Ósjálfráð viðbrögð ungbarna Nýfædda barnið liggur oftast í stellingu sem almennt er kölluð fósturstelling. Hendur og fætur eru beygðir og liggja að líkamanum og hnefarnir eru krepptir. Hreyfingar nýburans eru mjög ómarkvissar og ósjálfráðar, enda á taugakerfið eftir að þroskast mikið. Nýburinn hefur samt sem áður mörg ósjálfráð viðbrögð sem aðstoða hann við fyrstu baráttuna í lífinu. Þessi viðbrögð gefa einnig mikilvægar vísbendingar um starfsemi og ástand taugakerfis barnsins.

Í fyrsta lagi má nefna leitar- og sogviðbragðið. Leitarviðbragðið er þannig að ef eitthvað snertir létt kinn barnsins þá snýr það sér í þá áttina sem snertingin kemur úr og leitar að fæðu, þ.e. oftast brjóstinu. Sogviðbragðið er á þann hátt að barnið fer að sjúga ef eitthvað snertir varir þess eða er sett upp í munn þess. Annað viðbragð sem einnig er nátengt þessu er kyngingarviðbragðið. Kynging er reyndar mjög flókin hreyfing og það getur tekið barnið svolítinn tíma að ná almennilega tökum á því. Því er ekki óalgengt að ungabörnum svelgist á, hósti og hnerri fyrst þegar þau eru að drekka. Öll þessi viðbrögð hjálpa barninu að finna og sjúga brjóstið og nærast. Þessi vibrögð hverfa yfirleitt þegar barnið er 9-12 vikna gamalt, en þá eru þessar hreyfingar orðnar lærðar og meðvitaðar.

Annað þekkt viðbragð er gripviðbragðið, en það lýsir sér á þann hátt að barn grípur fast um það sem lagt er í lófa þess. Sumir telja þetta leifar frá fornöld þegar menn voru líkari öpum og börnin þurftu að halda fast í foreldrana þegar þau voru borin. Þetta viðbragð hverfur í kringum 6 vikna – 3ja mánaða aldurinn.

Moro viðbragðið er viðbragð sem gefur mjög góða vísbendinu um starfsemi miðtaugakerfisins. Þessu viðbragði er hægt að koma af stað með því að láta barninu bregða, t.d. með snöggum hávaða eða með því að hrista vöggu/rúm þess. Oftast er þetta viðbragð prófað þannig að barnið er látið liggja á bakinu, tekið er í hendur þess og öxlum lyft aðeins upp, á meðan höfuðið fær að hvíla áfram á undirlaginu. Síðan er sleppt snögglega. Barnið baðar þá fyrst út öllum öngum eins og það sé að varna því að það detti og dregur síðan útlimina þétt að sér. Barnið ætti að hreyfa alla útlimina samhverft. Moro viðbragðið er sterkt fyrstu 8 vikurnar, en síðan fer að draga úr því og er oftast horfið við lok 3ja mánaða aldurinn.

Gönguviðbragðið er á þann hátt að ef barni er haldið í uppréttri stöðu og iljar þess látnar snerta undirlagið, hreyfir það fæturna eins og það sé að ganga. Þetta viðbragð hverfur við 3ja mánaða aldur.

Ef barn er látið liggja á maganum og strokið eftir endilöngu bakinu til hliðar við hrygginn, sveigir það bolinn í þá áttina. Þetta viðbragð gefur ágæta vísbendingu um heilindi hryggjarsúlunnar. Þetta viðbragð hverfur við 3-6 mánaða aldur.

Skylmingarviðbragð (sjá mynd) lýsir sér á þann hátt að ef höfði liggjandi barns er snúið til hægri, réttir það úr hægri hendi (og fæti) en lyftir þeirri vinstri (og fæti) þannig að hnefinn snýr upp að höfði þess. Ef höfðinu er snúið til vinstri gerist alveg það sama nema bara öfugt. Þessi stelling minnir á manneskju sem er að undirbúa sig fyrir skylmingar og þaðan kemur nafnið. Þetta viðbragð hverfur um 6 mánaða aldurinn.

Babinski viðbragðinu er komið af stað með því að strjúka il barnsins nokkuð þétt og snöggt frá hæl að tá. Við það bognar stóra táin upp en hinar glennast í sundur. Þetta viðbragð er til staðar að 3ja mánaða aldri, en stundum helst það alveg þar til barnið fer að ganga og fullorðinsgerð þessa viðbragðs tekur við. Fullorðinsgerð þessa viðbragð er svo til akkurat öfugt við ungbarnaviðbragðið, þar sem þá kreppast allar tærnar niður á við. Ef ungbarnaviðbragð er enn til staðar hjá stálpuðu barni eða fullorðnum einstaklingi bendir það til einhvers galla eða skemmdar á taugastarfsemi viðkomandi.

Eitt viðbragð sem margir foreldrar þekkja í dag er viðbragðið þegar barn heldur niðri í sér andanum þegar það lendir með höfuðið ofan í vatni. Barnið dregur að vísu að sér andann, en þegar vatnið nær barkanum lokar barnið þar fyrir og andar ekki. Þegar það síðan kemur upp úr vatninu losar það sig við vatnið sem fór ofan í hálsinn og heldur áfram að anda. Þó að barnið haldi niðri í sér andanum hefur það ekki getu til að bjarga sér upp úr vatninu og myndi því á endanum kafna ef það kemst ekki upp úr. Þetta viðbragð hverfur yfirleitt um 6 mánaða aldur.

Til er mörg önnur ósjálfráð viðbrögð sem ungabörn hafa en ég læt þessa umfjöllun nægja.



Aðalheimild: Nursing Care of Children, 2. útg., 1994
Höfundar: Betz, C.L., Hunsberger, M. og Wright, S.
Kveðja,