Sonur minn er tæplega 20 mánaða og hefur verið rosalega duglegur við að hreinsa upp allar pestar sem hafa verið að ganga, á laugardaginn sl.(9.jan '10) fór hann að hósta eins og hann fengi borgað fyrir það, ég hélt hann væri bara kominn með kvef og kippti mér ekkert upp við þetta.

Svo vaknar hann með rúmlega 38.stiga hita um nóttina og líður rosalega ílla, hann fær kúr með mömmu og pabba og stíl til að lækka hitann svo sofnar hann stuttu eftir að fá stílinn, hann svaf svo alla nóttina en hóstaði og hóstaði á fullu, hóstinn líktis mest gelti í kóp.

Sunnudagsnóttina er hann rosalega lítill í sér og hósta enn, hann hefur aldrei viljað sofa uppí hjá okkur síðann hann var lítill og aldrei verið kyrr, þarna var hann máttlaus og leið virkilega ílla, enn með hita og veinaði svolítið.

Ég svaf nánast ekkert þessa nótt heldur kúrði með hann í fanginu og dottaði inn á milli, svo vakna ég og sé hann hálf máttlausann og varla að hann andaði, ég stekk auðvitað fram úr og hringi í læknavaktina, þar fær hún allar upplýsingar frá mér og sendir læknir heim til mín klukkan að ganga 5 þessa nótt, mér leið ekkert sérlega vel yfir þessu.

Læknirinn kemur svo og hlustar hann og spyr spurninga, hann bókar fyrir okkur tíma á bráðamóttöku barna á barnaspítala hringsins í röntgen myndatöku, hann hafði grun um lungnabólgu hjá drengnum.

Við förum svo með hann uppá spítala og þar er hann skoðaður í bak og fyrir en engin ástæða fyrir myndatöku þannig séð, svo það er tekin blóðprufa af stráknum og gildin fyrir lungabólgu sýndi bara 16 en ætti í raun að vera 100-200 ef hún væri til staðar, mér létti rosalega við þetta!

Hjúkkan kom og talaði við mig um það að þetta væri að öllum líkindum RS-vírusinn og sagði mér einnig að hann væri að ganga, hún talaði um að nóttin gæti orðið erfið, ég bjó mig undir það.

Nóttin gekk ágætlega en samt hóstinn en sem áður, engin sérstök meðferð sem hann fékk því hann var svo vægur vírusinn hjá honum, alla vikuna er ég búin að hlusta á barnið hósta og hósta og vona að honum fari að batna sem fyrst þar sem hann er alveg ólmur í að komast út og fara á leikskólann.

Talað er að batinn geti tekið um 15 daga en ég vona það hans vegna að þetta taki sem styðstann tíma, hann fékk einnig væga eyrnabólgu með þessu og hefur verið alveg svakalega pirraður vegna þess.

Læt hérna upplýsingar fyrir ykkur um vírusinn frá www.doktor.is

RS-vírus (Respiratory Syncytial Virus)
Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir
Skrifað miðvikudagur, 23. feb - 2005
# Hvað er RS-veira?

RS-veiran tilheyrir hóp veira sem leggjast á öndunarfæri og valda þar sýkingum. Veiran veldur sýkingu í efri öndunarfærum (kvef), þessar sýkingar eru tiltölulega einkennalitlar og er algengast að sjá þær hjá fullorðnum og eldri börnum. En veiran getur einnig valdið sýkingum í neðri hluta öndunarfæranna s.s. lungnabólgu, berkjubólgu og barkabólgu. Þessar sýkingar eru alvarlegri og er algengast að sjá þær hjá ungum börnum en einnig geta aldraðir og þeir sem hafa undirliggjandi sjúkdóma fengið slæmar sýkingar.

Algengast er að sýkingar verði á veturna og vorin og veldur veiran þá gjarnan faröldrum hjá ungum börnum. Algengast er að börn sýkist á aldrinum 6 vikna – 6 mánaða, en um 90% 2 ára bana hafa sýkst a.m.k. einu sinni af RS-veirunni. Þrátt fyrir að líkaminn myndi mótefni við sýkingu þá eru endursýkingar algengar í öllum aldurshópum.

# Hvernig smitast RS-veiran?

Algengast er að RS-veirurnar berist með snertismiti á milli einstaklinga og líða um 3–5 dagar frá því að einstakingur smitast og þar til einkenni koma fram. Í fyrstu sýkir veiran augu og nefkok og veldur kvefi en í alvarlegri tilfelllum berst veiran niður í berkjur og lungu og veldur þar sýkingu.

