Halló, má til með að segja ykkur fréttir af okkur hjónunum og fæðingarorlofinu okkar.
Nú er pabbinn búinn að vera heima í einn mánuð og ætlar að vera mánuð í viðbót á meðan ég er búin að vera að vinna allan daginn. Þetta gengur alveg súper vel og mér finnst það ótrúlega dýrmætt fyrir alla aðila að fá þetta tækifæri til að “snúa hlutunum við”.
Auðvitað eru heimilisstörfin ekki gerð nákvæmlega eins og ég myndi gera þau en hvað með það? Ég er mest ánægð með að þau skuli vera gerð eitthvað, á einhvern hátt. Frábært að eiga ekki allt eftir þegar maður kemur heim úr vinnunni.
Litli er bara voða ánægður með þetta. Ég held að “pabbi” verði fyrsta orðið, alla vega er komið mikið babababababa í bablforðann.
Það jaðrar stundum smá við að maður sé abbó, eftir að hafa verið nr. 1 í svona langan tíma :) Nei þetta er voða fínt. Það fyndna er það sem við vorum að spá í um daginn, þegar ég var heima þá var ég svona “kúra-upp-að og fá-huggun-hjá-þegar-maður-meiðir-sig-eða-eitthvað-er-að-fyrirbæri” en pabbi svona “fyndna-sprelli-fyrirbærið”.
Núna er þetta öfugt. Hann býst alltaf við einhverju sprelli þegar ég kem heim, ég á að segja “bú” og “á ég að taka í þig!”.

Ég mæli með þessu fyrirkomulagi við hvern sem er og sérstaklega fyrir pabbana, reyniði að taka eitthvað orlof einir með börnunum. Ég held að það sé bara allt annar hlutur en að hafa mömmuna hangandi yfir sér og stjórnandi hlutunum (sem við gerum svo alltof oft, ekki satt?).

Svo verður auðvitað stórmál þegar við þurfum bæði að fara að vinna en við tökum á því þegar þar að kemur. Ætli það endi ekki bara með aðkeyptri heimilishjálp?

Eitt enn: Heimilisstörfin eru ekki eins auðveld og sumir héldu ;) Svo hugmyndin um aðkeyptu heimilishjálpina er ekki eins fjarlæg og hún var í fyrstu!
Kveð ykkur,