Þessi grein var upphaflega skrifuð fyrir tímaritið Heimili og Skóli, en ég ætla bara að smella henni inn hér líka í von um að hún nýtist einhverjum. Aldrei of snemmt að fara að huga að þessum málum.


Kynfræðsla hefur verið skylduefni í skólum hér á landi í töluverðan tíma, en minna hefur verið fjallað um kynfræðslu þá er foreldrar veita börnum sínum. Umfjöllun um kynfræðslu virðist þó hafa verið að aukast í þjóðfélaginu undanfarið og áhugi foreldra á þessum málum virðist einnig vera í miklum vexti. Eftirfarandi grein er byggð á lokaverkefni í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2001, en þetta verkefni ber heitið Kynfræðsla foreldra og var unnið af Lilju Sigurðardóttur undir leiðsögn Sóleyjar S. Bender dósents. Lítið er til af íslenskum rannsóknum um þetta efni og því var aðallega stuðst við bandarískar og aðrar erlendar rannsóknir.

Ýmsar rannsóknir sýna að um og yfir 80% foreldra hafa þá afstöðu að þeim beri að veita börnum sínum kynfræðslu. Jafnframt telja þeir að kynfræðsla frá foreldrum sé mikilvægasta kynfræðslan sem börnin fá. Meirihluti foreldra virðist einnig hafa þá trú að þeir veiti börnum sínum fullnægjandi kynfræðslu og séu þeir aðilar sem börnin fái mesta kynfræðslu frá. Þrátt fyrir þetta kemur í ljós að mjög fáir foreldrar hafa trú á hæfileikum annarra foreldra í þessum málum. Í einni rannsókn kom t.d. fram að 87% foreldra töldu sjálfa sig veita börnum sínum mestu kynfræðsluna, en einungis 9% töldu aðra foreldra gera slíkt hið sama. Mjög athyglisvert er einnig að þegar leitað var upplýsinga hjá unglingum skýrðu þeir frá mun minni kynfræðslu en foreldrarnir töldu sig hafa veitt. Samkvæmt upplifun unglinganna veittu foreldrar í raun litla sem enga kynfræðslu. Hvað veldur þessu misræmi er ekki ljóst, en e.t.v. leggja ekki foreldrar og unglingar sömu merkingu í það sem flokkast undir kynfræðslu. Einnig má velta fyrir sér hvort börn og unglingar hlusti í raun á allt sem foreldrarnir eru að segja, þ.e. hvort kynfræðslan skili sér? Margt bendir einnig til að unglingum finnist oft óþarft að fá mikla kynfræðslu frá foreldrum og séu sáttir við þá litlu fræðslu sem þeir fá.

Í ljósi þessara upplýsinga má velta fyrir sér hvort kynfræðsla foreldra geri eitthvert gagn. Almennt virðist sú skoðun vera algeng að kynfræðsla foreldra sé mjög mikilvæg, en er hún það í raun og veru? Rannsóknir gefa svolítið misvísandi svör um þetta, en samt sem áður er margt sem bendir til að kynfræðsla foreldra hafi mikil áhrif, ekki einungis það sem er sagt heldur einnig það sem er látið ósagt. Margir foreldrar standa í þeirri trú að ekki eigi að tala um kynlíf af fyrra bragði við ung börn, heldur bíða eftir að þau sjálf spyrji spurninga. Þeir sem hafa kynnt sér þessi mál hafa þó komist að þveröfugri niðurstöðu. Það eru einfaldlega ekki öll börn sem spyrja spurninga þó að þær vakni með þeim. Ef aldrei er rætt um kynlíf á heimilinu getur það gefið börnunum þau skilaboð að kynlíf sé eitthvað sem ekki má tala um og þau forðist því að spyrja um þessa hluti. Foreldrar verða þess vegna að taka á sig þá ábyrgð að opna umræðuna og skapa þannig grundvöll fyrir áframhaldandi umfjöllun um þessi mál. Lykilatriði í góðri og árangursríkri kynfræðslu er að hefja hana snemma á lífsleið barnsins og gera að eðlilegum þætti í uppeldinu. Ung börn sætta sig yfirleitt við einfaldar útskýringar og síðan má bæta við efni smátt og smátt eftir því sem þau eldast. Kynfræðsla ætti því ekki að fara fram í einum stórum fyrirlestri. Mun betri árangur fæst með því að fræða börnin jafnt og þétt frá unga aldri, heldur en að setjast niður með hálffullorðnum unglingi og ætla sér að fræða hann um allt í sambandi við kynlíf á einu bretti. Unglingar eru á viðkvæmu skeiði; þeir eru að slíta tengslin við foreldrana og sjálfstæðisbaráttan er í fullum gangi. Á þessum aldri getur verið erfitt að ná athygli unglingsins, sérstaklega ef ekkert hefur verið rætt um kynlíf áður á heimilinu. Það er því mjög mikilvægt að vera búinn að opna umræðu fyrir þessu efni áður en barnið nær kynþroskaaldri. Ef búið er að leggja grundvöll að opnum umræðum um kynlíf er mun líklegra að unglingurinn hlusti á það sem foreldrarnir segja og einnig að hann leiti til foreldranna með þær spurningar og vangaveltur sem vakna á þessum aldri. Börn undir kynþroskaaldri taka yfirleitt meira mark á skoðunum foreldra sinna en unglingar, og því er gott að vera búinn að fræða um grundvallaratriði varðandi kynlíf og kynþroska fyrir þann aldur. Sömuleiðis er gott fyrir barnið að vera búið að fá fræðslu um þessa hluti áður en það fer að upplifa þær breytingar sem fylgja kynþroskaskeiðinu. Þannig minnka líkurnar á að þessir hlutir komi því á óvart og gerir það betur undirbúið til að takast á við þá. Góð og traust samskipti á milli barns og foreldra auka einnig líkurnar á að barnið taki mark á því sem foreldrarnir segi og að kynfræðslan skili sér. Margar rannsóknir sýndu t.d. fram á að ef samskipti foreldra og barna voru jákvæð þá var meira samræmi á milli þeirrar kynfræðslu sem foreldrar og börn skýrðu frá. Áhrif kynfræðslu foreldra á hvenær unglingar hefja fyrstu kynmök, notkun getnaðarvarna og ástundum öruggs kynlífs virðast ætíð vera meiri þar sem samskipti barna og foreldra eru opin, einlæg og almennt góð. Einnig virðast góð samskipti unglings við foreldra leiða til þess að hann eigi auðveldara með að ræða við rekkjunaut sinn um öruggt kynlíf. Ef barnið lærir að umfjöllun um kynlíf sé ekkert feimnismál innan fjölskyldunnar þá á það trúlegra auðveldara með að ræða um slíka hluti við aðra seinna meir.

