Ungabörn halda ekki eins vel á sér hita og eldri börn og fullorðnir og er því hættara við bæði ofkælingu og ofhitnun. Hitastjórnunarkerfi þeirra er enn svo óþroskað að ef hitastig umhverfisins breytist mikið þá nær ungabarnið ekki að aðlagast því. Þetta veldur einnig því að hitastig ungabarna getur rokkað mikið eftir þvi hvernig hitastig herbergisins er og hvernig þau eru klædd. 38 stiga hiti þarf ekki að þýða að það sé lasið, 10 mín seinna gæti hitinn verið kominn í 36,5. En auðvitað er sjálfsagt að fylgjast vel með ef ungabarn fær hita.

Hæfileikinn til að skjálfa sér til hita er mjög ófullkominn í ungabörnum, en þetta viðbragð er einmitt það sem fer af stað þegar okkur er kallt. Einnig er yfirborð ungabarna mjög stórt miðað við þyngd og blóðæðar þeirra liggja nær yfirborðinu, sem veldur því að þau missa hraðar hita þar í gegn. Húð og fitulag þeirra er auk þess þynnra en hjá fullorðnum þannig að einangrunin verður minni.

Við þekkjum öll að þegar okkur er of heitt þá svitnum við. Þetta er aðferð líkamans til að kæla okkur niður, en þegar svitinn gufar upp af yfirborði húðarinnar tekur hann hita með sér. Þetta geta ungabörn ekki gert því svitakirtlar þeirra eru enn of óþroskaðir. Til viðbótar kemur svo að ungabörn geta ekki sjálf breytt um stellingu til að skýla sér fyrir kulda eða til að forðast of mikinn hita.

Hin dæmigerða stelling ungabarna í fósturstöðu þjónar m.a. þeim tilgangi að halda meiri hita á barninu. Einnig hafa ungabörn s.k. brúna fitu, en þegar þessari gerð fitu er brennt myndast hiti í stað orku eins og þegar venjulegri fitu er brennt. Hjá manneskjum finnst brún fita eingögnu hjá ungabörnum. Þessi fita endist í þó nokkrar vikur eftir fæðingu og er ein af aðferðum ungabarnsins til að halda á sér hita.

Það er því mikilvægt að foreldrar og aðrir sem hugsa um ungabörn passi vel upp á hitann hjá þeim. Það er ágætt að miða við hvernig maður sjálfur myndi klæðast og bæta svo einu fatalagi í viðbót við (t.d. þegar við erum í buxum og peysu þá setjum við barnið auk þess í sokkabuxur og bol). Það ætti að forðast að klæða börn í föt úr gerviefnum því þau halda ekki eins vel hita og bómull eða ull. Þess má geta að ullin virkar langbest sem einangrun ef hún er höfð næst húðinni.

Það er alveg jafn mikilvægt að passa upp á að ungabörnum verði ekki of heitt eins og of kallt. Ef mjög heitt er í herberginu getur barnið verið of mikið klætt. Einnig getur sængin verið mjög hlý og ef barnið er mikið dúðað undir sænginni getur það hitnað of mikið. Ekki heldur gleyma að barn getur ekki sjálft dregið ofan á sig sængina eða tekið hana af.

Til að meta hvort ungabarni sé mátulega heitt er gott viðmið er að þreifa aftan á hnakkagróf barnsins. Ungabörnum er oft kallt á höndum og fótum án þess að því sé í raun of kallt og því er ekki gott að miða við hitastigið á þessum líkamspörtum. Þetta stafar af því að blóðflæði til ystu útlimanna er enn ekki orðið nógu gott. Barn getur verið kallt á fingrum en funheitt og sveitt (eftir að svitakirtlarnir fara að starfa) í hnakkagrófinni og þá er því í raun frekar of heitt.

Svo er mjög mikilvægt að passa upp á að þurrka ungabörn fljótt eftir að þau eru tekin upp úr baði og setja þau í föt. Uppgufun vatns af húðinni tekur mikinn hita með sér og lítið barn með hlutfallslega mikið yfirborð og litla hæfileika til að mynda aukahita verður fljótt kallt. Einnig er gott að passa að hitastigið sé frekar hlýtt í herberginu þar sem baðað er og almennt að hafa mátulegt og þægilegt hitastig í íbúðinni.
Kveðja,