Slysalaus jól Honeybun kom með mjög góða ábendingu um pistil sem ég ætla að reyna að bregðast við, en það er í sambandi við hinar ýmsu slysahættur barna sem geta leynst hjá okkur um jólin.

Jólunum fylgir oft meiri notkun kertaljósa og það er mikilvægt að kerti séu höfð á þannig stað að börn nái ekki til þeirra eða geti togað þau yfir sig. Jafnvel þótt slökkni á kertinu ef það dettur af borði og á barn, er kertavax mjög heitt og getur brennt barnið. Einnig eru kertastjakar stundum þungir og geta meitt litla hausa. Börnum finnst kertaljós yfirleitt mjög fallegt og sækja því í það. Það er því gott að reyna að kenna börnum að varast kertaljós; þetta er “ó ó” og heitt. Einnig verðum við að muna eftir að slökkva alltaf á kertunum fyrir nóttina og/eða áður en við yfirgefum húsið/herbergið. Munið líka að ef þið eruð með kransa eða annað skraut á kertunum að passa vel að kertinn brenni ekki niður í skrautið og kveiki í því. Um áramótin er gott að muna eftir hlífðargleraugunum og passa að hafa börnin ekki í fötum úr gerviefni sem fuðrar upp mjög auðveldlega. Mikillar varúðar verður að gæta þegar verið er að sprengja kínverja og skjóta upp rakettum. Sumar geta verið gallaðar og farið í allt aðra átt en þær eiga að fara. Því er best að börnin séu í góðri fjarlægð frá svona hlutum.

Oft fjölgar rafmagnssnúrum okkar um jólin, við erum að setja upp seríur og rafmagnsljós ýmiskonar. Löngum snúrum getur fylgt slysahætta, börnin detta um þær og toga í þær og geta fengið þunga hluti yfir sig ef snúrurnar eru þannig staðsettar. Einnig er mikilvægt að snúrurnar séu heilar og því ekki hættulegar upp á rafmagn að gera. Börnum dettur ýmislegt í hug og sum gætu jafnvel tekið upp á að smakka aðeins á snúrunum og því er langbest að reyna að hafa rafmagnssnúrur á þannig stöðum að þær séu ekki áberandi, ekki lausar og ekki fyrir. Upp á eldhættu er einnig langöruggast að taka allar snúrur úr sambandi á nóttunni. Jólunum fylgir mikil rafmagnsnotkun og það getur valdið álagi á rafkerfi hússins, sérstaklega ef lagnirnar eða rafmagnstækin eru gömul. Annað sem ekki má gleyma er að passa að ekkert brennanlegt sé haft nærri rafmagnsljósum. Hitinn af þeim verður mikill og getur auðveldlega kveikt í t.d. gardínum eða pappírsskrauti.

Ekki heldur gleyma eldamennskunni og bakstrinum. Pottar og pönnur eiga alltaf að snúa með skaftið eða höldin út að vegg til að barn nái ekki í þessa hluti og geti steypt brennheitum réttunum yfir sig. Einnig er gott að eiga hlíf framan á eldavélina til að hindra að barn geti náð í potta og pönnur sem þar eru. Bakaraofninn er heitur og best er að hafa hlíf á honum og halda barninu í góðri fjarlægð þegar verið er að taka réttina úr ofninum. Svo er gott að eiga hlíf sem kemur í veg fyrir að barnið geti fiktað í eldavélartökkunum og kveikt á henni.

Dót getur verið hættulegt ef það er of lítið og hentar ekki aldri barnsins. Smáhlutum sem eldra systkini fær, t.d. legókubbum, ber að halda frá yngra barninu. Einnig gera ekki allir ættingjar sér grein fyrir hversu stórir hlutirnir eiga að vera fyrir barnið þitt og gefa því kannski leikföng sem henta því alls ekki. Það er því þitt að meta hvað er æskilegt og hvað ekki. Sumt dót er líka hægt að taka í sundur og annað er bara svo mikið drasl að það er auðvelt að slíta það í sundur. Góð regla með t.d. bangsa og annað dót er að toga vel í handleggi og fætur, áföst augu eða nef, eða annað sem mögulega gæti losnað af, til að gá hvort það standist álagið. Bangsar geta verið voða sætir, en þeir eru ekki skemmtilegir ef barnið síðan pillar augun af og kafnar á þeim. Einnig getur tróð í mjúkum dýrum verið hættulegt ef saumarnir losna og barnið nær í tróðið og fer svo að smakka á því. Það getur verið ágætt að eiga kokhólk, en hægt er að kaupa slíkan grip í apóteki. Með honum er hægt að mæla hvort hlutur kemst ofan í kok barnsins. Hólkurinn er álíka víður og barnskok og ef hlutur kemst í ofan í hólkinn er hluturinn of lítill fyrir barnið og getur auðveldlega fests í koki þess.

Jólaskraut getur margt hvert verið of lítið fyrir barnið, en eins og við vitum eru börn á vissum aldri alltaf að setja allt upp í sig. Einnig ætti fólk með lítil börn að passa að hafa ekki brothætt jólaskarut þar sem börnin ná til, t.d. jólakúlurnar á jólatrénu o.s.fr. Jólaseríur og langt skraut getur líka verið hættulegt með þeim hætti að börnin vefja þessu um hálsinn og geta hreinlega hengt sig.

Svo má ekki gleyma öllu jólasælgætinu. Börn yngri en þriggja ára ættu ekki að fá harðan brjóstsykur eða seigar karamellur, það er auðvelt fyrir þau að kafna á svona hlutum þar sem þau ráða ekki nógu vel við þetta. Karamellur geta fests í tönnum barnsins og það því átt erfitt með að ná þeim út úr sér. Hnetur, sérstaklega jarðhnetur, eru algjör bannvara fyrir börn undir fjögurra ára aldri og í raun ætti helst ekki að gefa börnum undir skólaaldri hnetur. Hnetur geta auðveldlega flísast niður og smá korn þá hrokkið ofan í lungun. Olían í hnetunum er mjög eitruð fyrir lungun og getur því jafnvel lítið hnetubrot valdið mjög alvarlegum sýkingum. Vínber eru heldur ekki sniðug fyrir börn, en hýðið á þeim og steinarnir geta verið varasamir. Aldrei ætti að láta lítið barn borða sælgæti eða aðra smámola eftirlitslaust. Meira að segja venjulegt cheerios (eða þurrt kex) getur verið hættulegt ef ekki er fylgst með barninu, þar sem það er mjög þurrt og getur þannig valdið því að kok barnsins þornar og erfitt verður fyrir það að kyngja. Cheeriosið safnast þá bara saman í kokinu og getur valdið köfnun. Passið ykkur því á að kaupa ykkur ekki frið í jólaösinni með þessari aðferð.

Svo óska ég ykkur bara gleðilegra jóla og endilega bætið öllu við sem ykkur dettur í hug og hefur ekki komið fram hér.
Kveðja,