Dóttir mín er hrifin af bókum, svo ekki sé meira sagt. Hún er að eins og hálfs árs og hefur tekið til sín ansi margar bækur, en þó ansi oft sömu bókina. Maður má nú ekki ýkja. En bækurnar eru henni meira en andlegt fóður. Henni finnst þær nefnilega góðar á bragðið líka. Sú bók sem smakkast hvað best er bókin Arfur ræningjans eftir Bob De Moor sem teiknaði fyrir Hergé, höfund Tinna. Hvers vegna bókin er svona bragðgóð er mér hins vegar ráðgáta. Er svona gott bragð af blekinu eða er pappírinn af einhverri sérstaklega braðgóðri tegund, gamall og góður eins og vín? Henni er að minnsta kosti ekki sama hvaða bók það er sem hún smakkar á svo hún hefur greinilega þróað með sér einhvern smekk á pappír, eða bleki, líkt og sá sem dáist að góðum vínum. Aðrar bækur sem hafa höfðað til bragðlauka litla augasteinsins eru Litli skógabjörninn eftir Illuga Jökulsson og Fuglabókin sem ég finn ekki núna, vona að hún hafi ekki klárað hana!
Sem snarl milli mála eru púkabækurnar eftir Steve Augarde vinsælar. Er þetta kannski það sem koma skal? Verða bækur ætilegar eftir nokkur ár? Það væri kannski ekki svo vitlaust. Börnin myndu þá ef til vill líta á bækurnar í örlitla stund meðan setið væri að snæðingi áður en haldið væri áfram í tölvuleikjunum. Ég sé það fyrir mér að geta keypt bækur eftir Dóra Lax með mismunandi bragði. “Fá Brekkukotsannál með jarðarberja- og bananabragði”. Svo færi maður heim með bókina, byrjaði að lesa, og þegar maður væri búinn með síðuna myndi maður rífa hana úr og smjatta á henni. Að sjálfsögðu yrði að vera innihaldslýsing á bókinni, fita, kolvetni, orka, sykur, braðefni og allt sem því fylgir. Þeir sem væru sérstaklega mikið fyrir japlið færu að lesa þykkar bækur eins og Stríð og frið eftir Leo Tolstoy eða jafnvel heilu orðabækurnar. Kosturinn við þetta er auðvitað sá að maður þarf ekki að hætta að lesa til að nærast og ekki þyrftu “bókhneigðir” að kaupa bókamerki. Annars myndi orðið bókhneigð sennilega fá nýja merkingu. Ef maður sæi einhvern akfeitan mann úti á götu þá væri spurning hvort maðurinn borðaði svona mikið eða læsi bara svona margar bækur, eða ynni á bókasafni! Við fermingu væri algerlega vonlaust að gefa Nýja testamentið. Krakkarnir myndu allir klára það án þess að lesa staf! Ef maður heyrði svo prestinn japla á einhverju í messunni, þá væri hægt að álykta sem svo að hann hefði fengið sér Biblíu með súkkulaði og rúsinum. Það er kannski ekkert vit í þessu, en dóttir mín yrði mjög sátt held ég.