Getnaður og fósturþroski Jæja, þar sem ég var nú að komast að þeirri skemmtilegu staðreynd að ég á von á þriðja barninu þá langar mig að skrifa smá pistil um fósturþroska. Læt í þetta skiptið duga að fjalla um getnað og þroska út sjöttu viku.

Meðgöngulengd er yfirleytt reiknuð frá fyrsta degi síðustu blæðinga, sem þýðir að hjá konu með þennan fullkomna 28 daga tíðahring verður eggloss á 14. degi og eggið frjóvgast þá. Þetta þýðir að þegar frjóvgun verður er konan í raun komin tvær vikur á leið. Auðvitað er þetta ekki svona nákvæmt hjá öllum konum, en það er samt staðreynd að þó að tíminn frá byrjun blæðinga að egglosi geti verið mjög óreglulegur, þá líða hjá flestum konum um 14 dagar frá egglosi og þar til næstu blæðingar hefjast, þ.e. ef eggið frjóvgast ekki.

Í byrjun hvers tíðahrings byrja nokkur eggbú að þroskast í eggjastokkunum undir áhrifum hormóns sem kallast FSH og er framleitt í heiladingli. Undir venjulegum kringumstæðum nær aðeins eitt eggbúanna fullum þroska en hin hrörna. Eftir því sem eggbúið þroskast fer það að mynda annað hormón, estrogen, sem örvar myndun á öðru heiladingulshormóni sem nefnist LH og er nauðsynlegt til að eggbúið þroskist að fullu. Einnig örvar estrogen uppbyggingu legslímunnar. Fullþroska eggbú er í kringum 1,5 cm í þvermál og í kringum 14. dag tíðahringsins springur eggbúið og eggið losnar úr því, þ.e. egglos verður. Sumar konur finna smá verk þegar þetta gerist og einnig hækkar oft líkamshiti aðeins í kringum þennan atburð. Restin af eggbúinu breytist og verður að s.k. gulbúi sem byrjar að framleiða annað hormón, progesteron, sem veldur enn frekari breytingum á legslímhúðinni til að undirbúa það fyrir að taka á móti frjóvguðu eggi. Ef eggið frjóvgast ekki hrörnar gulbúið eftir ca 9 daga, framleiðsla hormóna minnkar í kjölfarið og legslímhúðin helst því ekki við og blæðingar hefjast nokkrum dögum síðar.

Þegar eggið losnar úr eggbúinu eru fálmarar eggjaleiðarans tilbúnir til að grípa það og sópa því inn í eggjaleiðarann. Frjóvgun þarf helst að eiga sér stað í fyrsta hluta eggjaleiðarans. Þegar sáðfruma hittir á eggið losar hún sérstök efni sem gera henni kleift að komast í gegnum himnu eggsins. Strax eftir frjóvgun byrjar frjóvgaða eggið, sem nú kallast okfruma, að skipta sér. Það tekur okfrumuna um 4 daga að fara eftir eggjaleiðaranum niður í legið og á þessum tíma skipta frumurnar sér enn frekar, þannig að þegar í legið er komið er kominn vísir að fóstri og vísir að fósturhimnum og fylgju. Þær frumur sem seinna verða að fylgjunni byrja fljótlega að framleiða hormón sem nefnist hCG (human Chorionic Gonadotropin), sem verður til þess að gulbúið hrörnar ekki og heldur áfram að framleiða progesteron, sem er eins og áður kemur fram nauðsynlegt til að viðhalda legslímunni. Eftir ca 4 mánuði er fylgjan orðin nógu stór til að taka við þessu hlutverki gulbúsins og það hrörnar. Ef gulbú skemmist eða er fjarlægt fyrir 4 mánaða meðgöngu verður afleiðingin fósturlát, þar sem fylgjan er þá ekki enn nógu þroskuð til að framleiða nægjanlegt magn af progesteroni.

Á sjötta degi eftir frjóvgun byrjar fósturvísirinn að grafa sig inn í legslímuna og á ca 11. til 12. degi er hann algjörlega búinn að koma sér þar fyrir. Smá blæðing getur orðið u.þ.b. 13-14 dögum eftir að eggið frjóvgast og er það vegna þess að blóðflæði í kringum fylgjuvísinn eykst mikið á þessum tíma og stundum ruglast konur á þessari blæðingu og venjulegum tíðablæðingum. Fósturvísirinn byrjar nú að fá súrefni og næringu í gegnum fylgjuna. Hormónið sem fylgjuvísirinn framleiðir, þ.e. hCG, er það sem allar þungungarprufur mæla, en um það leyti sem fyrstu blæðingar hefðu átt að verða er magn hCG orðið nægjanlega mikið til að greinast í þvagi. Blóðprufa getur greint hormónið aðeins fyrr. Þegar flestar konur missa út blæðingu og fara og taka þungunarpróf er fósturvísirinn því aðeins 14 daga gamalt þó að meðgöngulengd sé reiknuð sem fjórar vikur miðað við fyrsta dag síðustu blæðinga. Á þessum tíma er fósturvísirinn aðeins u.þ.b. 1 mm á lengd.

Í þriðju viku fósturþroska, eða fimmtu viku meðgöngu, myndast þrjú frumulög í fósturvísinum sem síðan mynda hvert um sig ákveðna vefi og líffæri og einnig myndast vísir að hryggjarsúlu og mænugöngum. Í lok þessarar viku og byrjun þeirrar næstu lokast mænugöngin, en þau eru opin til að byrja með, blóðæðar fara að myndast og einnig byrjar hjartað að myndast og fer að að slá á sjöttu viku meðgöngunnar, eða fjórðu viku fósturþroska . Í fyrstu er aðeins eitt hólf í hjartanu síðan fer skilrúm að myndast þannig að það skiptist í tvö hólf. Í þessari sömu viku, þ.e. sjöttu viku meðgöngu en fjórðu viku fósturþroska, byrja flest líffæri að myndast, vísir að höndum og fótum kemur í ljós, fóstrið fer að taka á sig sitt einkennandi frambeygða útlit, naflastrengurinn myndast og augu og munnur fara að sjást. Þegar fóstrið er 28 daga gamalt, þ.e. í lok 6. viku meðgöngu eða 4. viku fósturþroska (sjá mynd), er það u.þ.b. 4-6 mm á lengd og með góðum vilja má sjá að það minnir pínulítið á litla manneskju.
Kveðja,