Tanntaka barna og umhirða tanna Góð tannhirða er mikilvæg strax frá unga aldri og ætti í raun að hefjast um leið og barnið fæðist. Að vísu fæðast fæst börn með tennur, en tennur barna byrja að myndast strax á 10 viku meðgöngu og við fæðingu eru allar tennurnar, bæði barna- og fullorðinstennur, tilbúnar undir gómnum. Fyrstu tennurnar, oftast miðframtennurnar í neðri góm, koma venjulega í ljós í kringum 6-7 mánaða aldurinn, þótt þær geti alveg birst fyrr eða seinna. Stuttu síðar koma svo miðframtennurnar í efri góm, síðan hliðarframtennurnar í efri góm og þar á eftir hliðarframtennur í neðri góm. Þessi röð er þó ekki endilega eins hjá öllum börnum og það er ekkert óeðlilegt þó að tennurnar komi í annarri röð. Einnig þarf ekki að hafa áhyggjur þó að fyrsta tönnin láti ekki sjá sig fyrr en um eins árs aldur, því það er mjög misjafnt hversu snemma börn byrja að taka tennur. Þó er æskilegt að láta kíkja á barnið ef fyrsta tönnin er ekki enn komin þegar það er 15-16 mánaða gamalt. Flest börn eru búin að fá allar 20 barnatennurnar þegar þau eru um 2 ½ árs. Í hvorum góm eru þá 4 framtennur, 2 augntennur og 4 jaxlar. Í kringum 6 ára aldurinn fara svo börnin að missa barnatennurnar og fá fullorðinstennur og um 12 ára aldurinn eru flest börn búin að fella allar barnatennurnar og fá allar fullorðinstennurnar, sem eru 28 talsins. Endajaxlarnir fjórir eru ekki taldir með, þeir koma seinna og hjá sumum koma þeir aldrei.

Tennur geta skemmst áður en, eða um leið og þær koma upp, sérstaklega ef neysla á sykruðum afurðum og súrum drykkjum er mikil. Mataræði skiptir því heilmiklu máli fyrir sterkar tennur. Kalk er mikilvægt fyrir vöxt tanna, en mjólk og mjólkurafurðir eru t.d. mjög kalkríkar. Súrir og sætir drykkir eru algjört eitur fyrir tennurnar, s.s. ávaxtasafar og gosdrykkir. Sýran leysir upp glerunginn og sykurinn situr á tönnunum og verður tilvalin gróðrastía fyrir bakteríur. Bakteríur mynda síðan eiturefni, sýru, sem skemmir tennurnar. Vatn og mjólk er því langæskilegustu drykkirnir, en auðvitað er í lagi að gefa ávaxtadrykki af og til ef þeim er haldið í hófi og tennurnar hreinsaðar vel á eftir. Ekki heldur gleyma að ef barnið er að fá einhver lyf er mjög oft sætuefni í þeim og því mikilvægt að hreinsa tennur eftir lyfjatöku. Brjóstamjólk og þurrmjólk er líka sæt og ef hún situr lengi á tönnunum eykur það verulega hættu á tannskemmdum. Næturgjafir, hvort sem um er að ræða úr brjósti eða pela eru því í raun ekki mjög skynsamlegar eftir að barnið er komið með tennur. Þá liggur mjólkin á tönnunum alla nóttina og gefur bakteríum góðan tíma til að mynda sýru. Einnig er munnvatnsframleiðsla í lágmarki á nóttunni og því þarf aðeins lítið sykurmagn til að bakteríur geti myndað sýru. Oft er talið að því seinna sem börnin fá tennur því sterkari verða þær. Að sjálfsögðu skemmast þær síður á meðan þær eru ekki komnar upp og einnig er algengara að börn séu hætt næturgjöfum við 6-7 mánaða aldurinn en um t.d. 3ja mánaða aldurinn, þannig að það segir sig sjálft að tennur eru í meiri hættu því fyrr sem þær koma upp. Samt sem áður er staðreynd að ef börn t.d. fæðast með tennur eru þær oft mjög lélegar og glerungurinn ekki sterkur.

