Að hætta með bleyju. Einhverntíman skrifaði ég grein um það að hætta með bleyju, en þar sem þetta er efni sem virðist alltaf koma upp aftur og aftur ákvað ég að skella henni inn sem fróðleikspistli svo það sé auðveldara að finna hana fyrir þá sem vilja.

Að sjálfsögðu eru börn misjöfn en samt sem áður eru fæst börn tilbúin að hætta með bleyju mikið fyrir tveggja ára aldurinn. Oft fara þau að sýna þessu áhuga svona í kringum 18 mánaða en eru samt yfirleytt ekki nærri því tilbúin til að sleppa bleyjunni strax.

Það þjónar engum tilgangi að reyna að fá barn til að hætta með bleyju áður en það nær þeim þroska sem til þarf. Taugakerfi barna undir ca 18 mánaða er einfaldlega ekki nógu þroskað til að þau hafi nokkra stjórn á hringvöðvunum við endaþarminn og þvagrásina. Þau missa einfaldlega þvag og hægðir þegar líkaminn fær þau skilaboð að þess sé þörf. Þá slaknar á þessum vöðvum og barnið missir hægðir og/eða þvag. Barnið getur á engan hátt stjórnað þessum vöðvum og fær heldur engin skilaboð frá líkamanum um að þarmarnir eða þvagblaðran sé full og finnur því ekki að neitt sé að gerast fyrr en það bara gerist. Smátt og smátt fer taugakerfið að þroskast þannig það börnin fari að fá tilfinningum um að þau þurfi að pissa eða kúka ÁÐUR en það gerist, en stjórnunin á hringvöðvunum er enn ekki nógu góð til að þau nái að halda í sér þar til þau komast á koppinn. Þetta kemur síðan smátt og smátt. Oftast byrja börn að segja til EFTIR að allt er komið í bleyjuna, síðan fara þau að segja til UM LEIÐ og það gerist og að síðustu geta þau sagt til ÁÐUR en það gerist.

Börn ná yfirleytt stjórn á hægðum áður en þau ná stjórn á þvaglátum. Um 18 mánaða fara mörg að byrja að nota kopp, sum jafnvel fyrr, en það er ekki fyrr en um tveggja ára aldurinn sem talað er um að börn hafi hægðir með einhverjum fyrirvara þannig að þau missi ekki hægðir í bleyju. Með þvaglát kemur þetta aðeins seinna. Að vísu byrja börn oft um 18 mánaða aldurinn að láta í ljós með einhverjum hætti að þau séu blaut, en það er oftast ekki fyrr en í kringum tveggja til þriggja ára sem þau fara að haldast þurr yfir daginn og það er ekkert óeðlilegt að börn séu komin á fjórða ár áður en þau haldast þurr á nóttunni. Sum pissa undir á næturna jafnvel fram á skólaaldur og er það aðeins algengara hjá strákum en stelpum. Reyndar virðist svo vera að stelpur séu oft fljótari að hætta með bleyju en strákar.

Það er líka mikilvægt að börnum sé gefinn þann tími sem þau þurfa til að hætta með bleyju, því ef það er mikið pressað á þau og/eða þau skömmuð fyrir að geta ekki haldist þurr, þá er alveg eins víst að þau fari bara í baklás og vilji alls ekki nota koppinn eða klósettið. Það getur meira að segja komið fyrir að börn fái þvílíka andúð á koppnum eða klósettinu að það fari að halda í sér óhóflega mikið til að þurfa ekki að losa neitt í koppinn/klósettið. Þetta getur m.a. leitt til slæmrar hægðatregðu hjá barninu og vandamála með þvaglát. Stundum er einfaldlega best að setja bara bleyjuna aftur á barnið og taka þannig pressuna af þvi og bíða þá bara nokkrar vikur eða mánuði í viðbót ef barnið virðist ekki vera tilbúið til að hætta með bleyju.

Þegar verið er að venja barn af bleyju getur verið gott að setja það á koppinn/klósettið alltaf á ákveðnum tímum dagsins til að byrja með. T.d. strax þegar það vaknar á morgnana, eftir máltíðir og fyrir svefn. Þá eru oft mestar líkurnar á að barninu takist að skila einhverju niður og einnig venst það þannig smátt og smátt á þessa tíma og fer því að miða þvag- og hægðalosun við þá. Þegar manni finnst barnið vera orðið nokkuð duglegt er mál komið að taka bleyjuna alveg af því á daginn og sjá hvernig gengur. Ef barnið er tilbúið finnur það fljótt hvað það er óþægilegt að pissa í sig og verða blautt og fer því að passa sig að fara á klósettið áður en það gerist. Svo er tímabært að taka næturbleyjuna þegar bleyjan er farin að vera þurr eftir nóttina. Auðvitað er ekkert víst að þessi aðferð virki vel á öll börn og foreldrar þurfa bara að prófa sig áfram.

Svo langar mig að bæta við að sumir foreldrar hafa gert það með góðum árangri að setja barnið alltaf reglulega á kopp frá mjög ungum aldri, kannski ca 8-9 mánaða, og hafa náð að halda barninu þurru þannig. Þetta krefst auðvitaðm heilmikils tíma og reglu, því svona ungt barn ræður ekki við þetta sjálft, en getur flýtt fyrir koppaþjálfuninni og þessi börn eru oft mjög fljót að sleppa bleyjunni alveg þegar tauga- og vöðvastjórnunin er komin :)
Kveðja,