Ég vona að þið nennið að lesa þetta, því að ég er búin að pæla í þessu frekar lengi og ákvað að senda þetta hingað þegar ég las greinina um I am Sam-þroskaheftir sem foreldrar.

Ég er nú reyndar “sem betur fer” bara ung ennþá og er ekkert á leiðinni að eignast barn. Samt er ég að pæla í því; ef ég myndi uppgötva að ég væri ófrísk og myndi síðan vara í ómskoðun eða legvatnsástungu (eða hvað þetta heitir nú allt) og það kæmi í ljós að barnið mitt væri fjölfatlað eða alvarlega þroskaheft. Myndi ég fara í fóstureyðingu? Ég myndi örugglega fara í fóstueryðingu, hvort sem barnið væri heilbrigt eða ekki, vegna þess að ég er enn svo ung. En hvað ef ég ætlaði eignast barn og þetta myndi gerast?
Það er nú langt í það ennþá að ég fari að eignast börn og kannski ekki miklar líkur til þess að maður eignist fatlað barn á móti því að eignast heilbrigt, en það er samt aldrei hægt að ætlast til þess að maður eignist “hið fullkomna barn”. Þannig að það er allt í lagi að velta þessari spurningu fyrir sér, sem mörgum finnst vera létt en öðrum finnst mjög erfið. Mér finnst hún mjög erfið, ég hef EKKI hugmynd um hvað ég myndi gera í þessum sporum og upp vaknar sú spurning hvort að fara í fóstureyðingu sé morð. Ég er ekki einu sinni viss um það heldur!

Satt að segja held að ég hafi mjög góð rök fyrir því að velja báða kostina, en það er víst ekki hægt

Ég myndi ekki eignast barnið af því að:
Það yrðu öðruvísi en aðrir t.d. ekki geta farið í sama skóla og jafningjar þess.
það gæti sjálft ekki eignast barn hvað þá að hugsa um barn.
Það myndi hugsanlega aldrei eignast kærasta/kærustu, sem getur veitt manni mikla hamingju í lífinu.
Það þyrfti alltaf að horfa á aðra og spyrja sig, “af hverju er ég ekki eins?”
Það gæti aldrei orðið sjálfstæður einstaklingur og tekið sjálfstæðar ákvarðanir.
Nánast er víst að það yrði oft fyrir fordómum.

Ég myndi eignast barnið af því að:
Það gæti farið í skóla og orðið hamingjusamt þrátt fyrir fötlun sína.
Það gæti jafnvel eignast kærasta.
Ef að ég myndi hugsa vel um það má myndi því líða VEL alveg eins og “venjulegum börnum”.
Það myndi læra að “díla” við fötlun sína og læra að lifa með henni rétt eins og heyranlausir læra að lifa með því að heyra ekki.
Ég á góða vini og góða foreldra sem myndu hjálpa mér með uppeldið og því myndi barninu líða betur.
Ég myndi koma barninu í skilning um að þeir sem séu með fordóma gangnvart því séu verstir sjálfir.

Mér finnst alltof mikið um að fólk sé að nota svona rök eins og “fatlaðir eru líka fólk”, og “hver er munurinn á því að ala upp fatlað barn eða heilbrigt?”. Þetta finnst mér hræðileg rök, vegna þess að þau snúa bara að foreldrunum sjálfum en þau gleyma barninu, sem jú allt snýst um. Það er kannski ekki mikill munur á því fyrir foreldrana að ala upp fatlað barn eða heilbrigt. En mun fatlaða barninu líða eins vel hjá þeim?
Ég lesa á www.downs.is að ein móðirin segðist ekki vilja búa í heimi þar sem allir eru eins. Var hún þá bara að eignast barnið sitt út af því? Bara svona til þess að krydda mannlífið? Nú munu eflaust margir snúa út úr. En hvernig á að skilja þetta öðruvísi? Á maðurinn sem missti handlegginn ekki að fá nýjan bara svo hann sé öðruvísi?

En eftir þessa löngu grein hef ég ekki eina hugmynd um hvað ég myndi gera ef að ég gengi með fatlað barn og gæti farið í fóstureyðingu. Ég held að það fari eftir svo miklu t.d. aðstæðum foreldranna. Ég er því HLUTLAUS! En hvað um ykkur?
Þetta er bæði erfitt og mjög viðkvæmt mál og ég vona að enginn verði reiður yfir þessari grein.