Þessi frétt er tekin af mbl.is í dag

“Kona sem skildi tvö börn sín, bæði undir tveggja ára aldri, eftir ein heima svo þau sultu í hel á meðan hún skemmti sér með kærasta sínum var í dag dæmd til átta ára fangelsisvistar af dómstóli í Kanada. Rie Fujii, 24 ára, viðurkenndi fyrr á árinu að hún hefði gerst sek um manndráp. Fujii er japanskur ríkisborgari og hefur dvalist ólöglega í Kanada.

Búist er við að hún verði send úr landi þegar hún hefur afplánað refsinguna.

Fujii flíkaði ekki tilfinningum sínum við réttarhöldin í dag. Dómari sagði að það hefðu verið ill örlög barnanna að eiga móður sem ekki gat annast þau og föður sem ekki vildi annast þau.

Fujii skildi 15 mánaða son sinn, Domenic Brown, og þriggja mánaða systur hans, Gemini, eftir ein heima í tíu daga á meðan hún brá sér í ferðalag með kærastanum.

Þá sagði dómari að faðirinn hefði beitt Fujii andlegu og líkamlegu ofbeldi bæði fyrir fæðingu barnanna og eftir. Hann hefði ekki gert neitt til að styðja fjölskyldu sína. Óábyrg hegðun hans hefði átt stóran þátt í harmleiknum”

Hvað er að löggjöfinni þarna? Átta ára fangelsi fyrir að vera völd að láti tveggja ósjálfbjargra barna sinna. Mér finnst að þau hefðu átt að vera áttatíu.

En þetta er nú í Kanada. Þá fór ég að spá, hvernig er nú löggjöfin hér á landi. Ég er ekki lögfróð manneskja, amk ekki í refsirétti. Ég veit ekki um neinn sambærilegan dóm hérlendis. En til eru margir dómar í öðrum brotum gagnvart börnum, sérstaklega þó kynferðisbrotum. Öll vitum við hvernig þeir eru. Svo eru það öll hin brotin. T.d. þau sem að koma kannski ekki fyrir dómstóla, heldur eru leyst af barnaverndaryfirvöldum og félagsmálayfirvöldum. Eru einhverjar reglur þar um hversu alvarleg vanræksla og slíkt skal vera áður en að viðkomandi er kærður fyrir atvikið? Ekki bara að málið sé leyst með því að taka börnin af viðkomandi.

Ef að einhver hérna er fróður um þessi efni þá væri gaman að heyra hvað löggjafinn segir um þessi mál.

Mér finnst bara alltaf jafn erfitt að hugsa til þess að svona hlutir geti átt sér stað. Að mínu mati eru alvarlegastir þeir glæpir þar sem að ráðist er gegn ósjálfbjarga börnum sem aldrei eiga möguleika á að hafa betur, eins og t.d. þessum systkinum.

Blessuð sé minning þeirra og annarra barna sem hafa látið lífið á jafn skelfilegan hátt.
það besta sem Guð hefur gefið mér……… eru börnin mín