Afbrýðisemi systkina Að eignast nýtt systkini getur verið ofboðslega streitumikill og erfiður atburður fyrir lítið barn. Börn yngri en tveggja ára eru yfirleytt ekki enn komin með þann þroska sem þarf til að geta deilt einhverju með sér og því geta foreldrarnir ekki búist við að það gleðjist strax yfir nýja barninu. Það sér í því óboðinn keppinaut um ást og athygli foreldranna sem það áður hefur haft eitt. Þó að börn séu eldri geta þau alveg fundið þessa tilfinningu líka og fara kannski að efast um að foreldrum þeirra þyki vænt um þau. Þau geta auðveldlega haldið að mamma og pabbi séu að fá sér nýtt barn af því að þau vilji ekki lengur eldra barnið og ætli bara að skipta. Þau verða því óörugg og bregðast oft við með hegðun sem kallar á athygli, oft á neikvæðan hátt því það er fljótleg leið til að fá athygli, og einnig geta þau beint reiði sinni að keppinautnum, nýja systkininu. Það er líka mjög algengt að eldri systkini verði “lítil” aftur; vilji fá snuð, sofa í vöggunni, tala smábarnamál og fleira í þeim dúr. Þau sjá að ungabarnið fær mikla athygli og vilja því prófa að vera eitt líka. Árásargirni og svefntruflanir eru líka algeng viðbrögð.

Afbrýðisemi er oft erfiðust í byrjun þegar litla barnið er nýfætt, en stundum kemur hún ekki fram fyrr en yngra barnið er farið að skríða eða ganga og fer að geta fært sig inn á yfirráðasvæði eldra systkinisins, t.d. inn í herbergi þess og verið þar að rífa og tæta. Oft beinist afbrýðisemin að litla barninu en þarf ekki að gera það. Sum börn eru ósköp góð við systkini sín en þess í stað helmingi erfiðari við mömmu og pabba. Afbrýðisemi getur líka varað langt fram á fullorðinsár og blossað upp þegar allir héldu að hún væri löngu yfirstaðin. Það er því mikilvægt að reyna að taka rétt á málunum svo að ekki skapist langtíma kergja og ósamkomulag á milli systkinanna. Auðvitað eru það ekki öll börn sem sýna mikil merki um afbrýðisemi en langflest verða þó einhverntíman afbrýðisöm út í yngra systkini sitt á einhvern hátt. Yngra systkinið getur líka verið afbrýðisamt út í eldra systkinið þó að hitt sé algengara og oft lítur yngra systkini skilyrðislaust upp til þess eldra. Þó að það sé algengt að það sé afbrýðisemi á milli systkina þykir þeim samt yfirleytt ofurvænt um hvort annað og standa með hvoru öðru út á við og styðja í erfiðleikum.

Hér á eftir fylgja nokkrir punktar sem getur verið ágætt að hafa í huga til að draga úr afbrýðisemi.


Best er að byrja að undirbúa eldra barnið fyrir komu nýs systkinis með löngum fyrirvara. Leyfið því að fylgjast með bumbunni stækka, finna hreyfingarnar og útskýrið svolítið hvernig barnið stækkar með bumbunni. Eldra systkinið getur líka talað við litla barnið inni í maganum eða sungið. Það getur einnig fengið að koma með í mæðraskoðanir og tekið þátt í undirbúningnum undir komu nýja barnsins. Þetta eykur samkennd eldra barnsins.

Ef gera þarf einhverjar breytingar á högum eldra barnsins vegna komu þess yngra er best að gera það áður en litla barnið fæðist til að því eldra finnist síður því vera ýtt til hliðar. Þetta á t.d. við um ef eldra barnið á að fá nýtt herbergi eða ef það er að byrja í leikskóla. Þá túlkar barnið síður breytingarnar sem að foreldrarnir séu að reyna að losna við það.

Þegar eldra barnið kemur að heimsækja mömmu og litla barnið á fæðingardeildina er ágæt hugmynd að sýna því vöggustofuna og benda því á að einu sinni lá það sjálft í svona vöggu á svona stað. Þá áttar barnið sig betur á að það sjálft var einu sinni í nákvæmlega sömu stöðu og nýja barnið. Ef mamman þarf að liggja einhvern tíma á fæðingardeildinni ætti að leyfa eldra barninu að koma eins oft í heimsókn og kostur er.

Ef barnið dettur aftur á fyrra þroskaskeið þegar bætist nýtt systkini í hópinn, t.d. vilja aftur snuddu, pissa í kopp, tala barnalega o.s.fr. þá borgar sig ekkert a að gera of mikið úr þessu, oftast nenna þau þessu ekki til lengdar. Þau uppgötva yfirleytt að það er nú betra að vera stór. Skammir og reiði gefur þeim bara staðfestingu á því sem þau halda: að mömmu og pabba þyki ekki lengur vænt um þau. Hvað gerir það til þótt barnið fái að hafa snuddu í smá tíma?

Þegar annað foreldranna er upptekið með yngra barnið þá getur hitt reynt að sinna eldra systkininu meira á meðan.

Finnið ykkur tíma sem þið getið eytt ein með eldra barninu án þess að yngra barnið sé með, bæði þið foreldrarnir saman og einnig í sitt hvoru lagi, þar sem það eldra getur notið allrar athyglinnar (auðvitað eigið þið ekki að sleppa að eyða tíma saman öll sem ein fjölskylda).

