BARN Í HRÚTSMERKI

Barn í hrútsmerki er algjör orkubolti, sem þú sérð skjótast hingað og þangað og er alltaf að. VÁ! Vonum bara að þú náir að fylgja því eftir. Þetta barn er frumkvöðull að eðlisfari og elskar að prófa og kanna og býr yfir mikilli orku. Athafnir eftir skóla eru algjör nauðsyn fyrir þetta barn, t.d. íþróttir og útivera. Íþróttir eru í raun mjög góður kostur fyrir hrútinn því að þetta eru yfirleitt kappsfullir einstaklingar að eðlisfari. Þar sem börn í hrútsmerki eru hvatvís þá eru þessi börn oft svolítið erfið fyrir kennarann að höndla og getur verið erfitt að hafa mörg börn í bekknum sem eru í hrútsmerkinu. Hrúturinn er alltaf að prófa eitthvað nýtt og er hugrakkur og er því ávallt með marbletti og skeinur eftir klifur í trjám eða öðru slíku. Það er ljóst að barn í hrútsmerkinu er ekki fyrir hjartveika foreldra. Mikilvægt er að barnið upplifi sig sjálfstætt og ef þú ert að passa upp á það skaltu reyna komast hjá því að það sjái það. Þetta barn vill gera allt sjálft. Að lokum, barn í hrútnum veit ekki hvað það er að hægja á sér, svo að það er betra fyrir þig að venjast snöggum hreyfingum. Gott að fylgjast með sykurinntekt þessara barna og hafa í lágmarki, því trúðu mér þessi börn hafa næga orku fyrir.



BARN Í NAUTSMERKI

Barn í nautsmerkinu er í góðu jafnvægi og einbeitt og tekur sér tíma til að gera hlutina og flýtir sér hægt. Þetta er barn sem skilur og metur ferlið sem slíkt. Barn í nautsmerkinu hefur ánægju af því að hugsa um hluti og sýnir staðfestu í nálgun þess. Raunsæi og að hlutirnir séu raunhæfir er stór hluti af þeirra ákvarðanatöku. Þegar þú útskýrir hluti fyrir barni í nautsmerki þá er alls ekki nóg að segja “þetta er bara svona”. Þetta barn hefur þörf fyrir að skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru og hver lógíkin er á bak við reglurnar sem því eru settar, annars getur það ekki fylgt reglunum. Þetta hljómar sem mikil vinna en leiðir af sér vel aðlagað barn í góðu jafnvægi. Annað sem ber að hafa í huga, er þörf barns í þessu merki fyrir snertingu og ástúð. Þú getur aldrei knúsað þetta barn of mikið. Þetta barn er einnig mikið fyrir fjölskyldulíf og er góð húshjálp. Oft er þetta litla aðsoðarmanneskjan þín og vill gera allt eins og mamma og pabbi. Barn í nautsmerkinu er sælkeri og þú getur búist við að það eyði miklum tíma í eldhúsinu við að elda og borða. Nautið er þrjóskt að eðlisfari og mjög erfitt er að fá það til að skipta um skoðun ef það hefur fengið einhverja flugu í kollinn. Annað ríkt einkenni er þolinmæði og þrautseigja sem gerir barn í nautsmerki að góðum námsmanni og sigurvegara.



BARN Í TVÍBURAMERKI

Barn í tvíburamerkinu er snöggt í hreyfingum eins og svipu sé veifað, þó svo að flestar hreyfingar séu uppávið. Þetta barn er alltaf á leiðinni upp á eitthvað. Talandi um orku og virkni! Þetta barn fer létt með að gera 3 hluti í einu og er líklegt til að gera þá alla vel. Hægt er að segja um barn í tvíburamerkinu að það sé mjög klókt og komi sífellt á óvart. Það er einnig ósvífið og gæti komið heim með kettling með slaufu um hálsinn (sem það fann) og fært mömmu sinni að “gjöf”. Sætt, ekki satt? Það sem þessu barni leiðist er að hafa ekkert að gera, svo vertu viss um að stundatafla þess sé alveg þétt skipuð (íþróttir, klúbbar, útivist o.s.frv.) Vegna þess hve barnið er upptekið og hefur margt fyrir stafni þá eignast það marga vini. Tvíburanum líkar að vera trúðurinn í bekknum og gerir í því að gretta sig og segja brandara. Tvíburinn er fyndinn og býr yfir góðum húmor. Hugur hans ferðast á ógnarhraða og auðvelt að örva. Vertu viss um að hann hafi alltaf nóg að lesa. Fyrir utan lestur þá hefur barn í tvíburamerkinu einnig mikla unun af því að tala, segja brandara og taka þátt í íþróttum, og það vill gera þetta allt núna strax. Þegar þú reynir að sjá fyrir þér barn í tvíburamerkinu þá skaltu hugsa um Línu Langsokk. Hallaðu þér aftur, dragðu andann djúpt og taktu þátt í fjörinu.



