að s.k. ungbarnakveisu, en u.þ.b. 15% nýbura fá slíka kveisu.

Ungbarnakveisa byrjar yfirleitt skyndilega 2-4 vikum eftir fæðingu barnsins og getur staðið yfir allt þar til barnið verður þriggja mánaða. Þá hættir hún oftast jafn skyndilega og hún byrjaði. Kveisan lýsir sér þannig að barnið grætur mjög sárt og er yfirleitt óhuggandi, herpist saman og dregur upp fæturna í kvölum, kreppir hnefana og verður jafnvel eldrautt í framan. Þessi köst byrja yfirleitt seinni part dags eða á kvöldin, yfirleitt á sama tíma. Þau standa oftast yfir í u.þ.b. 2-3 klukkutíma og jafnvel lengur. Þegar verst lætur geta þessi köst staðið langt fram á nætur. Á dagin er hið týpíska kveisubarn ánægt og glatt og ekkert virðist ama að því, enda eru kveisubörn alveg jafn heilbrigð og önnur börn. Athugið þó að ýmsir sjúkdómar eða kvillar aðrir en ungbarnakveisa geta valdið svipuðum einkennum. Ef einhver vafi leikur á því hvað er að barninu er sjálfsagt að leita læknis til að útiloka að eitthvað alvarlegt sé að.

Orsakir ungbarnakveisu eru enn óþekktar, en margar kenningar hafa verið settar fram. Margir hallast að því að óþroskuðu meltingarkerfi barnanna sé á einhvern hátt um að kenna. Sú skoðun er algeng að um sé að ræða ofstarfsemi í þörmum barnanna og örar hreyfingar þarmanna líkist þannig þarmakrömpum. Aðrir hallast að því að starfsemin sé of hæg og því safnist loft fyrir í þörmunum. Enn aðrir telja að spenna sé aðalorsakavaldurinn, en seinni hluta dags og á kvöldin er oft meiri erill og foreldrarnir þreyttari og stressaðri en ella, og þetta skynji barnið og verði sjálft uppspennt. Margar aðrar ástæður hafa verið nefndar sem hugsanleg orsök ungbarnakveisu s.s. ofeldi, vannæring, ofnæmi, harðlífi, niðurgangur, of mikill vindur í þörmunum o.fl.

Hver svo sem ástæðan er er greinilegt að börnunum líður mjög illa meðan á þessum kveisuköstum stendur. Foreldrar finna einnig afskaplega til með börnum sínum og líður hræðilega af að hlusta og horfa á barnið sitt kveljast án þess að geta huggað það. Auk þess eru foreldrar oft vansvefta og útkeyrðir eftir andvökunætur og það getur því tekið mikið á að eiga barn sem þjáist af ungbarnakveisu.

Hér ætla ég að ræða ýmis ráð til að koma í veg fyrir eða draga úr einkennum ungbarnakveisu. Að gefnu tilefni skal tekið fram að kveisan getur verið mjög misslæm frá barni til barns og einnig virka þessi ráð mjög misvel á börn.

Þegar barni er gefið brjóst er talið betra fyrir það að fá að klára vel úr öðru brjóstinu áður en það er lagt á hitt. Það tryggir að barnið fái feitu eftirmjókina, en ein ástæða ungbarnakveisu gæti verið að það fái of mikið af þunnu formjólkinni. Einnig er ráðlagt að vera ekki að taka barnið af brjóstinu til að leyfa því að ropa, heldur láta það klára að drekka í einni lotu. Það minnkar líkurnar á að barnið gleypi mikið loft, en því hættir meira til þess ef það þarf sífellt að opna munninn til að ná taki á geirvörtunni aftur. Ef flæði mjólkurinnar er mikið svelgist barninu frekar á og gleypir loft. Þá er ráð að styðja þétt við með einum eða tveimur fingrum rétt ofan við geirvörtuna, en það dregur úr flæðinu. Börn sem eru á pela ættu einnig að fá að klára nægju sína í einni lotu og einnig þarf að passa að flæðið úr pelanum sé ekki of mikið. Stundum dugar að skipta um þurrmjólkurtegund. Annað gott ráð er að láta barnið vera í sem mest uppréttri stöðu þegar það drekkur, en það minnkar líkur á að það gleypi loft. Mikilvægt er að hjálpa barninu að ropa þegar það er búið að drekka nægju sína. Til þess er gott að leggja það á öxl sér og strjúka eða klappa létt á bakið, eða að láta það sitja í kjöltu sér og styðja undir höku þess á meðan maður strýkur eða klappar á bak þess.

