Ég var aðeins að fletta í gegnum eina hjúkkubókina mína sem fjallar um heilsu kvenna á meðgöngu og umönnun nýburans. Þessi bók er bandarísk svo að sjálfsögðu var þar fjallað um umskurð sveinbarna á einum stað. Ég hef nú aldrei lesið þann kafla almennilega fyrr en nú, þar sem á Íslandi er þetta náttúrulega ekki aðgerð sem er framkvæmd á spítulunum hér, og ég veit hreinlega ekki til að þetta sé gert neinstaðar. Það væri þó ekki nema í undantekningartilfellum að þeir sæm væru gyðingatrúar myndu halda sig við hefðina og láta umskera sveinbarnið heima við á 8. degi eftir fæðingu.

En allavegana þá fylltist ég þvílíkri ónotatilfinningu við að lesa þetta og sjá myndirnar.

Ég skal aðeins segja ykkur hvernig þetta fer fram.

Fyrst er drengurinn spenntur nakið niður á plastbretti, sem er hannað í þessum tilgangi. Hendur og fætur eru bundnir vel fastir til að barnið geti ekki hreyft sig. Síðan er yfirbreiðslu breitt yfir það til að koma í veg fyrir ofkólnun, nema typpið er látið standa út úr – auðvitað! Það er síðan þvegið með sápu og vatni, eða þá joðspritti. Forhúðin á litlum drengjum er eðlilega mjög þröng og einnig föst við kónginn (þetta er nú einmitt til að vernda þvagrásina fyrir hægðum, óhreinu þvagi og öðrum óhreinindum). Fyrst þarf því að klípa í forhúðina með pinsettu og draga hana fram til að hægt sé að rífa hana upp frá kónginum (getið ímyndað ykkur hvort þetta sé sárt eða ekki). Síðan er skorið langsum í forhúðina þannig að hún opnist betur og svo er oftast sérstöku plastáhaldi komið fyrir á kónginn (sem blæðir úr vegna þess að búið er að rífa forhúðina frá honum) og forhúðin er síðan skorin af. Síðan er gegnið frá typpinu í umbúðir. Það þarf að skipta reglulega á sárinu og passa að umbúðirnar festist ekki í því (ógeðslega vont að rífa fastar umbúðir frá sári) og passa að bleyjan þrýsti ekki fast á typpið.

Þið getið séð myndir og fengið lýsingar hér: <a href="http://www.cirp.org/library/procedure/plastibell /"> Umskurður drengja </a>

Í fæstum tilvikum er notuð deyfing eða verkjalyf. Ég spyr ný bara, hvaða fullorðinn karlmaður myndi láta bjóða sér upp á að saxað væri framan af typpinu á sér, án þess að hann fengi deyfingu eða verkjalyf? Deyfing er reyndar líka óþægileg og ekki gallalaus, en þá þarf að stinga og sprauta í typpið, sem getur valdið bólgum og bjúg. Svæfing getur einnig verið hættuleg svona litlu barni vegna öndunarörðugleika o.fl. og er því aldrei gerð nema í neyðartilvikum. Að sjálfsögðu öskrar barnið af sársauka þegar umskurður er framkvæmdur og stundum hálflíður yfir það af sársaukanum. Mér finnst nógu hræðilegt að horfa upp á barnið mitt fá bólusetningu, sem er þó alveg ofboðslega lítill sársauki og þjónar miklu gagni. En til hvers að umskera og leggja þennan gífurlega sárauka á pínulítið barn sem skilur ekkert og ræður engu? Þar að auki sársauki vegna gjörsamlega óþarfrar aðgerðar?

Umskurður hjá gyðingum og múslímum af trúarlegum ástæðum á sér langa sögu, en umskurður á vestrænum löndum án trúarlegra ástæðna byrjaði á Viktoríutímabilinu. Hún var framkvæmd fyrst og fremst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sjálfsfróum hjá drengjum/karlmönnum, sem þótti mjög ónáttúruleg og hættuleg. Ég tel nú að þetta séu ekki nógu góð rök fyrir umskurði í dag.

