Vöggudauði Vöggudauði er ein algengasta dauðaorsök barna undir eins árs. Enn í dag er ekki vitað hvað í raun veldur vöggudauða þó svo að margar kenningar séu uppi. Skilgreining á vöggudauða er óútskýrt dauðsfall barns undir eins árs. Dæmigert dauðsfall af vegna vöggudauða gerist þannig að barnið er lagt til svefns, en þegar farið er að huga að því er það látið. Ekki er um að ræða köfnun í sængurfötum eða uppsölu, heldur virðist barnið einfaldlega hætta að anda af einhverjum ástæðum. Þó að það sé eflaust aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir vöggudauða vitum við þó töluvert um hvernig hægt er að minnka líkurnar á honum.

Baklega

Það sem langmest hefur dregið úr hættu á vöggudauða er að láta börnin liggja á bakinu frekar en maganum. Eftir að þetta uppgötvaðist og foreldrar voru hvattir til að láta börn sín liggja ekki á maganum hefur vöggudauði minnkað mjög mikið. Börn sem sofa á maganum eru í allt að 14 sinnum meiri hættu á að deyja vöggudauða en þau börn sem sofa á bakinu. Þetta þýðir að af 150 börnum sem deyja vöggudauða lágu um 140 á maganum. Hvers vegna þetta er svona er ekki vitað en talið er að ýmsir þættir geti haft áhrif þarna á. Börn sofa oft þyngra og fastar þegar þau liggja á maganum, þeim verður frekar of heitt og eining er líklegt að þau andi frekar að sér notuðu lofti sem safnast í kringum vit þess, en slíkt loft er ríkara af koltdíoxíði og fátækara af súrefni. Talið er að þetta trufli heilastöðvar sumra barna þannig að þau hætti að anda. Hliðarlega er öruggari en magalega, en þó ekki eins örugg og baklega. Börn sem sofa á hliðinni eru um þrisvar sinnum líklegri til að deyja vöggudauða en börn sem liggja á bakinu. Ástæðurnar eru líklega að einhverju leyti þær sömu og þegar um er að ræða magalegu, en eins er líklegra að börn sem sofa á hliðinni velti óvart yfir á magann.

Margir hafa heyrt að best sé að láta barnið sofa á hliðinni til að koma í veg fyrir að það kafni í eigin uppsölu ef það kastar upp, en börn geta auðveldlega snúið höfðinu út á hlið og því er sú hætta mjög lítil. Enda ef þið skoðið sofandi ungabörn sem liggja á bakinu þá liggja þau nánast alltaf með höfuðið til hliðar.

Venja ætti börn á að sofa á bakinu strax frá fæðingu

Reykingar

Að reykja á meðgöngu og reykingar á heimilinu eftir að barnið er fætt auka töluvert líkurnar á vöggudauða. Sama er að segja um eyturlyfjanotkun.

Rúmið

Dýnan í rúminu ætti að vera stinn en ekki mjúk. Auk þess ætti hún ekki að vera notuð. Skoskar rannsóknir sýna að líkurnar á vöggudauða eru um þrisvar sinnum meiri ef barnið sefur á notaðri dýnu og um átta sinnum meiri ef dýnan kemur notuð frá annari fjölskyldu. Eins þarf að passa að hafa ekki þungar sængur og ekkert aukadót ætti að vera í rúminu. Þessir hlutir auka líkurnar á að þungt loft safnist í kringum vit barnsins og einnig að því verði of heitt. Ef foreldrarnir reykja ætti barnið að sofa í eigin rúmi og ekki í sama rúmi og foreldrarnir því það sýnir sig auka líkurnar á vöggudauða. Þessi munur kemur ekki fram ef foreldrarnir reykja ekki.

Klæðnaður og hitastig

Passið að klæða barnið ekki of mikið þannig að því verði of heitt. Hitastigið í herberginu ætti að vera í kringum +18 gráður. Gott er að hafa glugga opinn til að fá ferskst loft.

Brjóstagjöf og snuðnotkun

Brjóstagjöf dregur úr líkunum á vöggudauða, og það sem merkilegra er er að snuðnotkun gerir það líka að einhverju leyti. Áhrif brjóstagjafar eru þó meiri og því er mælt með að farið sé varlega í snuðnotkun til að hún dragi ekki úr brjóstagjöfinni.

Kvef og magapestar

Haldið börnunum frá mannmörgum stöðum og stöðum þar sem kvefpestar eða aðrar pestar eru í gangi til að forðast smit. Tíðni vöggudauða virðist vera meiri í tengslum við slíkar sýkingar.

Fyrirburar og léttburar

Fyrirburar og léttburar eru í meiri hættu á aðdeyja vöggudauða. Í sumum tilvikum getur verið betra fyrir þessi börn að sofa á maganum vegna þess að þeim er hættaravið ofkólnun og einnig til að létta öndunina. Ef þú átt fyrirbura eða léttbura sem læknir hefur ráðlagt að sofi á maganum skaltu fylgja þeim ráðum. Hins vegar er hættan á vöggudauða sérstaklega stór fyrir þennan hóp barna við magalegu og því ættu þau að sofa á bakinu að öllu jöfnu, ef læknir hefur ekki ráðlagt annað.

Samspil þessara þátta á allt sinn þátt í aukinni hættu á vöggudauða og því gott að draga úr áhættunni þar sem maður mögulega getur. Langstærsta áhættan fyrir vöggudauða er samt magalega.

Barnið mitt vill ekki sofa á bakinu, á ég að leyfa því að sofa á maganum?

Svarið við þessu er hiklaust NEI. Mörg börn eru meira vælin í baklegu og sofa vissulega betur á maganum, en einmitt þessi þyngri svefn gerir þau útsettari fyrir vöggudauða. Magakveisubörnum virðist líka oft líða betur á maganum, en ekki er hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að margfalt fleiri börn sem sofa á maganum deyja vöggudauða samanborið við börn sem sofa á bakinu. Þetta er stærsta áhættan fyrir vöggudauða og það eitt ætti að vera nægileg ástæða til að láta barnið alltaf sofa á bakinu. Áhættan fyrir vöggudauða minnkar um 6 mánaða aldur, en þá eru flest börn farin að geta snúið sér sjálf og því ekki eins mikilvægt að þau sofi alltaf á bakinu. Auðvitað er allt í góðu að láta barnið vera á maganum þegar það er vakandi, enda styrkir það bara háls-og bakvöðva þess og veitir því þjálfun.
Kveðja,