Strax eftir fæðingu ætti maður að venja sig á að hreinsa og nudda góm bansins með hreinum rökum klút og um leið og fyrsta tönnin kemur í ljós er mikilvægt að byrja að bursta með flúortannkremi. Ekki á að nota tannkrem ætlað fullorðnum því það er of sterkt og einnig á maður aldrei að nota meira tannkrem en sem svarar stærð naglar á litla fingri barnsins. Lítið börn kunna ekki að spýta út úr sér og kyngja því tannkreminu og það er ekki gott að innbyrða of mikið flúor því það getur valdið eitrun. Börn yngri en 6-7 ára ættu ekki að bursta tennur sjálf, þau hafa einfaldlega ekki vald á því og einnig eru þau gjörn á að skammta sér of mikið tannkrem. Sumir telja jafnvel æskilegast að foreldrarnir bursti tennurnar fyrir börnin þar til þau eru ca 10 ára gömul til að það sé gert vel. Bursta þarf alla fleti tannanna, bæði framan, aftan, hliðar og ofaná og þegar tennurnar verða fleiri er gott að nota tannþráð til að komast á milli. Einnig er mikilvægt að bursta líka góminn þar sem matarleifar geta setið þar og laðaðað sér bakteríur. Nota á mjúkan barnatannbursta sem hentar aldri barnsins og ekki á að nudda mjög fast. Passa verður svo að skipta reglulega um tannbursta því þegar hárin eru orðin bogin og úfin gerir hann ekki gagn. Svolítið misjafnt er hvenær mælt er með að farið sé með barnið í fyrsta skipti til tannlæknis, en í raun er ekkert sem mælir á móti því að farið sé um leið og barnið er komið með einhverjar tennur. Flestir mæla með í kringum tveggja ára aldurinn eða fyrr.

Lengi hefur hiti, niðurgangur, eyrnabólga og aðrir kvillar verið tengdir við tanntöku. Foreldrar verða þó að passa sig á að skella ekki skuldinni af veikindum á tanntökna því það er ekkert sem sýnt hefur fram á nein tengsl þarna á milli. Ef barnið er með hita og eyrnabólgu er það einfaldlega lasið og hefur ekkert með tanntökuna að gera þó að það hittist á á sama tíma. Málið er að á þeim tíma sem barnið fer að taka tennur fara ýmsar umgangspestir að verða algengari og barnið verður oftar lasið. Foreldrar ættu alltaf að vera vakandi fyrir einkennum eins og háum hita, uppköstum, niðurgangi og öðrum merkjum um að barnið sé að veikjast. Hiti, uppköst og niðurgangur geta auðveldlega leitt til ofþornunar ef ekkert er að gert. Einnig kemur það eflaust mörgum foreldrum á óvart að flest börn verða yfirleitt ekki pirruð vegna tanntökunnar og finna lítið fyrir henni. Pirringur á sér oftast aðrar orsakir, eins og einhverjum lasleika. Það eru helst tveggja ára jaxlarnir, síðustu barnatennurnar, sem valda einhverjum óþægindum. Börn klæjar þó eflaust oft í góminn þegar þau eru að fá tennur og finnst því gott að naga eitthvað, sérstaklega ef það er kallt. Það er þó mjög mikilvægt að setja aldrei naghringi í frysti því það hefur valdið kali í góm barna og er alls ekki sniðugt. Það er nóg að skella hringnum í ísskáp. Svo er líka hægt að kaupa sérstakt gel í Apóteki án lyfseðils sem slær á kláða.

Mikil snuddu- og pelanotkun og einnig sog á fingri eða einhverju öðru getur skekkt tennur, en oftast lagast það af sjálfu sér þegar barnið hættir að nota þessa hluti. Stundum getur þó þessi notkun leitt til að gómurinn sjálfur skekkist og þá er um að ræða alvarlegri skekkju sem þarf oft að laga. Æskilegt er því að halda snuddu- og pelanotkun í lágmarki og venja barnið af henni fyrir fjögurra ára aldur. Fingursog er yfirleitt talið leiða frekar til skekkju en snuddu- og pelanotkun.

Athugið samt að allt of mikil tannburstun getur líka verið skaðleg. Ef verið er að bursta tennur í miklu óhófi eyðir það einnig glerungnum og þá skemmast þær auðveldar. Tannburstun a.m.k. kvölds og morgna er nauðsynleg og einnig ætti að bursta tennurnar þar á milli ef um mikla sykur- eða sýruneyslu er að ræða.
Kveðja,