Meira um skyndihjálp barna Jæja hér kemur meira um skyndihjálp barna (margt á nú alveg við um fullorðna líka). Munið bara að ef þið teljið að um alvarlegt ástand sé að ræða skulið þið alltaf byrja á því að hringja á sjúkrabíl áður en meira er gert til að tryggja að hjálp berist sem allra fyrst.

Blæðing/sár
Minniháttar sár og rispur ætti bara að þvo með vatni og sápu, best að halda því undir rennandi vatni, og skella svo bara plástri á. Við höfum nú örugglega flest gert þetta ;)

Ef um mikla blæðingu er að ræða er best að beita þrýstingi á sárið til að stöðva blæðinguna ásamt því að halda þeim líkamshluta sem sárið er á hátt uppi (yfir hjartastað) til að aðdráttaraflið vinni ekki með blæðingunni. Það blæðir minna upp í móti en niður í móti. Barnið ætti að leggjast niður til að hjartað eigi auðveldar með að dæla blóði áfram til höfuðs (heila) og annarra mikilvægra líffæra, en munið bara að halda sárinu hátt. Bindið síðan um sárið, helst með sárabindi, en annars þá dugar hvað sem er ef sárabindi er ekki tiltækt, t.d. vasaklútur, slæða, trefill, bindi eða rífa eitthvað í ræmur. Bindið þéttingsfast til að halda þrýstingi á sárinu og bindið hnútinn beint yfir sárastað til að halda þrýstingnum enn meiri. Stundum getur líka verið gott að setja einhvern harðan hlut, t.d. kveikjara, varalit eða eitthvað slíkt ofan á sárastað og binda fast yfir til að veita enn meiri þrýsting sem stöðvar blæðinguna. Eftir þennan umbúnað á að fara með barnið sem fyrst undir læknishendur. Þrýstingurinn stöðvar blóðflæðið í sárinu en um leið hægir það á blóðflæði til frumanna í líkamshlutnum og því mikilvægt að hann sé sem styðst. Oftast þarf að sauma svona stór sár eða klemma saman á einhvern hátt.

Ef eitthvað er fast í sárinu, t.d. glerbrot, nagli eða einhver annar aðskotahlutur skuluð þið EKKI fjarlægja hann og EKKI ýta beint ofan á aðskotahlutinn þegar þið eruð að reyna að stöðva blæðinguna. Aðskotahlutir í sárum stífla nefninlega oft æðar og koma þannig í veg fyrir blæðingu. Ef hlutnum er kippt úr getur blæðingin því orðið mun meiri. Ef um aðskotahlut er að ræða skal lyfta þeim líkamshluta upp þar sem sárið er eins og áður, en þrýsta á staðina sitt hvoru megin við hlutinn. Þegar búið er um slík sár skal einfaldlega búa um í kringum aðskotahlutinn og reyna að gera það þannig að hluturinn haggist sem minnst. T.d. gæti verið gott að setja eitthvað hart sitt hvoru meginn við aðskotahlutinn og binda svo í kring þéttingsfast sem áður og drífa svo barnið til læknis.

Lost
Lost er læknisfræðilegt heiti á ákveðnu lífshættulegu ástandi sem skapast þegar vökvamagn (blóð) í æðum er of lítið til að æðakerfið geti viðhaldið eðlilegri starfssemi og dælt súrefnisríku blóði til líffæra. Þetta verður ýmist vegna þess að um vökvatap er að ræða, t.d. mikil blæðing eða alvarleg brunasár (í þannig brunasárum seytlar mikill vökvi út um sárin sem eru á stóru svæði og vökvatap því mikið), eða ef æðakerfið víkkar út, t.d. vegna eituráhrifa eða ofnæmisviðbragða. Blóðþrýstingurinn fellur í losti, húðin verður fölgrá, köld og þvöl, barnið svitnar, öndunin er hröð en grunn, það finnur fyrir svima, getur haft sjóntruflanir, fundið fyrir miklum þorsta og oft verður það mjög eirðarlaust vegna vanlíðunar og súrefnisskort til heila. Lostástand endar með meðvitundarrleysi og jafnvel dauða ef ekkert er að gert.

