Hér í Noregi er búin að vera töluverð umfjöllun um fyrstubekkinga og hvort þeir séu að fá næga kennslu eða ekki. Málið er að fyrir nokkrum árum var skólakerfinu breytt hér úr 9 árganga kerfi í 10 árgangakerfi. Hér byrja sem sagt börnin í 6 ára bekk, eins og heima á Íslandi.

Nú er hins vegar verið að gagnrýna kennsluna í fyrsta bekk og margir vilja meina að það sé of mikið um leik og of lítið um eiginlega kennslu. Margar skólastofur fyrstubekkinga hafa ekki einu sinni skólaborð fyrir börnin, heldur fer öll kennsla fram í hring á gólfinu, eða einhverju svipuðu. Gagnrýnendur vilja meina að börnin byrji í skólanum spennt og full áhuga á að læra að lesa og skrifa, en verði fyrir vonbrigðum þegar þau komast að því að fyrsti bekkur er bara framlenging á leikskólanum. Þau klára fyrsta bekk án þess að vera búin að læra að lesa og skrifa, þar sem nær allur tíminn hafi farið í leik og föndur. Einnig er talað um að fjórðu bekkingar í dag séu verr læsir en þriðjubekkingar voru áður en kerfinu var breytt.

Miðað við mína reynslu af skólagöngu dóttur minnar á Íslandi er þetta ekki málið þar. Í fyrsta bekk læra þau stafina og síðan að lesa og skrifa. Þau eru langflest farin að lesa og skrifa þokkalega þegar fyrsta bekk lýkur. Einnig eru þau orðin nokkuð klár í einfaldri stærðfræði. Þau fá sem sagt “alvöru” kennslu.

Nú er ég alls ekki hlynnt því að í fyrsta bekk sé bara ströng og stíf kennsla á “hefðbundinn” hátt, þar sem kennarinn stendur uppi við púltið og nemendurnir sitji þægir og duglegir og hlusti á og læri. Börn á þessum aldri læra mjög mikið í gegnum leik, en leikurinn gefur þeim tækifæri á að tjá sig og læra á þann hátt að þeim mistekst ekki og fá ekki gagnrýni fyrir; það eru ekki gefnar einkunnir fyrir leik.

Hins vegar tel ég að 5-6 ára börn séu mörg hver vel í stakk búin til að takast á við erfiðari verkefni. Eins og að læra að vera stillt í tímum, hlusta á kennarann, og einmitt læra að lesa og skrifa. Flest þessara barna eru agalega spennt að byrja í skólanum; þau eru loksins orðin STÓR. Ég get því vel ímyndað mér að þau vilji meira en leikskólaefni þegar þau byrja í skólanum, enda tengja þau allflest skóla við það að læra að lesa og skrifa. Þótt leikurinn sé enn alveg nauðsynlegur held ég að það ýti líka mikið undir sjálfstraust þeirra og sjálfstæði að takast á við “alvöru” verkefni og finna að þau ráði við það.

Ég held að þetta takist ágætlega á Íslandi. Eflaust er munur á milli skóla, en allavegana var ég mjög ánægð með fyrsta skólaár dóttur minnar. Þar var sett saman hæfileg blanda af leik og verkefnum, verkefnum sem eru ekki of erfið heldur hæfa aldri og þroska þessara barna.
Kveðja,