Gullna reglan í allri endurlífgun er ABC-ið sem á ensku stendur fyrir Airway (öndunarvegur), Breathing (öndun) og Circulation (blóðrás). Þessa röð á ætíð að nota þegar verið er að beita skyndihjálp. Ef þú ert ein/n er skynsamlegt að byrja á að kalla á hjálp áður en, eða á meðan, hafist er handa við skyndihjálpina svo að þú fáir aðstoð sem fyrst. Flestir þekkja neyðarnúmerið 112.

Ef einhverskonar slys ber að höndum er númer eitt að athuga hvort barnið andi og ef það gerir það ekki verður fyrst og fremst að tryggja að öndunarvegurinn sé opinn. Ef barn er meðvitundarlaust og liggur á bakinu getur tungan runnið aftur og lokað öndunarveginum. Ef höfuðið hallast of mikið fram getur það einnig þrengt að barkanum og lokað fyrir. Aðskotahlutir geta líka auðveldlega teppt öndunarveginn, t.d. einhverjir hlutir, matarbitar, eða jafnvel æla eða vökvi sem safnast fyrir i hálsinum og rennur ekki burt. Til að opna öndunarveginn er yfirleitt mælt með að halla höfði barnsins aftur. Best er að leggja barnið á fast undirlag, leggja aðra hendina á enni þess og hafa hina undir hnakkanum. Síðan er ýtt varlega ofan á enni barnsins þar til maður sér beint niður í nasir þess. Þá er kjálka barnins lyft upp með því að setja tvo fingur á höku þess og lyfta þannig að hakan ýtist fram og munnurinn opnist. Þannig lokar tungan ekki lengur fyrir öndunarveginn. Það sem þarf að passa sérstaklega með ungabörn er að háls þeirra er mjög stuttur og barkinn mjúkur þannig að hann leggst auðveldlega saman. Ef höfði ungabarns er hallað of mikið aftur getur það nefninlega líka lokað öndunarveginum og því verður að passa að halla því bara lítillega. Annars er ferlið alveg eins. Stundum er þetta nóg til að barn fari að anda af sjálfsdáðum. Passið bara að ýta ekki fingrunum á mjúka hluta hálsins og undir hökunni heldur styðja við beinið.

Næst er að tryggja öndunina sjálfa. Til að athuga hvort barn andar er best að leggja eyrað við munn þess og nef og horfa jafnframt yfir brjóstkassa þess til að sjá hvort hann lyftist og sígur. Ef brjóstkassinn hreyfist og þú heyrir andardráttinn er nokkuð ljóst að barnið andar. Ef ekki þá verður að athuga hvort einhver aðskotahlutur stíflar öndunarveginn. Ef þú sérð eitthvað í munni barnsins skaltu krækja því út með fingrinum ef þú getur. Höfuð barnsins á að snúa út á hlið á meðan til að minnka líkurnar á að hann fari aftar í kokið. Passið bara að ýta engu neðar í öndunarveginn. Ég kem frekar að því hvernig losa á um aðskotahluti í næsta pistli.

Ef barnið andar ekki verður að beita munn við munn aðferðinni og það sem allra fyrst. Maður á strax að byrja að blása í barn sem andar ekki, sama í hvaða aðstæðum það er. Ef t.d. verið er að bjarga barni úr vatni á ekki að bíða með að blása í barnið þar til það er komið upp úr vatninu, heldur byrja strax og maður nær taki á því. Það er betra að að koma einhverju lofti ofan í lungun og halda síðan áfram að koma barninu úr vatninu til að barnið eigi möguleika á að fá eitthvað súrefni. Heilinn þolir ekki súrefnisskort mikið lengur en 5 mínútur án þess að verða fyrir skaða. Þessvegna er svo mikilvægt að byrja strax að koma lofti ofan í barn sem er hætt að anda. Best er samt auðvitað að leggja barnið niður á fast undirlag ef það er möguleiki. Haldið fyrir nasir barnsins og blásið inn um munninn. Ef um lítið barn er að ræða á munnur þinn á að þekja bæði munn og nasir barnsins. Höfuð barnsins á að vera í sömu stöðu og lýst var fyrir opnun öndunarvega. Andaðu djúpt að þér áður en þú leggur munn við munn og blástu vel ofan í barnið þannig að brjóstkassi þess lyftist. Horfðu á brjóstkassann eftir hvern innblástur; ef hann rís þegar þú blæst og sígur á eftir ertu að gera rétt og loft kemst ofan í lungu barnsins. Endurtaktu blásturinn þrisvar sinnum og athugaðu svo hjartsláttinn hjá barninu. Ef þú finnur púls skaltu halda áfram að blása í barnið ca 15-20 sinnum á mínútu þar til það fer að anda sjálft eða hjálp berst. Ef um ungabarn er að ræða verður maður að passa að anda ekki of fast og loftmagnið verður að vera minna þar sem lungu barnins eru lítil og viðkvæm. Með eldri börn og fullorðna gerir lítið til þótt of mikið loft fari ofan í þau þar sem aukamagnið fer þá bara ofan í maga og í versta tilfelli kastar viðkomandi upp (sem er auðvitað ekkert sérstaklega gott þar sem æla er ekki góð ofan í lungu). Með ungabörn getur of mikið loft hins vegar sprengt lungun eða magann og því verður að fara varlega. Þá er betra að blása aðeins oftar en minna í einu. Ca 20 sinnum á mínútu er ágætt. Ef brjóstkassinn lyftist við innblástur er verið að gera rétt og barnið fær loft.