Í svona ástandi eða ef lost er yfirvofandi (t.d. ef um mikla blæðingu er að ræða) er mjög mikilvægt að róa barnið niður. Æst barn þarf á meira súrefni að halda en rólegt barn og því er svo mikilvægt að róa það niður til að spara súrefnið, þar sem blóðrásin í svona ástandi annar ekki súrefnisþörfinni. Síðan þarf að sjá til að barnið fái nóg loft, stöðva mögulega blæðingu, fjarlægja ofnæmisvald eða að öðru leyti reyna að draga sem mest úr þeim aðstæðum sem valda lostinu. Barnið á síðan að leggja niður með hátt undir fótum (sjá myndina) til að auðvelda súrefnisflæði til heila, en heilinn þolir mjög illa súrefnisskort. Losið um þröng föt og snúið höfði barnins til hliðar til að draga úr líkum á ásvelgingu ef það kastar upp. Passið að barninu sé mátulega hlýtt, t.d. breiða á það teppi eða yfirhöfn, en því má heldur ekki vera of heitt. Ef húðin verður of heit verður blóðflæði til hennar meiri og dregur þannig úr blóðflæði til innri mikilvægari líffæra sem þurfa meira á því að halda akkurat þarna.

Athugið að börn þurfa ekki að vera með öll þessi einkenni losts til að bregðast eigi við. Þó að barn t.d. sýni engin merki um lost en ljóst er að um töluverða blæðingu er að ræða eða eitthvað annað sem felur í sér hættu á losti skal einnig bregðast við á sama hátt til að freista þess að koma í veg fyrir lost. Börn eru viðkvæm fyrir blóðþrýstingsfalli, þau halda að vísu blóðþrýstingnum uppi mjög lengi en ef hann fellur er oft erfitt að ná honum til baka og það er stórhættulegt ástand. Einnig verðið þið að passa ykkur á að þótt ekki sjáist nein augljós blæðing en barn er samt með einkenni losts, eða hefur lent í harklalegu slysi, getur vel verið um innri blæðingar að ræða. Aumur kviður er t.d. alltaf varhugaverður, þar eru mörg blóðrík líffæri sem getur blætt mikið úr á skömmum tíma. Brjóstverkur er líka grunsamlegur. Því borgar sig eiginleg alltaf að gera varúðarráðstafanir gegn losti ef barn hefur lent í slysi. Betra að gera of mikið en of lítið og of seint, þar til barnið kemst til læknis sem getur skorið úr um hvort um alvarlegt ástand er að ræða eða ekki.

Köfnun/aðskotahlutur í hálsi
Ef stendur í barni er mikilvægt að reyna að fjarlægja aðskotahlutinn sem fyrst. Ef barn hóstar á ekki að reyna að stöðva hóstann því hann þjónar þeim tilgangi að koma undirþrýstingi á hlutinn, sem stundum nægir til að spýta honum upp. EF barnið losnar ekki við aðskotahlutinn skuluð þið setjast á stól og leggja barnið þvert yfir lærin með höfuð þess hangandi niður með annarri hlið ykkar. Magi barnsins á að vera ca á lærinu þannig að bakið hangir niður líka. Sláið síðan flötum lófa ofarlega á bakið á milli herðablaðanna þar til hluturinn losnar. Þetta veldur einmitt því að loft í lungunum þrýstist upp og getur losað um hlutinn. Ef hluturinn losnar samt ekki er e.t.v. ekki um annað að ræða en að reyna að krækja honum út með fingrunum en passið vel að ýta honum ekki lengar niður í kokið.

Ef um ungabarn er að ræða er best að taka það upp og leggja það á grúfu á framhandlegg ykkar þannig að þið getið stutt við höfuð þess og háls með hendinni. Haldið barninu á þann hátt að höfuð þess sé neðar en bringan og sláið sem áður flötum lófa á milli herðablaðanna. Stundum getur líka verið gott að halda einfaldlega í fætur barnsins með annarri hendinni þannig að það hangi niður og slá á bak þess með hinni hendinni.

Með stór börn er beitt sömu aðferð og með fullorðna, þ.e. Heimlich gripið, en þá er farið aftur fyrir barnið, gripið um bringu þess þannig að hendurnar haldi saman akkurat fyrir neðan flagbrjóskið (neðsti hluti bringubeinsins), hafa hnefana kreppta saman og þrýsta nokkrum sinnum vel saman þannig að átakið sé inn og upp. Stundum getur verið gott að láta barnið sitja öfugt á stól þannig að það halli sér fram yfir stólbakið og slá þannig á bak þess, eða nota Heimlich.

