Ég var að skoða heimasíðuna hennar Huldu í gær og rakst á setningu sem vakti athygli mína. Á “Mæ Heit List” segist Hulda hata “Fólk sem heldur að maður verði að vera hámentaður og búin að kaupa sér íbúð áður en maður getur eignast barn!”.
Ég er 24 ára og er að ljúka BA námi í Háskóla Íslands. Ég er búin að vera með manninum mínum í tæp 5 ár og fyrir þremur árum keyptum við okkur íbúð saman. Samband okkar er mjög gott og okkur skortir ekkert. Samt viljum við bíða með að eignast barn.
Aðalástæða þess að ég vil bíða með að eignast barn er sú að mig langar til að geta veitt því það öryggi sem það á skilið. Ég vil ekki lenda í því sama og vinkona mín, sem hefur ekki efni á því að senda strákinn sinn á fótboltanámskeið og á oft í mesta basli með að kaupa handa honum föt (og þá meina ég nauðsynleg föt, t.d. vetrargalla, leikfimiskó o.s.frv.). Ég vil heldur ekki lenda í því sama og systir mín, sem eignaðist börnin sín ung með æskuástinni sinni en var orðin einstæð tveggja barna móðir fyrir þrítugt (og á lágum launum). Börnin hennar eru á sífelldu flakki á milli mömmu sinnar og pabba og ég held að það sé ekki gott tilfinningalega fyrir börn að lenda í því.
Eins og staðan er í dag tel ég að ég geti ekki veitt barni þetta öryggi. Þrátt fyrir að við eigum íbúð þá er hún ekki stór og ef að við eignuðumst barn þyrftum við að fjárfesta í stærri íbúð, sem við höfum ekki efni á núna. Ég geri mér alveg grein fyrir því að sama hversu gott samband okkar er í dag, þá er aldrei að vita hvernig það verður eftir einhver ár og að ég get aldrei fengið einhverja tryggingu fyrir því að ég eigi ekki eftir að verða einstæð móðir. Þess vegna finnst mér mikilvægt að mennta mig áður en ég eignast barn. Það eykur atvinnutækifæri og líkur á því að ég hafi efni á því að veita barninu mínu allt það sem það þarfnst. Ég verð nú líka að viðurkenna að það spilar inn í að ég hef mjög mikinn áhuga á náminu og mikinn metnað til þess að verða fær sérfræðingur á mínu sviði.
Ég vil taka það fram að ég er ekki að skrifa þessa grein til þess að gagnrýna skoðanir Huldu. Ég er ekki ein af þessum manneskjum sem heldur að maður VERÐI að vera hámenntaður og búinn að kaupa sér íbúð áður en maður eignast barn, mér finnst það bara æskilegra hvað mig varðar. Ég á vinkonur sem eignuðust börn ungar og þær segja allar að það hafi verið það besta sem kom fyrir þær. Það er ekki dauðadómur að eignast barn ungur, en það getur verið erfitt. Ungar mæður búa margar á heimilum foreldra sinna og það getur sett pressu á samskiptin þeirra á milli þegar þriðja kynslóðin bætist við. Þetta þekki ég frá vinkonum mínum. Eins verður mun erfiðara að ljúka námi eftir að maður eignast barn. Sumir eru heppnir og eiga góða foreldra, ættingja og vini sem hjálpa til, en það eru alls ekki allir.
Það fylgja því kostir og gallar að bíða með barneignir. Einhvers staðar las ég að konur næðu líkamlegum hátindi sínum 18 ára gamlar og eftir það hæfist hrörnunin. En eins og þjóðfélagið er í dag, þá eru flestar 18 ára stúlkur ekki búnar að koma undir sig fótunum eða finna framtíðarmakann. Það má samt heldur ekki bíða OF lengi með barneignir, því líkur á fósturgöllum aukast með aldri móðurinnar. Er það ekki bara hinn gullni meðalvegur sem blívar hér? Ég gæti trúað að í mínu tilviki væri fínt að eignast barn um 26 ára. Þá ætti ég að vera vel á veg komin með mastersnámið og búin að kaupa stærri íbúð þar sem barnið mitt fær nóg pláss til að leika sér!
Ég vil endurtaka það að ég er ekki að gagnrýna skoðanir Huldu og ég er alls ekki að segja að ungar mæður séu verri mæður en þær sem eldri eru. Ég er bara að lýsa mínum skoðunum á barneignum. Það væri gaman að heyra hvað ykkur finnst um málið, bæði þau sem eignuðust börnin ykkar ung, og þið sem voruð orðin eldri.