# Hvernig má fyrirbyggja smit?

Til að reyna að fyrirbyggja smit er mikilvægt að brýna handþvott, því veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir utan líkama. Mikilvægt að þeir sem hafa kvef þvoi sér reglulega um hendur til að koma í veg fyrir smit. Forðast skal að nota matarílát sem einhver annar hefur notað og ekki hafa verið þvegin s.s. glös og hnífapör. Leggja þarf áherslu á að nota einnota bréfþurrkur og henda þeim strax eftir notkun.

Börn sem eru undir 6 mánaða aldri eiga ekki að vera innan um þá sem hafa kvefeinkenni og sama gildir um þá sem eru í áhættuhópum fyrir að sýkjast alvarlega.

# Hver eru einkenni RS-veirusýkingar.

Einkenni sýkingar eru mjög mismunandi eftir aldri og ástandi þess sem sýkist og geta verið allt fá því að vera mild sýking í efri öndunarfærum sem einkennist að slími í nefi, í að vera alvarleg neðri öndunarfærasýking sem veldur öndunarerfiðleikum og súrefnisskorti.

Þegar um ung börn er að ræða byrjar sýking í flestum tilfellum með aukinni slímmyndun í nefi og barnið fer að hnerra og í kjölfarið fær það hita 38-39 C og byrjar að hósta. Þessi einkennin koma tiltölulega hratt. Ef sýkingin berst niður í berkjur versna einkennin á næstu 2–3 dögum.

Andardráttur barnsins verður hraður og oft heyrist hvæs við öndun, barninu verður þungt um andardrátt og blámi getur sést vörum og fingrum, barnið nærist illa og sefur illa.

* nefstíflur
* hósti
* hiti
* hraður andardráttur
* andþyngsli
* öndunarerfiðleikar
* blámi á vörum vegna súrefnisskorts
* öndunarhvæs
* geltandi hósti

# Hverjir eru í mestri hættu að fá alvarlegar sýkingar?

ungabörn yngri en 3 mánaða
fyrirburar
börn með hjarta- og æðasjúkdóma
börn með lungnasjúkdóma
börn með sjúkdóma í ónæmiskerfi
gamalt fólk
einstaklingar með undirliggjandi sjúdóma

# Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Læknir skoðar sjúkling og ef einkenni sjúklings eru væg eru ekki gerðar neinar sérhæfðar rannsóknir til að staðfesta að um RS-veirusýkingu sé að ræða. Ef einkenni eru alvarlegri getur þurft að taka röntgenmynd. Ef grunur er um lungnabólgu og ef andþyngsli eða súrefnisskortur er til staðar er nauðsynlegt að leggja sjúkling inn á sjúkrahús. Til að staðfesta sjúkdóminn er hægt að taka sýni úr nefkoki.

Ung börn og börn, sem hafa hjarta- og æðasjúkóma eða sjúkdóma tengda ónæmiskerfinu, eru í mestri hættu á að fá alvarlegar sýkingar og þurfa sjúkrahússinnlögn.

# Hver er meðferðin?

Við vægar sýkingar er ekki þörf á meðferð og fer það fyrst og fremst eftir einkennum hvaða meðferð sjúklingar fá. Í sumum tilfelllum getur reynst nauðsynlegt að gefa berkjuvíkkandi lyf, svara sumir sjúklingar þeim vel og þau því oft reynd. Í öðrum tilfellum eru einkenni það slæm að leggja verður sjúkling inn á sjúkrahús, ekki er til nein sérhæfð meðferð heldur miðar meðferðin að því að hjálpa sjúklingi að komast yfir sjúkdómseinkenni og láta honum líða sem best og er það gert t.d. með súrefni, vökvagjöf og berkjuvíkkandi lyfjum.

Í dag eru til mótefni sem hægt er að nota til að hindra sýkingar hjá þeim sem eru í mestri áhættu að fá alvarlegar sýkingar s.s. fyrirburar og ung börn með hjarta- og lungnasjúkdóma. Einnig er hægt að nota lyfið Ribavirin til meðhöndlunar í völdum tilfelllum. Enn er ekki til neitt bóluefni við RS-veirunni.

# Batahorfur

Flest þeirra barna sem sýkjast af RS-veirunni ná bata á 15 dögum. Til eru rannsóknir sem tengja asthma við RS-veirusýkingu, en ekki er að fullu skýrt hvort RS-veirusýkingin geti valdið athma síðar á ævinni eða hvort þeir þættir sem valda asthma séu til staðar fyrir og auki líkur þessara barna á RS-sýkingum.

# Algengustu fylgikvillar

Eyrnasýkingar
Lungnabólgur

Endilega ef ykkur grunar að barnið ykkar sé með RS látið þá kíkja á það, einu skipti of oft er betra en einu skipti of sjaldan í skoðanir hjá lækni.

Kv PINKY