Leyfið eldra systkininu að hjálpa til eins og það getur og vill með að hugsa um litla barnið. T.d. setja á það húfuna, ná í skóna fyrir það, þvo því í framan, syngja fyrir það vögguvísu o.s.fr. En alls ekki pína eldra systkinið ef það vill ekki taka þátt í þessu.

Hrósið eldra systkininu þegar það gerir vel, segið því hvað það er duglegt og dragið fram kosti þess að vera stærri og eldri (ekki samt setja það upp sem að því finnist að það eigi að gera allt af því að það sé stærri og að litla barnið fái allt látið eftir sér af því að það er minna). T.d. talið um hvað það sé nú gott að vera stór og kunna að tala og labba og svona og þetta sem það getur gert en litla barnið ekki af því að það er minna. Ekki gleyma að segja eldra barninu hversu mikið litli bróðir/litla systir líti upp til þess og langi til að geta allt sem það, stóribróðirinn/stórasystirin, getur.

Passið ykkur að þvinga ekki eldra barnið til að deila öllu dótinu sínu með því litla. Þetta er eign þess eldra og það þarf að fá að ráða yfir einhverju án þess að litli systkinið fái að rífa það af því. Auðvitað þarf barnið að læra að deila með sér, en ekki alltaf. T.d. hafa eitthvað dót sem litla barnð má alls ekki taka því það sé algjör einkaeign eldra barnsins.

Leyfið eldra systkininu að tjá sig um litla systkini sitt, bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Þið getið t.d. spurt: finnst þér litla barnið svolítið frekt/leiðinlegt/óþekkt stundum? Kennið að það sé allt í lagi að hafa tilfinningar og tala um hlutina en að það megi aldrei meiða. Mörg börn lemja og klípa systikini sín í afbrýðisemiskasti, takið alltaf fyrir svoleiðis hegðun, en ekki banna barninu að hafa tilfinningar. Það er alveg eðlilegt að því finnist litla systkini sitt hundleiðinlegt stundum. Því þykir alveg örugglega vænt um það líka (hver hefur svo sem ekki fengið hundleið á barninu sínu tímabundið :). Athugið að eldri börn (ca 5-6 ára og eldri) geta fengið gífurlegt samviskubit yfir neikvæðum hugsunum sínum í garð yngra systkinis og það getur valdið mikilli sálrænni vanlíðan ef þessar hugsanir eru birgðar inni. Þessi börn vita að neikvæðar tilfinningar eru ekki æskilegar og því er þeim hættara á að loka slíkar tilfinningar inni.

Það getur verið gott að t.d. lesa fyrir eldra barnið á meðan það litla fær brjóst/pela. Þá fá þau bæði athygli í einu og skapast oft róleg stund. Svo getur verið gott að lesa fyrir þau bæði þó ekki sé verið að gefa brjóst/pela. Ungabörnum finnst líka gaman að láta lesa fyrir sig þó að þau skilji ekki endilega það sem verið er að segja, röddin skiptir svo miklu, og svo ýtir lestur undir málþroskann.

Það getur verið sniðugt að kaupa dúkku handa eldra barninu sem getur þá verið “litla barnið” þess og þið getið þá hugsað um börnin ykkar saman.

Segið eldra barninu að þið elskið það mest af öllu í heiminum, stóra systkinið þarf oft að fá staðfestingu á að mömmu og pabba þyki ennþá vænt um það og það vill yfirleytt ekki heyra eitthvað á borð við “mömmu og pabba þykir alveg jafnvænt um þig og litla barnið”, það vill bara fá það staðfest að þið elskið ÞAÐ. Það getur verið ágætt að segja t.d.: mamma/pabbi elskar þig svo mikið af því að… og telja upp alla kostina hjá eldra barninu.

Það getur verið sniðugt að rifja upp með eldra barninu hvernig það var þegar það var lítið, skoða gamlar myndir og svona, þá sér barnið að það var einu sinni eins og litlibróðir/litlasystir og fékk svipaða athygli og yngra barnið er að fá núna. Krakkar hafa oft alveg rosalega gaman af að heyra sögur af sér þegar þau voru lítil. Svo fá þau líka fína athygli frá mömmu og pabba þarna :)

Svo eru svona hlutir sem maður á að passa sig á eins og að aldrei bera börnin saman þegar þau heyra til (það er allt í lagi að tala um við stóra barnið hvernig það var á þessum aldri, en ekki vera að segja eitthvað sem það gæti túlkað sem að þið séuð ánægðari með litla barnið). Siðan er auðvitað sanngjarnt að stóra systkinið fái ýmis fríðindi sem fylgja því að vera stór, t.d. vaka lengur (það hentar samt kannski ekki á meðan litla barnið er svo lítið að það sefur á einhverjum fáránlegum tímum:), allavegana þá er ekki endilega sanngjarnt að skipta öllu hnífjafnt.

Biðjið ættingja að koma með einhverja pínulitla gjöf handa eldra barninu ef það er að koma með gjafir handa því yngra. Minnið einnig ættingjana á að veita eldra barninu athygli. Eldra barnið vill því miður stundum gleymast svolítið þegar allir eru að dásama nýja barnið. Það er örugglega ekki gaman að hlusta heilan dag á hvað litla barnið er æðislegt og krúttlegt og fallegt og fá svo ekki eitt enasta hrósyrði sjálfur.

Svo er auðvitað bara að sýna ást og umhyggju og hrósa eldra barninu sem mest þegar það gerir vel.
Kveðja,