Ekki er lengur þörf á að staðfesta hvort um púls sé að ræða eða ekki áður en ákveðið er að beita hjartahnoði. Ef barnið er meðvitundarlaust, andar ekki og svarar ekki áreiti á að hefja hjartahnoð. Það hefur sýnt sig að tíminn sem annars fer í að leita að púlsi getur skipt sköpum og auk þess getur verið ansi erfitt að meta hvort um sé að ræða púls eða ekki. Þegar beita þarf hjartahnoði þarf fyrst að leggja barnið á hart undirlag ef það er ekki þegar á slíku undirlagi. Til að finna rétta staðinn á brjóstkassanum til að hnoða er ágætt viðmið að hnoða einfaldlega mitt á milli geirvartna þess. Settu afturhluta lófa annarar handar á þetta svæði og passaðu að bora ekki fingrunum inn í brjóstkassann, haltu þeim frá rifbeinunum. Herðar þínar eiga að vera beint yfir bringubeini barnsins. Með börn notar maður bara aðra hendina, báðar ef um er að ræða fullorðna. Ýttu niður ca 2-4 cm og slepptu síðan, þ.e. ekki sleppa snertingunni við barnið, einungis átakinu þannig að bringubeinið þrýstist niður og upp. Þetta skaltu endurtaka fimm sinnum á 2-3 sekúndum. Það er gott að telja “einn-og-tveir-og-þrír-og-fjórir-og-fimm-og” þannig að þú segir töluna þegar þú ýtir en segir “og” þegar þú sleppir. Eftir þessi fimm skipti skaltu blása aftur í barnið einu sinni og endurtaka svo hjartahnoðið. Gerðu þetta til skiptis í eina mínútu. Eftir það skaltu athuga aftur hvort kominn sé púls og ef svo er ekki haltu þá áfram að blása og hnoða til skiptis. Athugaðu alltaf púlsinn reglulega, ca á 2-3 mínútna fresti. Það er mikilvægt að hætta hjartahnoði um leið og púls finnst því ef manneskja með hjartslátt er hnoðuð getur það stoppað hjartsláttinn. Með ungabörn þarf eins og áður að gæta sérstakrar varúðar. Aðeins skal nota tvo fingur og ekki má ýta eins fast. Fara á ca 1,5-2,5 cm niður. Með ungabörn er líka oft gott að hafa aðra hendina undir baki þess og grípa efst um handlegg þess til að halda því stöðugu. Ef barnið andar ekki enn þó að púls finnist skaltu halda áfram munn við munn aðferðinni.

Ef barn er meðvitundarlaust en er með hjartslátt og andar, er best að leggja það í læsta hliðarlegu. Það er eiginlega ómögulegt að útskýra hvernig setja á manneskju í slíka legu nema að hafa myndir, en allavegana liggur barnið þá hálfvegis á maganum og snýr höfði til hliðar. Þetta kemur í veg fyrir að tungan renni aftur eða að vökvi safnist í öndunarveginum. Myndin hér með pistlinum sýnir að vísu ekki læsta hliðarlegu, aðeins hliðarlegu, en ef neðri handleggurinn væri fyrir aftan bak manneskjunnar og vísaði niður væri um að ræða læsta hliðarlegu. Með því að hafa annan fótinn krepptan og annan handlegginn fyrir aftan bak getur barnið ekki auðveldlega velt sér yfir á bakið og öndunarvegurinn er því öruggari.

Næst skal ég skrifa pistil um hvernig bregðast á við blæðingum, aðskotahlutum í hálsi, bruna, eitrunum og e.t.v. einhverju fleira.
Kveðja,