Drukknun
Ef barn hefur lent í vatni og er hætt að anda er mikilvægt að byrja blásturaðferðina sem fyrst. Munið að það er EKKI ykkar að skera úr um hvort barn sé dáið eða ekki, það á eingöngu læknir að gera. Börn geta hætt að anda mjög lengi eftir að hafa lent í vatni. Ef þið beitið blásturaðferð komið þið lofti ofan í lungu þess og þjónið þar með tilgangi öndunarvélar þó að barnið taki ekki við að anda af sjálfsdáðum strax. Ekki eyða tíma í að reyna að tæma lungu barnsins af vatni, þegar það fer að anda aftur hóstar það vatninu upp ósjálfrátt. Það er mikilvægara að byrja strax blátursaðferðina. Ef vatnið er kallt getur barnið ofkælst og því er mikilvægt að bregðast við því líka.

Lítil börn geta drukknað í mjög grunnu vatni, jafnvel drullupolli. Ef þau detta á grúfu í vatn eru þeirra fyrstu viðbrögð að draga djúpt andann til að fara að gráta og við það fyllast lungu þess fljótt af vatni. Einnig verða þau áttavilt og kunna ekki að snúa sér rétt, þannig að þau liggja bara áfram eins og þau eru. Börn yngri en 6 mánaða hafa að vísu reflex sem veldur því að þau loka öndunarvegunum ef þau lenda í vatni, en það bjargar þeim ekki ef þeim er ekki bjargað upp úr sem fyrst, því þau hætta auðvitað að anda.

Ofkæling
Ef barnið er kallt og blautt er mikilvægt að koma því úr blautu fötunum sem fyrst og sveipa það teppi eða einhverju öðru sem verndar það frá kulda. Gott er að einhver annar sé vafinn inn í teppið með barninu því besti hitinn er frá annarri manneskju. ALDLREI nudda húð barns sem er of kallt eða reyna að hita það snöggt upp með rafmagnstepi eða hitapoka. Þetta platar líkamann bara, dregur blóðflæði fram í húðina og hitatapið verður einfaldlega meira, þar sem mestur hitin tapast um húð og höfuð. Vegna hins mikla hitataps um höfuð er gott að setja á barn húfu eða annað sem hlífir höfðinu. Það er í lagi að setja stálpuð börn í VOLGT bað, ekki heitt. Einnig er í lagi að gefa barninu vel volga drykki að drekka, helst sæta, en ALLS EKKI heita drykki. Langbest er að leyfa líkamanum að hita sig upp sjálfur smátt og smátt með aðstoð hlýjunnar frá annarri manneskju. Einnig getur verið gott að vefja barnið í teppi þannig að hendur þess komist ekki í beina snertingu við búkinn, þ.e. fyrst vefja utn um búkinn og láta svo hendurnar að líkamanum (að teppinu) og vefja svo utan um allt saman.

Ungabörn hafa lélega hitastjórnun og því þarf að passa vel að þau ofkælist ekki eða ofhitni. Þetta kemur allt fram í öðrum pistli sem ég skrifaði um það efni.

Bruni
Ef kviknað hefur í fötum barns verður að slökkva eldinn sem fyrst, annað hvort með því að hella yfir hann vökva, eða kæfa eldinn með því að vefja barnið í teppi eða eitthvað annað. Ekki nota gerviefni þvi þau bráðna í hitanum og geta bráðnað inn í húðina. Þá er skárra að einfaldlega leggjast ofan á barnið og kæfa eldinn þannig. Ef um er að ræða rafmagnseld ætti algjörlega að forðast að nota vatn ef barnið er enn nálægt tækinu eða leiðslunum sem ollu brunanum.