Þeir sem eru fylgjandi umskurði segja þetta mikilvægt af hreinlætisástæðum og til að koma í veg fyrir sýkingar. Einnig telja þeir að þetta dragi úr hættu á þvagfærasýkingum hjá drengjum og minnki líkur á typpakrabbameini. Einnig hafa margir trú á að umskornir karlmenn séu betri elskhugar. Önnur rök eru að þetta sé gert til að drengirnir séu eins og hinir og verði ekki fyrir aðkasti.

Jæja, við skulum skoða þetta aðeins nánar:

Hreinlæti já. Mér finnst nú skrítið að hugsa til þess að það sé álitið ómögulegt að kenna drengjum að þrífa sig almennilega að neðan þó svo að forhúðin sé til staðar. Þetta eru svona svipuð rök og ef það væri mælt með því að rífa úr allar tennurnar hjá fólki þar sem það er svo erfitt að þrífa þær. Forhúðin er þarna vegna þess að hún hefur tilgang, hún verndar viðkvæman kónginn fyrir ertingu, áreiti og óhreinindum. Ef karlmenn bara taka forhúðina stundum niður til að þrífa þar í kring er þetta nú ekki mikið vandamál. Ætli flestir geri það nú ekki þegar þeir fara í sturtu eða bað? Svo er nú annar misskilningur að “osturinn” sé af hinu illa. Hann þjónar þeim tilgangi að smyrja og mýkja kónginn. Einnig hefur hann bakteríudrepandi eiginleika og verndar því gegn sýkingum. Hjá litlum drengjum á maður að láta forhúðina algjörlega eiga sig, hún hreinsar sig sjálf. Það er ekki fyrr en þeir verða eldri sem hún losnar frá kóngnum og hægt er að draga hana niður til að þrífa.

Það eru einhverjar rannsóknir sem sýna fram á að umskornir drengir séu í örlítið minni hættu á að fá þvagfærasýkingu, aðrar sem sýna það ekki. Þvagfærasýking er yfir höfuð ekki algeng hjá litlum drengjum og ef hún er til staðar á það sér langoftast skýringu í einhverjum meðfæddum göllum á þvagfærum sem valda t.d. nýrnabakflæði o.s.fr. Hættan á aukakvillum vegna umskurðarins, s.s. sýkingum eða að sárið grói illa o.fl. er miklu meiri en sá ágóði sem fæst með tilliti til þvagfærasýkinga (ef hann er þá nokkur).

Typpakrabbamein virðist reyndar vera aðeins sjaldgæfara hjá umskornum karlmönnum, en þetta krabbamein er annars afskaplega sjaldgæft og meira að segja sjaldgæfara en brjóstakrabbi karlmanna. Svo má nú líka benda á að typpakrabbamein er algengara í Bandaríkjunum, þar sem flestir karlmenn eru umskornir, en í Danmörku þar sem fáir karlmenn eru umskornir. Svo ekki finnst mér það góð rök fyrir því að umskera alla litla stráka.

Svo er það mýtan með góðu elskhugana. Það er nú bara hreint og beint bull. Með tímanum verður kóngurinn hjá umskornnum karlmönnum minna næmur fyrir snertingu, vegna þess að hann verður auðvitað fyrir stöðugu áreiti þegar forhúðin er ekki til að vernda hann. Í raun þornar hann upp og það má líkja þessu við að það myndist sigg á honum. Umskornir karlmenn geta því átt í meiri erfiðleikum við að fá fullnægingu, sem kannski sumir túlka sem rosa úthald og mikla getu sem elskhugi. Hins vegar verð ég nú að segja að tilgangslaust hjakk fram og til baka finnst mér ekki vera merki um mikinn elskhuga. Það eru aðrir þættir sem ég met meira.

