Litlu mjúku börnin Ég var að lesa inni á femin.is á börn og unglingar og þar kemur fram að sumir virðast enn telja að það sé hættulegt fyrir lítil börn að standa of snemma í fæturna. Er þetta virkilega eitthvað sem fólk almennt heldur ennþá?

Í gamla daga þegar fæði var einhæft og lélegt þá var D-vítamínskortur og kalkskortur nokkuð algengur. Svona næringarskortur veldur beinkröm þar sem bæði D-vítamín og kalk er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina. Þetta olli því að bein barnanna urðu lélegri og mýkri og þoldu illa álag. Beinin svignuðu því smátt og smátt undan þunga barnanna þegar þau stóðu og þau urðu stundum illa aflöguð og hjólbeinótt (sjá myndina). Það var því lengi viðloðandi að fólk stæði í þeirri trú að þegar börn stæðu “of snemma” í fæturna yrðu þau hjólbeinótt. Í dag þegar fæði er gott, nóg er af kalkríkri fæðu, mæður fá góða fæðu og brjóstamjólkin því næringarmikil ásamt því að flest börn fá AD dropa eða lýsi frá unga aldri, er þetta ekki vandamál og það er ekkert hættulegt fyrir börn þótt þau standi í lappirnar ung. Lítil börn reyna líka ekkert meira á sig en þau geta og þegar þau verða þreytt láta þau sig bara gossa niður :) Svo er reyndar ekkert óeðlilegt að börn séu pínulítið hjólbeinótt þegar þau eru lítil, það lagast svo bara og réttist úr þeim þegar þau fara að ganga.

Aftur á móti er það álag fyrir litla bakið þeirra ef þau eru látin sitja lengi í ömmustólum eða bílstólum því þau geta ekkert breytt um stellingu þegar þeim fer að líða illa. Það er alveg undir okkur fullorðna fólkinu komið að passa upp á það. Langar bílferðir þar sem barnið situr í bílstól eru ekki góðar fyrir lítil börn. Þá er betra að stoppa oft á leiðinni og hvíla aðeins bakið.

Svo er annað sem fólk verður líka að passa sig á. Ef ungabarn er alltaf látið sofa í sömu stellingu, t.d. alltaf á vinstri hliðinni eða alltaf á bakinu fara höfuðbeinin að aflagast og fletjast út. En oftast lagst það nú samt líka þega þau fara að hreyfa sig sjálf. En ef barn er með svona aflagaða höfuðkúpu tengir maður það oft meiri vanrækslu, þar sem það bendir til að barnið sé látið liggja mikið og lítið hugsað út í hvað er því fyrir bestu.

Börn eru reyndar með miklu mýkri bein en fullorðnir þar sem þau innihalda meira brjósk. Þessvegna beinbrotna börn mun sjaldnar en fullorðnir því beinin svigna frekar og gefa eftir í stað þess að hrökkva í sundur. Það þarf töluvert álag til að bein barna brotni.

Svo munið að skipta um stellingu hjá börnunum ykkar, láta þau ekki sitja of lengi þegar þau eru pínulítil og passa upp á að fæðan sé næringargóð :)
Kveðja,