Komið barninu sem fyrst í burtu frá því sem olli brunanum (eldur, vatn, heitt yfirborð, heitur vökvi, ætandi efni). Kælið brunasvæðið sem fyrst og gott er að halda brunasvæðinu undir rennandi köldu vatni, helst í 10-20 mín, eða eins lengi og barnið þolir. Ef um er að ræða stórt svæði líkamans sem hefur brunnið á að setja barni í svalt bað eða leggja yfir það kalt lak eða handklæði. Passið bara að ekki sé haft of kalt vatn of lengi ef um er að ræða stórt brunasvæði, þar sem það getur valdið ofkælingu, sérstaklega hjá litlum börnum. Klippið burt föt barnsins, sérstakleg ef það er löðrandi í fitu eða öðru heitu eða ætandi efni. Bindið um brunasárið með hreinum grisjum eða bindi, jafnvel rífa hreint lak niður í ræmur ef ekki annað er til. Ef ekki eru til heppileg bindi má setja hreinan plastpoka yfir brunasvæðið og verja það þannig. Bruni á stóru svæði getur auðveldlega valdið losti þar sem vökvatapið getur verið gífurlegt. Einnig er mikil sýkingarhætta í brunasárum.

Það á aldrei að setja plástur á brunasár eða setja neitt á það sem getur loðað við, t.d. bómull. Aldrei á að bera fitu, smyrsl eða áburð í brunasár og ef um blöðrur er að ræða á algjörlega að láta þær í friði. Blöðrur vernda sárið og draga úr sýkingarhættu.

Ef um efnabruna er að ræða er mikilvægt að skola efnið vel í burtu og passa að skolvatnið renni ekki á annað svæði á barninu eða á ykkur sjálf.

Eitrun
Ef barnið hefur látið eitthvað eitrað ofan í sig skuluð þið fyrst og fremst reyna að komast að þvi hvað það er og lesa innihaldslýsingun ef slík er til staðar. Hringið síðan í eitrunarmiðstöðina, síminn þar er 52501111. Fyrstu viðbrögð eru oftast að gefa barninu mjólk eða vatn að drekka til að þynna út eiturefnin, þetta á þó ekki við ef um inntöku lyfja er að ræða þar sem vökvi getur aukið verkun þeirra. Ef um er að ræða ætandi efni eins og vítissóda eða uppþvottavélarduft má ALDREI framkalla uppköst. Þessi efni brenna kokið og vélindað að innan á leiðinni niður og ef barnið kastar slíkum efnum upp brenna þau bara meira á leiðinni upp og valda miklu meiri skaða. Mikilvægara er þá að gefa barninu að drekka mjólk eða vatn til að þynna efnin út og koma því sem fyrst á sjúkrahús. Ef þið eruð viss um að efnið sé ekki ætandi má reyna að framkalla uppköst með því að stinga tveimur fingrum ofan í kok barnsins eða gefa því uppsölulyf. Reynið samt aldrei að framkalla uppköst nema í samráði við eitrunarmiðstöðina eða annað fagfólk.

Ef barnið finnur fyrir slæmum verk í vélinda eða maga, eða á erfitt með að anda er hætta á að efnið hafi brennt gat í vélinda eða maga og þá getur verið hættulegt að drekka eða borða þar sem fæðan eða vökvinn getur farið út í gegnum gatið.

Ef um er að ræða eitrun vegna lyfja skal ekki gefa neitt að drekka eins og kom fram hér að ofan. Það getur aukið verkun lyjanna og flýtt magatæmingu efnanna ofan í þarma, en mesta frásog efna fer fram í þörmunum, ekki maganum.

Eftir fystu viðbrögð skal leggja barnið á vinstri hliðina, en þannig snýr magaopið upp og legan seinkar því aðeins magatæmingu og hindar því um stund frekari upptöku eiturefnanna inn í blóðrásina.

Ef eiturefni berst í augu skal skola með hreinu vatni í u.þ.b. 15 mínútur og passa að augað sé opið á meðan skolað er. Best er að hella vatni yfir augað úr einhverju íláti t.d. glasi, þannig að vatnið renni frá augnkrók þvert yfir augað. Ef eiturefni berast á húð skal einnig skola með miklu vatni og jafnvel sápu, og passa að fjarlægja öll föt, því þau geta verið löðrandi í efninu. Ef um er að ræða innöndun eitraða efna er númer eitt tvö og þrjú að koma barninu í hreint loft þar sem nóg er af súrefni og losa um föt sem þrengja að.
Kveðja,