Jæja það var sko upplifun um daginn. Við fórum í bíó að sjá Ísöldina, öll fjölskyldan. Þannig að þetta var fyrsta bíóferð yngri stelpunnar, sem er núna rúmlega tveggja ára. Þetta var alveg frábært. Hún var alveg skíthrædd fyrst þegar auglýsingarnar voru, en það var bara af því að hávaðinn var svo mikill. Svo sýndum við henni að hún gæti gripið fyrir eyrun ef hún vildi og það fannst henni voða sniðugt. Síðan byrjaði myndin og hún sat alveg dolfallin og horfði á þetta. Maður svona útskýrði smá, eins og að fíllinn og letidýrið ætluðu að finna pabba litla barnsins, og að tígrisdýrið væri að reyna að taka barnið. Henni fannst þetta rosa spennandi, lifði sig algjörlega inn í söguna og kommenteraði heilmikið á atburðarásina á köflum :) Svo var ferlega fyndið að þegar henni fannst lætin verða of mikil greip hún bara um eyrun, búin að læra það sko.

Þessi bíóferð var svo aðalumræðuefnið í marga daga á eftir, greinilega verið mikil upplifun. Daginn eftir þegar hún vaknaði horfi hún á mig og það fyrsta sem hún sagði var: Mamma, koma attur lætin? Attur bíó? Bíó er í hennar augum bara þessi mynd og ef hún sér auglýsingar um Ísöldina þá bendir hún á þær og segir: þette bíó :)

Þetta var allavegana alveg frábært. Ég var pínulítið hrædd um að hún væri of ung til að endast yfir heillri mynd í bíó og að hún yrði bara hrædd og að við þyrftum að fara út, en það var nú alldeilis ekki. Þetta var bara þvílíkt fjör. Þið hefðuð átt að sjá hana þarna með popp og svala, sitjandi á svona upphækkunarpúða ein í sæti, grafalvarlega að horfa á mynd í bíó :)
Kveðja,