Ég er oft að velta fyrir mér hvort að við séum stundum að ofvernda börnin okkar nú á dögum, eða hvort við höfum verið svona ofboðslega kærulaus varðandi þau á árum áður. Eflaust er umhverfið í dag eitthvað hættulegra en áður, og þó.

Hér áður fyrr voru börn fljótt látin taka þátt í heimilisstörfunum. Alveg sjálfsagt þótti að eldri börn gættu þeirra yngri, 5-6 ára krakkar voru jafnvel farnir að bera mikla ábyrgð á yngri systkinum sínum. Í dag þætti það hreint og beint mikið ábyrgðarleysi að láta 5 ára barn passa yngra systkini sitt. Ekki var barnapössun það eina sem börn þurftu að sinna, heldur einnig hin ýmsu heimilisstörf, s.s. að þrífa, elda, þvo þvott og fleira, ásamt að sjálfsögðu verkum utanhúss. Í sveitum fólst þetta t.d. í að mjólka beljurnar, sækja þær úr haga, moka flórinn o.fl., o.fl. Þetta myndu margir flokka sem barnaþrælkun í dag.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við í dag látum börnin gera of lítið og fá of litla ábyrgð. Ég er nú ekki á því að við ættum að hverfa aftur til 19. aldarinnar og láta börn vinna frá morgni til kvölds, en er ekki í lagi að láta þau gera eitthvað?

7 1/2 árs dóttir mín fer stundum út með litlu systur sína sem er 2 1/2 árs, leikur við hana og passar hana. Sumum fyndist ég eflaust mjög ábyrgðarlaus mamma að láta hana taka ábyrgðina á þessu. Sjálf tel ég dóttur mína fullfæra um að sinna þessu hlutverki. Þær eru ekki að leika sér nálægt hættulegri umferðargötu, mega ekki fara langt frá húsinu og ekki fara yfir umferðargötu og sú eldri er ekki að passa þá yngri lengi í einu.

Verk eins og að sendast út í búð, taka til í herberginu, hjálpa til við að vaska upp og elda mat finnst mér bara alveg sjálfsagt að börn taki þátt í. Ég er þeirrar skoðunar að börn læri ábyrgð og fái aukið sjálfstraust ef þeim er treyst fyrir ákveðnum verkum sem þau geta innt af hendi. Svo kennir þetta þeim vonandi að vera ekki löt og að það sé sjálfsagt að allir hjálpi til á heimilinu.
Kveðja,