Ég hef nú ekki þurft að nota strætó í langan tíma, en þar sem ég var að selja bílinn minn þá þurfti ég að notast við almenningsvagnana í dag. Það var svo sem ekki í frásögur færandi nema að það kemur ung stúlka inn í strætó með ungabarn á hendinni. Hún borgar og labbar svo af stað til að finna sér sæti, og það var svo sem ekki að spyrja að því; strætóbílstjórin rykkir af stað um leið og hún var búin að borga, svo stúlkan var næstum dottin með barnið.

Það hreinlega rifjaðist upp fyrir mér á einu andartaki hvað strætisvagnabílstjórar geta verið tillitslausir gagnvart barnafólki í strætó. Já, og öðrum líka, t.d. gömlu fólki og krökkum.

Ég lenti svo oft í þessu sjálf þegar ég var strætónotandi með elstu stelpuna mína litla. Það er ekkert ofboðslega auðvelt að halda jafnvæginu þegar rykkt er af stað, ef maður er með ungabarn á öðrum handleggnum og kannski innkaupapoka á hinum.

Og svo er það brasið með barnavagnana. Maður var stundum upp á náð og miskunn góðhjartaðra samstrætóinga kominn til að komast með góðu móti inn og út úr strætó, ekki dettur þessum strætóbílstjórum í hug að aðstoða.

Nú svo gat nú verið ansi troðið í strætó stundum og maður þurfti að standa. Þá var maður stundum í heljarinnar líkamsrækt við að halda sér og barninu í heilu lagi án þess að þeytast þvert og endilangt um vagninn. Stundum kom þó fyrir að einhver almennilegur einstaklingur stóð upp og bauð manni sæti.


Nú spyr ég ykkur sem eruð vön að taka strætó, er þetta enn algengt eða er þetta eitthvað að skána?

Satt að segja finnst mér að það mætti leggja meiri áherslu á tillitssemi við farþega í starfi strætisvagnabílstjóra. Ég bjó t.d. í Svíþjóð í tæp sjö ár og þar var það algjör undantekning ef strætóbílstjóri rykkti af stað ef inn kom farþegi sem átti einhverra hluta vegna erfitt með jafnvægi (t.d. með barn á handleggnum, hreyfihamlaður eða aldraður). Þá tók bílstjórinn bara ekkert af stað fyrr en viðkomandi var sestur. Ef einhver kom að með barnavagn og enginn gerði sig líklegan til að aðstoða, þá stökk strætisvagnabílstjórinn sjálfur upp og aðstoðaði manneskjuna (held hreinlega að þetta hafi verið skylda í þeirra starfi). Það var líka ALLTAF einhver sem stóð upp fyrir þeim sem áttu erfitt með að standa, ef strætisvagninn var fullur. Allavegana varð ég aldrei vitni að öðru.

Eru það kannski bara íslendingar almennt sem eru óduglegir við að taka tillit til annarra, ekki bara strætisvagnabílstjórar… eða hvað?
Kveðja,