Stelpan mín er að verða 5 mánaða í byrjun janúar. Á þorláksmessu uppgötvaði hún að hún á varir og tungu og síðan þá hefur hún verið ullandi í allar áttir. Þetta er alveg hreint ótrúlega fyndið. Ef hún brosir, þá skýst tungan út, ef hún er að vanda sig við að reyna að taka eitthvað upp, þá skýst tungan út og við hvert annað tækifæri er tungan úti eða stútur á vörunum. Það er svo fyndið að sjá hana glotta með tunguna út úr sér, hún verður svo prakkaraleg.
Svo eftir að hún byrjaði á þessu þá fær hún alla til að ulla á sig til baka. Það er stórfyndið að fylgjast með því. Það er einhver að spjalla við hana, barn eða fullorðinn, og hún byrjar að ulla, viðmælandi fer þá fyrst að hlæja og ullar svo til baka og grettir sig á alla vegu til að fá hana til að ulla aftur. Meira að segja tengda-mamma ullaði til baka. Hún er japönsk og svona eins og Japanir eru, prúð og kurteis, og ég hef aldrei áður séð hana stinga út úr sér tungunni. Ég er að meina það að þegar Japanir stanga úr tönnunum eftir máltíðir þá fela þeir það á bakvið hina hendina eða eitthvað annað svo að það sjáist ekkert upp í þá, sérstaklega konurnar. Þegar tengda-mamma fór svo að ulla til baka á stelpuna var ég svo hissa, ég hef ALDREI, séð svo mikið sem upp í hana áður. Mér fannst þetta svo fyndið að ég fékk alveg hláturskast, reyndi samt að bæla það niður þar til ég var komin frá þeim. Svo sagði ég manninum mínum frá þessu og hann var jafnvel enn meira hissa en ég.

En litli engillinn minn ullar bara allan daginn, kannski kemur ullumynd af henni á síðuna mína eftir jólin. Hún ullar svo mikið að hún var komin með varaþurrk um daginn, greyið.

Mig langaði bara að deila þessu með ykkur.

Hafið það gott um áramótin, takk fyrir árið sem er að líða og látið ykkur líða vel á því sem er að koma.

kveðja
Tzip
<BR