BARN Í KRABBAMERKI

Barn í krabbamerkinu er feimið og viðkvæmt að eðlisfari og vill frekar leika inni í sínu herbergi heldur en að fara út og takast á við hina “ógnvænlegu” veröld. Þessi börn eru einnig tilfinninganæm og bresta auðveldlega í grát ef hlutirnir ganga ekki eins og þau vilja eða ef gengur á einhverju í fjölskyldunni. Þessi börn vilja ró og næði í kringum sig. Þar sem barn í krabbanum heldur sig nálægt heimili sínu má búast við að það hangi svolítið í pilsfaldinum hjá mömmu fram eftir aldri. Það getur þó verið kostur þar sem krabbinn elskar að hjálpa til. Móðureðli er ríkt í krabbabörnum og þau hugsa vel um yngri systkini sín ef þau eiga yngri systkini. Þetta barn er fædd barnapía og er vanalega með öll börnin í hverfinu í eftirdragi og hefur ofan fyrir þeim með allskyns leikjum. Þetta barn býr yfir frábæru minni og því er nám og próf leikur einn. Krabbinn getur stundum verið erfiður í skapinu og þá er best að leyfa honum að vera í friði. Stundum vorkennir barn í krabbanum sér rosalega og verður jafnvel svolítið latt en það varir yfirleitt stutt. Oftast er voðalega gaman í kringum krabbann. Barn í krabbamerkinu er yfirleitt heimakært og er mikið fyrir fjölskyldulífið og er sá einstaklingur í fjölskyldunni sem finnst skemmtilegast í fjölskylduboðum og á ættarmótum.



BARN Í LJÓNSMERKI

Barn í ljónsmerkinu elskar að vera á sviði meira en nokkuð annað. Ef þú ert að leita að barni til að leika aðalhlutverkið í skólaleikriti þá skaltu ekki leita frekar því að ljónið er til! Barn í ljónsmerkinu er mjög skapandi og það er líklegt til að setja sjálft upp leikrit og þá sér það um allar hliðar sjálft, þ.e. leikmyndina, leikinn, tónlistina o.s.frv. Þar sem ljónið er ávallt í forystu, þá á barn í ljónsmerkinu marga vini, eða eru þetta fylgjendur? Allavega, þá fer það ekki fram hjá neinum hver ræður hér! Ljónið er gjafmilt og líkar vel að deila frægð sinni með félögum sínum. Þú getur bókað að þetta barn slær í gegn, hvernig á það annars að verða Lion King? Helstu kostir ljónsins eru bjartsýni og gott lundarfar. Þetta barn trúir því almennt að lífið sé yndislegt og að hlutirnir gangi upp fyrir það. Barn í ljónsmerkinu hefur andstyggð á gagnrýni og vill helst ekkert af henni vita. Ljónið er einnig mjög stolt og vill standa sig vel, svo að þegar það kemur fram fyrir áhorfendahóp þá leggur það sig 100% fram. Einnig þegar barn í ljónsmerkinu fer í skóla þá stendur það sig vel, því það vill alltaf vera best. Ljónið er vinsælt og sjarmerandi og þú getur treyst lífi og fjöri í kringum þessi börn.



BARN Í MEYJU

Barn í meyjarmerkinu er vinnusamt svo að þú getur bókað að það er nóg að gera í kringum það. Þetta barn getur látið leik líta út fyrir að vera vinna og öfugt, svo að þú veist oft ekki alveg hvað er í gangi. Ekki hafa áhyggjur samt, meyjan sér um að klára sín verkefni, hvort sem það er að laga til í herberginu eða spila skák. Barn í meyjunni er vísindalegt að eðlisfari og er líklegra til að takast á við verkefni um stjörnur og tungl heldur en að planta grænmeti í garðinn. Þessi verkefni meyjunnar munu ganga vel, því að meyjan er haldin fullkomnunaráráttu og veit ekki hvað það er að mistakast. Þessari leit að fullkomnun fylgir oft smámunasemi svo að oft má misskilja þegar að meyjunni gengur gott eitt til. Barnið í meyjarmerki vill borða baunir, en það þurfa að vera bestu fáanlegar baunir (þessu barni getur þóst vera illt í maganum). Meyjan er þrifaleg og vill hafa fínt í kringum sig og ekki bara sitt herbergi heldur allt húsið og öllu raðað í röð og reglu. Ekki slæmt að hafa eina meyju á heimilinu? En þegar allt kemur til alls þá vill barn í meyjarmerkinu helst hafa hlutina einfalda ( ís í brauðformi án dýfu og alls), skipulag og fær ánægju út úr vel unnu verki.