Kynjamunur er töluverður í kynfræðslu frá foreldrum. Mæður eru í miklum meirihluta þeirra foreldra sem veita kynfræðslu og stúlkur fá áberandi meiri kynfræðslu en piltar. Ef feður taka þátt í kynfræðslunni er það aðallega til sona. Einnig kemur fram munur í efni kynfræðslunnar eftir því hvort um er að ræða stúlku eða pilt, en kynfræðsla til stúlkna virðist einkennast meira af varnarorðum og fræðslu um rétta hegðun en kynfræðsla til pilta. Í kynfræðslu til stúlkna er þannig mikið fjallað um hvernig höndla eigi kynferðislegan þrýsting, hegðun á stefnumótum, getnaðarvarnir og þunganir. Þessar niðurstöður styrkja því það almenna álit að ábyrgð í kynlífi sé frekar lögð á stúlkur en pilta. Þetta bendir þó til þess að hvetja þurfi pilta til að axla ábyrgð með stúlkunum og því þyrfti að leggja meiri áherslu á þessi atriði í kynfræðslu til þeirra. Stúlkur fá einnig meiri fræðslu um kynþroska en piltar, og má t.d. nefna að blæðingar virðist vera það efni sem langflestar stúlkur fá einhverja fræðslu um og jafnframt það algengasta. Bæði kynin fá almennt meiri fræðslu um kynþroska síns eigin kyns, en vert er að ítreka að nauðsynlegt er að fræðast einnig um kynþroska hins kynsins til að öðlast góðan skilning á þessum málum. Almennt virðast foreldrar leggja mesta áherslu á að fræða börn sín um hættur kynlífs og hvernig hægt sé að forðast þær, en í því sambandi má nefna umfjölllun um kynsjúkdóma og kynferðislegan þrýsting. Í ljósi þessara áherslna kom svolítið á óvart að umfjöllun um smokka og aðrar getnaðarvarnir virðist vera nokkuð umdeild og misalgeng. Ein hugsanleg skýring á þessu er að foreldrum finnist þeir vera komnir óþægilega nálægt þeirri hugmynd að barnið þeirra sé farið að stunda kynlíf með því að fjalla um þessa hluti. Eins getur verið að foreldrar séu hræddir um að ýta undir kynlífsþátttöku barna sinna með því að fjalla um getnaðarvarnir. Það er samt ekkert sem bendir til að fræðsla um getnaðaravarnir ýti undir kynlífsþáttöku unglinga. Kynfræðsla, veitt í góðum samskiptum innan fjölskyldu, eykur einmitt líkurnar á að unglingurinn bíði með fyrstu kynmök og stundi frekar öruggt kynlíf. Sumum atriða kynfræðslu virðast foreldrar alveg horfa fram hjá og fjalla lítið sem ekkert um og eru þar áberandi atriði í sambandi við kynferðislegar langanir eða þarfir, t.d. sjálfsfróun. Eitt sinn þótti sjálfsfróun óeðlilegt fyrirbrigði en viðhorf fólks til þess virðist ekki vera eins í dag. Flestir álíta nú sjálfsfróun mjög eðlilegan hlut, en samt sem áður ræða foreldrar mjög lítið um sjálfsfróun í kynfræðslu til barna sinna.

