Ég verð nú bara að fá að monta mig smá af eldri stelpunni minni sem er 7 ára. Um daginn þá kom hún mér svoleiðis á óvart með því að vera búin að taka til í herberginu sínu alveg skínandi vel og algjörlega óumbeðin. Ég varð auðvitað ofboðslega ánægð með þetta og hrósaði henni í hástert og hún var mjög ánægð og stolt. Síðan draslaðist náttúrulega aftur til eins og gengur og gerist, og í gær var hún að afska við mig hvað það væri mikið drasl í herberginu hennar. Ég svaraði bara að hún hefði nú tekið svo vel til um daginn að ég væri ekkert reið yfir þessu drasli, því að hún hefði sýnt mér að hún gæti og myndi laga það til hvort sem er.

Svo í dag var vetrarfrí í skólanum og stelpan því heima. Ég lagði mig aðeins um hádegið og þegar ég kem fram þá var mín skvísa búin að taka til í stofunni til að koma mér á óvart. Svo fór hún inn í herbergið sit og tók þar allt til rosa vel. Ég var nú bara alveg bit á þessu :) Auðvitað fékk hún þvílíkt hrós frá mér og hún ljómaði af stolti. Svo um kvöldið laumaðist ég út í búð og keypti smá verðlaun handa henni, mér fannst hún alveg eiga það skilið.

Þessi veraldlegu verðlaun virðast þó alls ekki hafa verið hvatinn að þessu hjá henni, heldur bara að gleðja mömmu og fá hrós. Get samt ekki ímyndað mér að það skaði á nokkurn hátt að hún fengi svo líka verðlaun. Mér finnst einmitt að börn eigi að finna að ef þau gera góða hluti þá fái þau góða hluti á móti (ekki bara veraldlega eins og verðlaunin, heldur líka bros og hrós).

Ég veit að sumum foreldrum finnst algjörlega rangt að vera að veita verðlaun fyrir hluti sem þeim finnst sjálfsagt að börnin geri, t.d. að taka til og hjálpa til á heimilinu. Þeir telja að veiting verðlauna muni aðeins valda því að börnin geri ekki neitt nema að þeim sé umbunað fyrir það á einhvern hátt. Samt virðast menntaðir uppeldisfræðingar hvetja til notkunar á svona atferlismótandi aðferðum, eins og að veita verðlaun fyrir góða hegðun. T.d. í formi veraldlegra hluta, fríðinda, punktakerfis o.s.fr., þar til að hegðunin sem óskað er eftir er orðin að vana. Þá er hægt að draga úr verðlaunakerfinu og barnið heldur samt áfram með góðu hegðunina. Ég er alveg sannfærð um að þetta sé rétt og að þetta sé sniðug aðferð til að hvetja börn til að taka upp góða hegðun og láta af slæmri. Ekki samt gleyma að hrós og bros skiptir rosalega miklu, allavegna virkaði það langbest á mína ;)
Kveðja,