Létt nudd á magann getur hjálpað barninu að losa hægðir og loft, og einnig hefur nudd róandi áhrif á barnið. Þetta getur hjálpað börnunum að slaka á og minnkað krampann. Best er að nudda með hringhreyfingum réttsælis. Ástæðan er sú að ristillinn liggur í þá átt inni í barninu og því örvast þarmarnir í rétta átt með þessu móti og hjálpa til við að losa loftið. Hægt er að fara á námskeið í ungbarnanuddi, en einnig er hægt að lesa sér til um nudd í bókum eða á netinu. Doktor.is er með ágætis leiðbeiningar um ungbarnanudd en hana geturu kíkt á hér: <a href="http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=176&flokkur=14&spurn_nr=153&spurn_fl=Hv%EDtvo%F0ungar+og+b%F6rn+undir+sk%F3laaldri
“>Ungbarnanudd</a>

Taktföst hreyfing virðist hjálpa mörgum kveisubörnum. Margir kannast eflaust við það að ganga um gólf með barnið í fanginu. Stundum virkar að láta það liggja á framhandlegg sér þannig að maður styðji undir maga þess með hendinni. Einnig getur verið gott að rugga barninu í barnavagni eða vöggu, eða hreinlega hossa því eða rugga á hnjánum. Annað gott ráð er að sitja með barnið í ruggustól eða hafa það í þar til gerðri ungbarnarólu. Á sum börn dugar mjög vel að bera þau um í magapoka. Stellingin sem þau sitja í þegar þau eru í slíkum poka, ásamt hreyfingunni þegar þau eru borin um, virðist draga úr verkjunum og hjálpa þeim að losa loft. Einnig heyra þau hjartslátt þess sem ber þau í pokanum og finna hlýjuna, en það hefur róandi áhrif. Til að barn sé ánægt í magapoka þarf þó að venja það við hann frekar snemma. Fólk finnur sér líka oft eigin aðferðir til að rugga börnum sínum. Sjálf veit ég um eina sem setti barnið sitt á útbreidda sæng, tók síðan í hornin á sænginni þannig að úr varð eins konar rólupoki sem barnið lá í (svipað og þegar verið er að vigta barn í taubleyju, nema bara stærra efni) og sveiflaði barninu þannig fram og til baka á milli fóta sér. Þetta var það eina sem dugði til að róa barnið hennar. En sama hvernig hreyfingin er þá verður alltaf að passa að hristingurinn verði ekki of mikill, svo álag á háls og höfuð barnsins verði ekki of mikið.

Að vefja barnið þétt inn í teppi eða halda þétt utan um það róar einnig mörg börn. Væntanlega veitir þetta þeim öryggiskennd og minnir þau á lífið í hinum þrönga móðurkviði.

Þótt furðulegt megi virðast eru einhæf hljóð oft ágæt til að róa börn. Hljóðið í ryksugunni, hárblásaranum eða rennandi vatni geta virkað vel, og einnig róast börn oft í bílferðum. Þar gæti hreyfingin og hljóð bílsins spilað saman. Tónlist getur líka róað börn og þá sértaklega ef hún er svolítið hátt spiluð. Einnig er ráð að syngja fyrir barnið og þá skiptir engu hversu laglaus eða lagviss maður er.