Hvað varðar atriðið að vera eins og hinir þá er það kannski það atriði sem mér finnst erfiðast að hnekkja. Það vill ekkert foreldri sjá barnið sitt verða fyrir aðkasti. Hins vegar finnst mér það samt ekki nægjanleg ástæða, þar sem það er svo margt sem mælir á móti umskurði. Þá finnst mér mikilvægara að kenna börnum að meta einstaklingsbundinn mismun hjá fólki og kenna þeim ástæðuna fyrir því að umskurður sé óþarfur. Breytingar verða alltaf byrja einhversstaðar. Í Ástralíu var t.d. mjög algengt að láta umskera drengi, en nú er það orðið mun sjaldgæfara eða einungis um 7-15%. Í Bandaríkjunum er nú mikil vakning gegn umskurði og margir karlmenn eru farnir að leita til lýtalækna á fullorðinsaldri til að láta endurgera forhúðina hjá sér.

Jæja, þá er maður búinn að hrekja þessu rök fyrir því að umskurður sé af hinu góða. Þá er næst að koma með hina ókostina:

Fyrst og fremst finnst mér hinn gífurlegi sársauki sem fylgir aðgerðinni alveg nóg til að það ætti ekki að framkvæma hana. Stundum reyndar fæðast drengir með allt of þrönga forhúð, sem kemur reyndar oftast ekki í ljós fyrr en þeir eru aðeins eldri. Þá þarf í sumum tilvikum að fjarlægja forhúðina af læknisfræðilegum ástæðum. Þetta er þá yfirleitt gert þegar barnið er orðið nógu gamalt til að þola svæfingu og drengurinn fær síðan verkjalyf eftir aðgerðina til að draga úr sársaukanum. Í þeim tilvikum er þetta nauðsynleg aðgerð og er allt annars eðlis en hinn hefðbundi umskurður, þar sem verið er að fjarlægja eðlilegan vef agjörlega að óþörfu, og auk þess án neinnar verkjastillingar.

Ýmsar rannsóknir benda til að umskurður geti haft slæm áhrif á tengslamyndun móður og barns, og slæm áhrif á brjóstagjöf. Þetta er ekki órökrétt í ljósi þess að litli umskorni drengurinn hættir ekkert að finna sársauka strax eftir aðgerðina. Það tekur um viku til tíu daga fyrir sárið að gróa og sársaukann að hverfa, en sársaukinn hefur auðvitað áhrif á hegðun barnsins. Ekki er algengt að þessum drengjum sé gefin nein verkjalyf og þeir þurfa því bara að þjást þennan tíma.

Aðgerðin sjálf hefur í för með sér aukna hættu á sýkingum og fleiri fylgikvillum. Sárið getur gróið vitlaust og valdið afmyndun og erfiðleikum við þvaglát og fleira. Einnig er hætta á að drep komis í sárið o.s.fr. Svo er alltaf einhver hætta á að aðgerðin misheppnist á einhvern hátt og það valdi afmyndun á typpinu með tilheyrandi vanlíðan, bæði líkamlega og andlega.

Vissulega ber manni að bera virðingu fyrir siðum og hefðum annarra, en samt sem áður finnst mér allt í lagi að reyna að upplýsa fólk um kosti og galla, ásamt að eyða misskilningi og fordómum, til að það síðan sjálft geti tekið ákvörðun sem þeir telja að sé rétt. Í Bandaríkjunum er umskurður oftast framkvæmdur á sjúkrahúsinu áður en móðir og barn úrskrifast eftir fæðingu. Margir foreldrar hafa hreinlega ekki hugmynd um hvernig umskurður er framkvæmdur og láta gera þetta bara vegna þess að þetta hefur tíðkast. Sem betur fer er nú fólk í auknum mæli að gera sér grein fyrir að umskurður er alveg óþarfur. Í raun er stórfurðulegt að heilbrigðisfólk í Bandaríkjunum skuli ekki beita sér meira fyrir því að stöðva umskurð, þar sem það eru engin læknisfræðileg rök sem mæla með honum. En þetta er samt aðeins að breytast.
Kveðja,