BARN Í VOGINNI

Barn í voginni er fæddur málamiðlari sem elskar friðinn og vill að öllum komi vel saman. Sáttasemjari leikvallarins er mættur! Með þessum eiginleika fylgir ákveðin nákvæmni og glæsileiki sem hjálpar barni í þessu merki við að komast áfram og fá það sem það vill. Mjög erfitt er að mótmæla og rífast við vogina vegna þess hve sveigjanleg hún er. Þar sem þetta barn er samvinnufúst og í góðu jafnvægi þá á barnið mikið af vinum og allir leika sér saman í sátt og samlyndi. Vogin elskar að eyða tíma sínum með félögunum, því barn í vog er mikil félagsvera sem vill miklu frekar leika sér í hóp en að vera eitt að leika. Vogin er námsfús og fær góðar einkunnir út úr prófum. Þetta barn kemur ávallt vel fyrir og vandar sína framkomu. Vogin getur átt það til að vera hverflynd og óákveðin og þú skalt ekki hika við að taka ákvörðun fyrir barnið þegar það sýnir þessi einkenni. Það er nú bara þannig að barn í voginni hefur tilhneigingu til að setja sig í spor allra sem að málinu koma og því getur verið erfitt að taka “réttu” ákvörðunina. Svo sannarlega fæddur sáttasemjari. Að lokum, barn í voginni á það til að eiga erfitt með einbeitingu, svo hafðu auga með því til að halda því á réttri braut, sérstaklega þegar það er að lesa.



BARN Í SPORÐDREKA

Barn fætt í sporðdrekamerkinu er ákaft og sýnir mikla snerpu og oft leiðir það til að önnur börn misskilja sporðdrekann. Þessi börn eru ekki að reyna vera hávær, þau hafa bara ákafa þörf fyrir að vita allt. Þau geta verið helst til áköf þegar þau eru að nálgast skólafélaga sína, en þau eru allavega hreinskilin. Þegar barn í sporðdreka hefur tekið ákvörðun um að gera eitthvað, þá er ekkert sem fær það ofan af því. Að reyna að fá sporðdreka til að skipta um skoðun er eins og að reyna að hreyfa kletta og fjöll. Sporðdrekinn er úrræðagóður og á auðvelt með að vinna úr staðreyndum. Þetta er sá einstaklingur sem þú leitar til þegar þú ert að athuga með hvað er að gerast í bænum eða ætlar að finna besta verðið á hjólum. Hugur barns í sporðdreka heillast af vísindum og rannsóknum svo þú skalt ekki draga úr ást þeirra á efnafræðitilraunum og áhöldum. Reyndu bara að halda barninu utan dyra þegar það er að gera efnafræðitilraunir sínar heima við. Barn í sporðdreka er leyndardómsfullt og oft er erfitt að segja til um hvernig því líður og hvað það er að hugsa. Þetta veldur því einnig að félagarnir vita ekki hvar þeir hafa sporðdrekann og verða óöruggir í kringum hann. Barn í sporðdreka á það til að verða afbrýðisamt út í aðra og oft getur skapast stríðsástand yfir leikföngum og á leikvellinum. Þeir sem gefa sér tíma til að kynnast barni í sporðdreka og hleypir honum að sér, eignast góðan og traustan vin um alla framtíð.



BARN Í BOGMANNSMERKI

Barn fætt í bogmanni er trúðurinn í bekknum og er ávallt glatt og mikið fjör í kringum það. Passaðu að hafa ekki glas fullt af vökva í kringum það, því bogamaðurinn á eftir að hella því niður. Þetta barn þarf mikið pláss í kringum sig og getur ekki ímyndað sér heiminn án frelsis. Bogamaðurinn elskar frelsið og ferðalög eru í uppáhaldi. Þú mátt búast við að þetta barn sé fyrst til að skrá sig í allar ævintýraferðir og ekki reyna að svipta því frelsinu. Orkan og ákafinn gera bogamanninn að góðum íþróttamanni. Barn í bogamannsmerkinu er stórhuga og opið fyrir öllu mögulegu og ómögulegu! Bogamaðurinn á mikið af vinum og finnst það yfirleitt gera lífið áhugavert. Það lítur jákvætt á heiminn og fólk og þetta er sennilega sá einstaklingur sem berst fyrir því að allir séu jafnir. Mikilvægt er fyrir bogamanninn að finna fyrir réttlæti og þetta barn vill heyra sannleikann í öllum málum. Barn í bogamannsmerkinu kemur sér oft í klandur vegna þess að það segir eitthvað óhugsað og stundum særir bogamaðurinn þig óafvitandi. Hann meinar ekkert slæmt með þessu! Getur stundum verið erfitt að vera foreldri bogamanns, því hann getur kjaftað óvart frá öllum helstu fjölskylduleyndarmálum. Þrátt fyrir þetta fyrirgefur þú þeim auðveldlega, því bogamaðurinn er svo glaður og gaman að vera í kringum hann. Barn í bogamannsmerkinu er svo ánægt með lífið að það getur ekki beðið eftir að vakna í fyrramálið og byrja nýjan dag.



