Kynlíf eftir barnsburð Margir foreldrar velta því fyrir sér hvenær óhætt er að byrja aftur að stunda kynlíf eftir barnsburð. Meginreglan er að það er í lagi um leið og konan treystir sér til. Þó er mikilvægt að nota smokk á meðan úthreinsunin er enn í gangi, en hún getur tekið allt að 6-7 vikur, og eins ef þurft hefur að sauma konuna að nota smokk þar til saumarnir eru grónir. Þetta er til að fyrirbyggja sýkingar, en opin sár (úthreinsunin sýnir að enn er opið sár eftir fylgjuna) eru greið leið fyrir bakteríur inn í blóðrásina. Kynlöngun eftir barnsburð er mjög misjöfn, bæði hjá konum og körlum. Sumir foreldrar eru til í tuskið strax, hjá öðrum lætur löngunin bíða eftir sér.

Karlar:
Þó maður heyri lítið talað um minnkaða kynlífslöngun hjá karlmönnum eftir að maki þeirra fæðir barn, er það þó alveg þekkt. Sumir sjá einfaldlega konuna sína í nýju ljósi, sem einhverja “heilaga móður” sem þeir mega ekki saurga með sínum kynlífslöngunum. Brjóst konunnar eru ekki lengur leikföngin þeirra heldur matarílát barnsins. Sumum finnst líka bara óþægilegt að stunda kynlíf þegar von er á að barnið vakni og trufli þau hvenær sem er. Í sumum tilfellum er einfaldlega um að ræða misskilda tillitssemi. Karlmaðurinn heldur þá að konan hafi ekki áhuga eða löngun til kynlífs og vill vera tillitssamur og láta hana í friði, þegar svo konuna kannski dauðlangar í smá kynlíf ;). Stundum er það líka bara venjuleg þreyta vegna andvökunótta og grátandi barns sem veldur því að þeir hafa ekki löngun í kynlíf og vilja bara fá að sofa og hvíla sig.

Konur:
Það er mjög algengt að konur upplifi minnkaða kynlífslöngun eftir fæðingu barns og flestum finnst þetta ástand mjög leiðinlegt og velta fyrir sér hvað sé eiginlega að þeim.

Fyrst og fremst er það náttúrulega líkamlegt álag að eignast barn og það tekur mislangan tíma fyrir konur að jafna sig. Sumar hefur þurft að sauma og eru mjög aumar að neðan. Aðrar hafa lent í keisara og eru aumar í skurðinum þar o.s.frv. Annað sem einnig spilar mikið inn í er hreint og beint þessi gamla klassíska þreyta og orkuleysi. Nú tekur við tímabil þar sem gefa þarf barninu með nokkurra klukkustunda millibili, jafnvel andvökunætur með gráti og gnístran góma, og þegar barnið loks sefur er það fyrsta sem konan hugsar um ekki kynlíf heldur einfaldlega hvíld og svefn.

Hormónar og líkamsstarfsemi skiptir hér einnig töluverðu máli. Þurrar slímhúðir eru algengar þegar kona er með barn á brjósti og veldur því að konan getur átt í erfiðleikum með að blotna við kynferðislega örvun. Þetta getur bæði haft áhrif á líkamlega og andlega upplifun við kynlíf. Kynlífið getur hreinlega verið sársaukafullt ef konan blotnar ekki nóg, og eins þá upplifir konan sig kannski sem misheppnaða, heldur e.t.v. að makanum finnist hún köld og fráhrindandi vegna þessa og nýtur þ.a.l. ekki kynlífsins. Hér getur einfalt sleipiefni, s.s. KY gel eða Astroglide, gert gæfumuninn. Munið bara að svona sleipiefni eiga að vera vatnsleysanleg. Annað, sem einnig er hormónatengt, er að þegar barn sýgur brjóst móður sinnar örvast framleiðsla oxytócins, sem er bæði hríðarörvandi og mjólkurlosandi hormón. Þetta er sama hormónið og á þátt í kynferðislegri örvun og fullnægingu. Því fær konan stundum ákveðinni kynferðislegri löngun fullnægt með brjóstagjöfinni. Það má ekki líta á þetta þannig að konan verði kynferðislega örvuð við brjóstagjöfina, því það er ekki málið. Einfaldlega að við losun þessa hormóns minnkar þörfin fyrir kynferðislegar athafnir og því verður kynlífslöngunin minni. Það er mjög algengt að konur fái kynlífslöngunina aftur fljótlega eftir að barnið hættir á brjósti.

