Ég er að hugsa um að innrita son minn (4ra ára) í heimspeki í Háskólanum. Perlurnar sem detta út úr þessum munni eru oft með ólíkindum, og greinilegt að hann veltir - eins og allir krakkar, sjálfsagt - hlutunum mikið og vandlega fyrir sér. Ég lá í rúminu um daginn með nístandi höfuðverk og hann kemur til mín með þvottapoka til að reyna að hjálpa mömmu eitthvað (heima hjá okkur er alltaf kaldur þvottapoki á meiddið besti plásturinn). “Er þér illt í höfðinu, mamma?” spyr hann og ég umla einhverja játun við því. Situr hann svo þögull við hliðina á mér og stúderar málið svolítið. Kemur svo með þessa perlu: “Þegar manni er illt í höfðinu getur heilinn ekki hugsað um neitt… nema það sem hann myndi hugsa ef hann gæti hugsað”
Það kom á daginn að þetta var það sem þurfti til að lækna höfuðverkinn, hláturinn sem þetta vakti og meðaumkvunin í augum hans voru besta verkjalyfið. :)