Oft hefur verið talið að ein meginástæða þess að foreldrar forðist, eða dragi á langinn, að fræða börn sín um kynlíf sé að þeim finnist umræðuefnið óþægilegt og vandmeðfarið. Þetta virðist sérstaklega eiga við foreldra yngri barna og verið getur að þeir séu hræddir um að skaða börn sín með “rangri” kynfræðslu. Þetta eru óþarfa áhyggjur. Ung börn sía einfaldlega út það sem þau ekki skilja og gleyma því, eða geyma þar til þau verða eldri. Ef börn fá ekki kynfræðslu frá foreldrum fá þau hana bara annars staðar frá, t.d. frá vinum og fjölmiðlum, og ekki er sú kynfræðsla alltaf byggð á réttum upplýsingum. Á þennan hátt fá þau ekki góðar útskýringar og geta því fengið alls kyns ranghugmyndir. Því er mun heppilegra að kynfræðslan komi frá foreldrunum. Þekking foreldra á kynlífi og kynþroska virðist einnig hafa áhrif á þá kynfræðslu sem þeir veita, en foreldrar sem hafa góða þekkingu á þessu efni eru mun líklegri til að veita börnum sínum kynfræðslu. Viðhorf foreldra til kynlífs virðist aftur á móti ekki hafa nein áhrif á hvort þeir ræði við börn sín um kynlíf eða ekki. Því má ætla að íhaldssömum foreldrum sé jafn mikið í mun að koma sínum gildum og viðhorfum áleiðis til barna sinna og frjálslyndum. Námskeið sem ætluð eru til að auka þekkingu foreldra á kynlífi og kynþroska, ásamt því að bæta samskipti þeirra við börn sín, virðast vera gagnleg sem undirbúningur fyrir kynfræðslu foreldra og þeir foreldrar sem höfðu farið á slík námskeið voru langflestir mjög ánægðir. Því miður er ekki mikið um námskeið af þessu tagi hér á landi, en það stendur vonandi til bóta. Heimaverkefni barna í kynfræðslu, þar sem samvinnu við foreldra er krafist, er einnig nokkuð sem foreldrar voru oftast ánægðir með og fannst hjálpa við að opna umræðu um kynlíf á heimilinu. Þetta er gert hér á landi með námsefninu Lífsgildi og ákvarðanir, og foreldrar, sem og kennarar, ættu að reyna að fylgja þessu sem best eftir. Með þessu námsefni fylgir foreldrahandbók sem foreldrar ættu að kynna sér vel. Foreldrum finnst einmitt gott að leita upplýsinga í skriflegu efni um kynfræðslu og til eru fjölmargar bækur sem þeir geta nýtt sér í þessu sambandi. Hér á eftir fylgja nokkrar slóðir á áhugaverðar og nytsamlegar síður á netinu um kynfræðslu. Því miður er lítið til af íslenskum síðum um þessi mál, en vonandi geta einhverjir nýtt sér upplýsingarnar sem þarna eru.

Að lokum vil ég einfaldlega hvetja alla foreldra til að byrja strax að tala við börn sín um kynlíf. Kynlíf er svo miklu meira en bara kynmök. Börn byrja að þroskast sem kynverur strax frá fæðingu; þau uppgötva kynfæri sín og annarra og verða eðlilega forvitin um þessa hluti. “Læknisleikir” tveggja barna, þar sem þau skoða kynfæri hvort annars, og sjálfsfróun er t.d. mjög eðlilegur hlutur í þroska þeirra. Ekki ætti að skamma börn fyrir þessa hluti, en þó er sjálfsagt að kenna þeim að svona lagað geri maður bara í einrúmi. Alltaf ætti að svara spurningum barna á heiðarlegan máta. Það er í góðu lagi að hafa útskýringarnar einfaldar þegar um er að ræða ung börn, en aldrei að segja ósatt. Börn þurfa að finna að þau geti treyst foreldrum sínum og séu ekki dæmd fyrir skoðanir sínar og spurningar. Það er heldur aldrei of seint að byrja kynfræðslu. Auðvitað er æskilegast að hún hefjist sem fyrst, en hér sem annars staðar gildir máltækið “betra er seint en aldrei”.

Lilja Sigurðardóttir
Hjúkrunarfræðingur




Slóðir á heimasíður um kynfræðslu

<a href="http://www.mmedia.is/fkb/“>Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir</a>

<a href=”http://web.khi.is/~erlakr//ungl.htm“>Listi yfir bækur um unglingsárin (gerður fyrir námskeið í KHÍ)</a>

<a href=”http://www.siecus.org/“>SIECUS Bandarísk samtök um kynfræðslu</a>

<a href=”http://www.plannedparenthood.org/“>Bandarísk samtök um kynlíf og barneignir</a>

<a href=”http://www.plannedparenthood.org/parents/howto_page1.HTML“>Góð ráð um hvernig tala á við börn um kynlíf</a>

<a href=”http://www.talkingwithkids.org/sex.html“>Fleiri góð ráð um hvernig tala á við börn um kynlíf</a>

<a href=”http://www.allaboutsex.org/">Fín síða fyrir unglinga og foreldra</a
Kveðja,