Að eignast barn er líka mikil tilfinningaleg upplifun og konan gengur í gegnum allskonar tilfinningaflóð. Sumar hafa bætt smá á sig á meðgöngunni og finnst þær vera feitar og óaðlaðandi, og forðast því jafnvel kynlíf með makanum. Sumar ganga í gegnum tímabil þar sem þær eru mjög uppteknar af móðurhlutverkinu og finnst jafnvel eitthvað ósiðlegt við að maki þeirra sé að snerta brjóst þeirra (matarílát barnsins) eða stunda kynlíf, jafnvel með barnið í sama herbergi. Sumum finnst óþægilegt að hugsa til að barnið geti vaknað hvenær sem er og ná þannig ekki að slappa af og njóta kynlífsins. Við kynferðislega örvun og fullnægingu örvast einnig framleiðsla oxytócins. Þar sem þetta hormón örvar einnig mjólkurlosun er því ekki óalgengt að mjólkin flæði úr brjóstum kvenna þegar þær eru kynferðislega örvaðar og fá fullnægingu. Sumum finnst þetta bara skemmtilegt, öðrum finnst það þvert á móti virkilega neyðarlegt og vilja forðast að koma sér í þessar aðstæður.

Til að leysa möguleg vandamál er gott að geta rætt saman og útskýrt fyrir makanum hvers vegna maður upplifir það sem maður er að upplifa. Þannig má koma í veg fyrir margan misskilninginn. Þó konan upplifi sig t.d. alls ekki kynferðislega aðlaðandi er afskaplega gott fyrir hana að heyra frá makanum að hann sjái hana enn sem fallega kynveru, en ekki bara þreytta móður ;). Þreytu og svefnleysi má reyna að koma í veg fyrir með því að hvíla sig með barninu þegar færi gefst og reyna svo að eiga smá tíma með makanum þegar maður er ekki alveg að detta út af. Það er líka mikilvægt að skiptast á að vaka með barninu ef það er óvært á nóttunni. Svo er jafnvel hægt að reyna að fá smá pössun til að safna kröftum, þó ekki nema væri að amma og afi fengu barnabarnið lánað í 1-2 klukkutíma einhvern daginn. Það er heilmikla hvíld hægt að fá á þessum tíma. Ef fólki finnst óþægilegt að stunda kynlíf með barnið í sama herbergi er ekkert að því að láta það sofa í sérherbergi ef möguleiki er til þess.

Eins er mikilvægt að parið geti notið snertingar og nálægðar án þess að það sé endilega undanfari kynlífs. Margir hafa upplifað það að fara að forðast alla nána snertingu við maka sinn af ótta við að hann ætlist til að það endi í kynlífi. Það er einnig mikilvægt að tala saman um þetta, því náin snerting er svo stór þáttur í sambandi pars. Annað getur farið út í leiðinlegan vítahring og að makinn fari að halda að hinn aðilinn hafi engan áhuga á honum lengur. Það er alveg hægt að finna smá tíma til að rækta sambandið ef bara viljinn er fyrir hendi og maður hugsar aðeins út í það. Fyrstu vikurnar fara skiljanlega mest í barnið, að læra inn á það og þróa samskipti og tilfinningar gagnvart því. En síðan má ekki gleyma að foreldrar eru ekki bara foreldrar, heldur einnig elskendur, hjón eða par, og að sjálfsögðu einstaklingar.
Kveðja,