Sælt verið fólkið!

Nú langar mig að fá smá umræður um málefni sem ég hef verið að velta fyrir mér og sjálf ekki alveg komin með niðurstöðu í en það er börn og keppnisíþróttir.
Eldri sonur minn æfir og keppir knattspyrnu með 6. flokki drengja. Fyrir hvert mót sem hann fer á fær hann viðurkenningapening (sem er alveg nóg fyrir suma) en síðan eru einnig veitt verðlaun eins og á hverju öðru fótboltamóti, fyrir fyrstu þrjú sætin og yfirleitt prúðasta liðið og þess háttar. Þessi verðlaun eru einnig veitt (í flestum tilvikum held ég) í 7. flokki.
Sumir eru mótfallnir því að börn keppi til verðlauna. Ég man að ÍSÍ gaf út bækling um árið um börn og íþróttir þar sem eitthvað var komið inn á þetta og hvatt til að fyrstu árin væri í raun ekki um keppni að ræða.
Annað í dæminu er hvernig krökkum er skipt í lið. Í 6 flokki eru tveir árgangar, börn á 9. og 10. ári. Eins og þetta er hjá syni mínum þá eru flestir af eldri árganginum í A og B liði (enginn úr yngri árgangi í þeim liðum) en nokkrir þeirra eldri lenda þó í C og jafnvel D með yngri krökkunum. Inn í þetta spilar einnig ástundun, þeir sem mæta oftast eiga meiri séns á að lenda í betra liðinu (lógískt jafnvel, því meir sem þú æfir því betri ertu).
Nú er sonur minn í C, hann er í yngri árgangi, mjög duglegur að mæta og er því í “betra” liði yngri árgangs. Þannig að ég heyri kannski ekki svo mjög umræðuna en ég get ímyndað mér að einhverjum 10 ára drengjum sárni að vera settir jafnvel í D lið með yngstu peyjunum. Af því að þeir eru ekki nógu góðir?
Mér skilst líka að KR ingar hafi þá stefnu að ef liðin þeirra lenda í jafntefli í úrslitum eða undanúrslitum (ég er þá að tala um á móti eins og t.d. Shellmóti) þá gefa þeir leikinn þar sem þeir vilja ekki að börnin þeirra taki þátt í vítaspyrnukeppni (sem er reyndar persónulega það skemmtilegasta sem sonur minn lendir í en hann er í marki!)
Hin hlið málsins er að einhvern tímann þurfum við að læra að tapa, (sonur minn hefur persónulega haft mjög gott af þessu) og að sumir eru betri en aðrir og að oft(ast) eru það einmitt þeir sem leggja mest á sig sem uppskera mest. Þessir krakkar eru byrjaðir í skóla og eru því strax farnir að sjá að það fá sumir hærri einkunn en aðrir. Og í sumum skólum er jafnvel farið að getuskipta.

Jæja hvað finnst ykkur?
Eiga börn að keppa í íþróttum (spurningin er líka, erum við ekki alltaf að keppa, við okkur sjálf ef ekki aðra)?
Eða á þetta bara að vera leikur ? - Fram að hvaða aldri?
Hversu lengi eigum við að hlífa börnunum við tapi/getuskiptingu osfrv.?
Eins og þið getið kannski séð þá er ég frekar inni á þeirri línu að þetta sé bara allt í lagi, kannski af því að sonur minn er heppinn/duglegur að mæta/góður í fótbolta.
En ég skil líka alveg litlu brostnu hjörtun (sem eru kannski ekki síður hjá foreldrunum!)
Kveð ykkur,