Ég á litla stelpu sem er núna 6 vikna gömul en alla helgina var hún búin að vera frekar óróleg, sígrátandi hvort sem hún var í fanginu á mér eða ekki, dugði ekkert að láta hana ropa, hún var með smá hita, hún var ósofandi og við hjúin líka. Því ákvað ég í gær (sunnudag) að fara með dömuna á barnalæknaþjónustuna til að ath. hvort þeir gætu ekki hjálpað henni eitthvað svo ég leit í bæklinginn sem ég fékk frá hjúkkunni í ungbarnaeftirlitinu til að sjá hvort það væri opið. Jújú, það stóð að opið væri á sunnudögum frá 13-17 svo ég pakka litla krílinu mínu inn í barnastólinn og bruna af stað enda klukkan bara 16:00. Úti var pissandi rigning og rok - ekki bestu aðstæður til að vera mikið úti með veikt barn.
Þegar ég kem að Domus Medica og fer að aðaldyrunum er RISA stór gulur miði í glugganum sem segir hvenær opnunartíminn er og á honum stendur að opið sé á sunnudögum frá 13-17 en maður þurfi að fara bakdyramegin og á miðanum er bara einhver hendi sem bendir til vinstri. Ég labba í rigningunni til vinstri og fyrir hornið á húsinu, jú þar voru dyr með dyrabjöllu merktar “vörumóttaka” - voru þetta dyrnar eða ekki? Því voru þær þá ekki merktar líka barnalæknaþjónustunni? Ojæja, eg dingla en fæ ekkert svar - svo ég labba lengra með krílið grátandi úr sér augun og sé aðrar dyr en þær voru læstar. Ég gefst upp á endanum og fer inn í bíl og næ í símaskránna. Ég ákvað að hringja og fá að vita hvar dyrnar væru, eg leita að símanúmerinu en viti menn - hvað sé ég, í símaskránni stendur að opið´sé á sunnudögum frá 11 - 15 en ekki 13 - 17. Ég hugsa nú með mér að það geti ekki verið, það stóð 13 - 17 í bæklingnum og í guðs bænum, það stóð 13-17 RISASTÓRUM stöfum á aðaldyrinni. Ég hringi í númerið og símsvari svarar og segir að opið sé frá 11 - 15 á sunnudögum!!
Ég hef aldrei vitað annað eins. Ok ég læt það nú vera að það standi vitlaust í bæklingnum, bæklingar verða gamlir - en það stendur mjög skírum stöfum kolvitlaus opnunartími á aðaldyrunum. Ef réttur tími hefði staðið hefði ég ekki tekið dóttur mína út í rigninguna og flakkað um allt húsið í leit að dyrinni og núna fyrir vikið er greyið komin með smá kvef.
Mér finnst þetta persónulega hneykslanlegt, dettur fólki virkilega ekki í hug að það er fólk að koma með VEIK börn í skoðun - börn með hita ofl. sem ættu í raun ekki að vera úti.