BARN Í STEINGEIT

Barn fætt í steingeit hagar sér eins og fullorðinn frá því að það fæðist. Sá sem fylgist með verðbréfamarkaðnum fyrir fjölskylduna, litla viðskiptaveran á heimilinu. Þessi einstaklingur er fæddur frumkvöðull og er ávallt með áætlun í gangi. Áætlun um að vera kóngur í ríki sínu, ná á toppinn. Þú getur bókað að þessi áætlun er ítarlega útfærð og í smáatriðum. Við hverju máttu búast af barni fæddu í steingeit? Fyrst og fremst, viðskiptamanni með stórar viðskiptaáætlanir! Það er barn fætt í steingeit sem setur upp sölubás og ræður “starfsmenn” til að vinna fyrir sig. En þú þarft ekki að óttast neitt, því að steingeitin er réttlát og hugsar vel um þá sem hjálpa henni. Varkárni og ábyrgð eru þessu barni eðlislægt og það fer ekki út í neitt sem á ekki góða möguleika á að ganga vel. Barn fætt í steingeit lætur aðra um að klífa fjöll og vill sjálft hafa báðar fætur á jörðinni (enda er steingeit jarðarmerki, þrátt fyrir allt). Ef þú ert að leita þér að einhverjum til að passa fyrir þig, þá er steingeitin góður kostur. Steingeitinni fer vel að hugsa um aðra og heldur öllu í röð og reglu. Þetta barn leitar ávallt að fullkomnun og vinnur mikið til að ná fullkomnun. Þetta barn skaltu taka alvarlega og fylgjast vel með, því það er líklegt til að ná mjög langt í lífinu.



BARN Í VATNSBERA

Þú getur búist við að barn fætt í vatnsbera sé ávallt svolítið úr takt við lífið og tilveruna, en það er stór hluti af sjarma þess. Þú getur reiknað með að þessi einstaklingur taki upp á öllu og komi oft á óvart. Vatnsberinn er frjáls í hugsun og mjög sjálftæður. Að fljúga flugdreka um hávetur er eitthvað sem vatnsberanum gæti dottið í hug og fundist það fullkomlega eðlilegt. Barn fætt í vatnsbera er mjög hugmyndaríkt og skapandi og er sífellt að vinna með tæki og tól og mun sennilega vera nettengt frá unga aldri. Tækninýjungar heilla barn í vatnsbera og þú getur bókað að það getur tengt fyrir þig nýja myndbandstækið. Þessi litli vísindamaður gæti sennilega meira að segja búið til eigið myndbandstæki. Vegna þess hve fróðleiksfús vatnsberinn er ættir þú að ávallt að hafa nægar bækur í kringum hann. Vatnsberanum gengur vel í skóla þó svo námsaðferðir virðist stundum vera óvenjulegar. Ritgerðir skrifaðar í hálfleik í handboltanum er eitthvað sem ekki er óvanalegt að sjá. Sumum finnst barn í vatnsbera vera fáskiptið og utan við sig en það er vegna þess að það hefur sinn háttinn á að gera hlutina. Sannleikurinn er sá að vatnsberanum finnst gaman að vera í kringum önnur börn.



BARN Í FISKAMERKINU

Barn í fiskamerkinu er oft í eigin heimi, draumaheimi þar sem ævintýri og ímyndaðir vinir búa. Vildum við ekki öll vilja búa í slíkum heimi? Þetta er barn sem oft er misskilið og því finnst það útundan og skilur ekki af hverju öllum líður ekki eins og því sjálfu. Af þessari ástæða krefst barnið meiri athygli en börn fædd í öðrum merkjum. Barn í fiskamerkinu er listrænt og tónelskt að eðlisfari og elskar að búa til hluti sem gleðja aðra. Tvöföld ánægja ef það hefur foreldri með sér að búa til og skapa. Barn í fiskamerkinu er samúðarfullt og það er gott að gráta á öxlina á því. Þetta er tilfinningaríkt barn og það grætur einnig við öxl þína þegar það þarf að fá útrás. Þetta er barn sem lendir oft í því að vera strítt af bekkjarfélögum, því það er inn í sig og frekar feimið. Þú skalt því fylgjast vel með hvernig það fellur í hópinn og hvernig því gengur að eignast vini. Vegna þess að fiskurinn er í draumaheimi á hann til að slóra, svo ekki senda hann út í búð að kaupa mjólk ef þig vantar mjólkina á næstunni. Betra verkefni fyrir barn í fiskamerki er að leyfa honum að fegra heiminn.