Einstaka brjóstabörn eru viðkvæm fyrir mataræði móður. Í flestum tilvikum skiptir litlu hvað móðirin setur ofan í sig, en ef grunur leikur á að barnið þoli ekki einhverja matartegund er ráð að prófa að sleppa henni. Best er að prófa bara eina tegund í einu og láta nokkra daga líða áður en næsta er prófuð, og athuga hvort munur sé á hegðun og líðan barnsins. Stundum eru börn viðkvæm fyrir því að móðirin neyti mjókurvara, en aðrar matartegundir sem eru þekktar fyrir að fara illa í börn eru t.d. appelsínusafi, laukur, kál, epli, plómur, sterkt kryddaður matur, súkkulaði, kaffi og te.

Þrátt fyrir að te sé eitt af því sem geti farið illa í börn eru til te sem talin eru geta róað viðkvæma maga. Kamillu- og Fennelte eru einmitt slík te, og stundum hjálpar það barninu ef móðirin drekkur þessar tegundir. Einnig telja margir að það hjálpi barninu að gefa því 1-2 tsk af þessum tetegundum, en passa þarf þá að þau séu koffeinlaus.

Mörgum foreldrum er ráðlagt að gefa börnum sínum Minifom dropa ef þau þjást af ungbarnakveisu, en þeir auðvelda að loft losni úr seigu slími þarmanna. Þessir dropar hjálpa sumum börnum, en alls ekki öllum. Droparnir eru þó alveg skaðlausir og fást í apótekum án lyfseðils. Venjulegur skammtur handa ungabörnum eru 10 dropar með hverri máltíð.

Sumir foreldrar leita óhefðbundinna lækninga ef ofangreind ráð duga ekki. Margir foreldrar bera grasaseyði góðar sögur og segja það virka vel til að laga ungbarnakveisu. Einnig virðist vera orðið algengara að foreldrar prófi höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun fyrir börn sín. Þessi meðferð felst í því að meðferðaraðilinn beitir mjög léttri handsnertingu bæði við greiningu og meðferð. Þessari léttu snertingu er beitt á höfuð skjólstæðingsins, spjaldhrygg hans og ýmsa aðra staði líkamans sem viðeigandi er hverju sinni. Hægt er að lesa meira um þessa aðferð hér: <a href=”http://www.cranio.cc/">CRANIO Félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara</a>

Fæstir foreldrar vilja þurfa að gefa börnum sínum lyf, en í slæmum tilvikum ungbarnakveisu getur verið réttlætanlegt að grípa til róandi lyfja fyrir barnið. Ástandið er þá oft orðið þannig að foreldrarnir eru orðnir uppgefnir, vansvefta og úttaugaðir og engin ráð duga til að róa barnið. Róandi lyf eru þá gefin barninu hreinlega til að fá það til að slaka á og hvílast, og ekki síst til að foreldrarnir nái smá svefni og gangi ekki af göflunum. Algengt er að börn fái þá Phenergan, en það hefur róandi og kvíðastillandi verkun og er einnig ógleðistillandi.

Svo má ekki gleyma að þolinmæði nær langt í þessum málum. Þetta er tímabundið ástand sem lagast nær alltaf við þriggja mánaða aldur. Þangað til verða foreldrarnir að vera duglegir við að hjálpast að og skiptast á að hughreysta barnið, og ekki hika við að biðja um aðstoð og þiggja alla þá aðstoð sem þeim býðst. Að setja barnið í pössun til t.d. afa og ömmu yfir eina nótt gefur foreldrunum tækifæri á að hvílast og hlaða batteríin. Ein nótt með góðum svefni getur gert kraftaverk og þá eru foreldrarnir líka betur í stakk búin til að takast á við þá vinnu sem felst í því að sinna barni með slæma ungbarnakveisu.
Kveðja,